Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Aðsent

Hafnargötuhugleiðingar
Föstudagur 16. nóvember 2018 kl. 06:00

Hafnargötuhugleiðingar

Gráu viscose jakkafötin sem ég notaði svo ótrúlega mikið eða alveg þangað til ég fékk athugasemdina frá frænku minni, „þú ert alltaf svo fín í þessum fötum“, sem sagði mér að það væri kannski komið að leiðarlokum hjá mér og dressinu. Svarti glansandi jakkinn með risastóru herðapúðunum sem passaði svo glimrandi vel við fjólubláa strokkapilsið mitt. Skær-neongula, últra skvísulega peysan mín sem ég er í á annarri hverri mynd á menntaskólaárunum. Og nær í tíma, dásamlega mjúka prjónaða minkasláin sem hefur haldið á mér hita í mörg ár og er alltaf í uppáhaldi.

Listinn er auðvitað miklu lengri, en það sem þessar nokkrar uppáhaldsflíkur síðustu áratuga eiga sameiginlegt (fyrir utan þá augljósu staðreynd að eigandi þeirra hefur aðeins lent í tískuslysum í gegnum tíðina) er að þær eru allar keyptar í versluninni Kóda, verslun sem hefur verið rekin af metnaði og myndarskap við Hafnargötuna í 35 ár.  Þeim hefur alltaf tekist að vera með puttann á púlsinum, á herðapúðatímabilinu kom ég iðulega með vinkonurnar úr höfuðborginni í verslunarferðir til Keflavíkur þar sem þær Kristín og Dóra pössuðu vel upp á að hafa allt það nýjasta og flottasta á boðstólnum. Og núna eru þær systur, Kristín og Hildur, á tískuvaktinni og taka alltaf jafn vel á móti manni þegar maður lítur við í búðinni. Verslunin er einn af föstu punktunum á Hafnargötunni og vona ég sannarlega að hún verði þar áfram næstu 35 árin að minnsta kosti. Ég vil óska þeim systrum innilega til hamingju með afmælið og úthaldið og nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim fyrir að gera bæinn okkar betri og skemmtilegri.

Public deli
Public deli

Ég er mikill áhugamaður um líflegan miðbæ og held að við getum gert svo miklu betur í að tryggja honum vöxt og viðgang. Metnaður bæjaryfirvalda í þessum efnum mætti sannarlega vera meiri og kalla ég enn og aftur eftir einhverri heildarsýn hvað skipulagsmál í miðbænum varðar. Ég ber hins vegar ótakmarkaða virðingu fyrir því dugnaðarfólki sem stendur í verslunarrekstri á Hafnargötunni ár eftir ár í erfiðri samkeppni við höfuðborgarsvæðið og sívaxandi netverslun. Ég hef rætt við þau mörg og veit að þetta getur verið strembinn rekstur, góð Ljósanæturhelgi og jólatraffík dugar einfaldlega ekki til að standa undir restinni af árinu.

Og þá kemur að ábyrgð okkar íbúanna - verslunin nefnilega stendur og fellur með okkur. Við getum ekki bæði kvartað yfir líflausum miðbæ og gert öll okkar innkaup annars staðar. Ef ég vil ekki þurfa að fara til Reykjavíkur í hvert sinn sem ég þarf kaupa sundskýlu á son minn, þá kaupi ég þær auðvitað frekar hjá Sigga Björgvins í K-Sport. Þegar mig vantar skírnar- eða fermingargjafir byrja ég á að fara til Fjólu eða Hannah feðga, öll gleraugu eru að sjálfsögðu keypt í Gleraugnabúðinni og þegar sjónvarpið gefur upp öndina er nærtækast að skjótast í Ormsson eða aðrar raftækjaverslanir hér á svæðinu.  Og svo mætti lengi telja.

Þetta eigum við og getum gert saman. Pössum upp á fólkið okkar og ég veit að það mun passa upp á þjónustuna við okkur. Gamla slagorðið „Verslum heima“ á kannski við nú sem aldrei fyrr.