Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Spyrja hvort gosinu lokið
VF/Ísak Finnbogason
Miðvikudagur 8. maí 2024 kl. 21:42

Spyrja hvort gosinu lokið

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands veltir því upp í færslu á Facebook í kvöld hvort eldgosinu við Sundhnúka sé lokið.

„Gosórói hefur fallið stöðugt frá því snemma í morgun og samhliða því hefur gaslosun úr gígnum minnkað verulega eftir því sem liðið hefur á daginn. Smávægis bjarmi var enn sjáanlegur í gígnum síðustu nótt ásamt því að stakar og litlar hraunslettur sáust af og til í rökkrinu fyrri part nætur. Bjarmi getur enn verið úr glufum þar sem glóandi heitt gas streymir upp þó engin bráð sé sjáanleg,“ segir í færslunni sem endar á þeim orðum að flug yfir gosstöðvarnar ætti hinsvegar að geta skorið út um hvort gosinu sé lokið eða ekki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kvikusöfnun og landris heldur áfram í Svartsengi. Hefur hraðinn haldist nánast óbreyttur síðustu vikur. Þessar mælingar benda til þess að þrýstingur haldi því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu. Áfram eru því líkur á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, segir í tilkynningu Veðurstofu Íslands frá því í gær.

Tvær sviðsmyndir eru áfram líklegastar hvað varðar framhaldið á virkninni á Sundhnúksgígaröðinni:

Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.

Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúksgígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður afar skyndileg smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu. Mikilvægt er að benda á að fyrirvarinn getur orðið mjög stuttur, innan við hálftími, jafnvel enginn.