Fréttir

Komust óséðir um flugvallarsvæðið og földu sig í flugvél
Sunnudagur 8. júlí 2012 kl. 10:34

Komust óséðir um flugvallarsvæðið og földu sig í flugvél

Tveir menn smygluðu sér inn í flugvél Icelandair í nótt, en vélin var á leið til Kaupmannahafnar. Þeir lokuðu sig inn á salerni vélarinnar. Um fjögurra tíma seinkunn varð á flugi vélarinnar, en hún fór í loftið um kl. 5 í morgun. Frá þessu er greint á mbl.is.


Það voru flugmenn vélarinnar sem urðu varir við mennina þegar þeir mættu til starfa um miðnættið. Þeir höfðu lokað sig inn á klósetti og neituðu að opna. Kallað var á lögreglu sem náði að lokum að opna hurðina og handtaka mennina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024


Vegna tafa sem þetta mál olli var áhöfn flugvélarinnar að komast fram yfir þann tíma sem hún má vera í vinnu og því þurfti að kalla út aðra áhöfn. Jafnframt var ákveðið að önnur flugvél færi í flugið.


Ekki liggur fyrir hvernig mennirnir komust inn á flugvallarsvæðið og inn í flugvélina. Málið er í rannsókn.


Menn frá Alsír


Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru mennirnir tveir frá Alsír, en þeir hafa verið talsvert í fréttum undanfarið. Þeir hafa dvalist hér á landi í nokkurn tíma sem flóttamenn. Þeir sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna þess að þeir framvísuðu fölsuðum skilríkjum við komuna til Íslands.


Piltarnir sögðust vera 15 og 16 ára gamlir, en lögregla hafði efasemdir um að þeir hefðu gefið upp réttan aldur. Gæsluvarðhaldið var gagnrýnt þar sem mennirnir væru ungir og féllu hugsanlega undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.