Einn með öllu frá Villa og smá súkkulaði með kaffinu

Nú að aflokinni heilsuviku er mér efst í huga hvers vegna Game of Thrones er ekki á Netflix. Nei, auðvitað er það ekki svo. Mér er efst í huga nauðsyn þess að lifa og njóta öðru hverju. Einn kaldur og freiðandi, eitt glas af rauðu, einn með öllu frá Villa, smá súkkulaði með kaffinu, já og kannski koníakstár eftir kvöldmat á laugardegi, drepur ekki nokkurn mann, sjaldnast. Allt er þetta partur af lífsins lystisemdum og við eigum þetta allt skilið. Við eigum skilið að klappa okkur aðeins á bakið og vera góð við okkur sjálf fyrir að standa okkur vel, setja æluföt af barninu í þvottavélina, skúra, setja í uppþvottavélina, þvo bílinn, standa vaktina í vinnunni, læra með börnunum og laga internetið heima hjá ömmu, aftur. Lífið er bara svona. Það er oft ekkert mjög flókið. Stundum er það jafnvel leiðinlegt og stundum tekur óvenjulega langan tíma fyrir Netflix að koma með nýja seríu af House of Cards. En í alvöru. Hvað er svo málið með Game of Thrones, af hverju er það ekki á Netflix? Stundum er lífið svo ósanngjarnt. En minn punktur er þessi. Æðruleysi er eftirsóknarverð dyggð þessa dagana. Það er oft nauðsynlegt að leyfa sér að gleðjast yfir litlum hlutum, missa sig ekki í öfgunum og þá ekki síður í öfgafullum heilsulífstíl. Eins og oft áður þá bendi ég á rannsóknir máli mínu til stuðnings, en nýlegar rannsóknir sýna að kvíði sem tengist stanslausri þörf fyrir það að vera heilsusamlegur hefur aukist hjá ungu fólki. Fleiri finna fyrir þrýstingi frá samfélaginu um hvernig þeir eigi að líta út, hvað þeir eigi að borða, hvernig þeir eigi að æfa og fleira í þeim dúr. Þetta er að sjálfsögðu ekki gott mál. Hættum þessu. Finnum okkar jafnvægi, finnum það sem virkar fyrir okkur. Lifum og njótum!

Jóhann Friðrik Friðriksson