Aðsent

Bæta þarf Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með nýjum lausnum
Mánudagur 30. apríl 2018 kl. 09:18

Bæta þarf Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með nýjum lausnum

Á vormánuðum 2017 var gerð úttekt á gæðum og öryggi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, fyrir tilstuðlan embættis Landlæknis.
Niðurstöðurnar voru á þá leið að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja væri í miklum vanda vegna skorts á stefnumörkun, engin heildræn gæðastefna né umbótastarf ætti sér stað innan veggja stofnunarinnar. Ekki hafði verið gerð þjónustukönnun síðan árið 2012. Fagmönnun er alls ekki góð, biðtími eftir læknum of langur og ekki hægt að bjóða upp á fasta lækna, biðtími fyrir þjónustu frá geðteymi væri óásættanlega langur og teymið ekki nógu vel mannað fagaðilum svo eitthvað sé nefnt. Landlæknir lagði til eða hvatti framkvæmdastjórn HSS til að setja fram skýra stefnumörkun og tímasetta aðgerðaráætlun til að sporna við þessum vanda. Þá að vinna skipulega að því að stytta biðtíma og aðgengi að læknisþjónustu á dagvinnutíma. Að endurskipuleggja verkferla og taka upp teymisvinnu. Einnig að grípa til aðgerða hið fyrsta í því skyni að styrkja geðteymið faglega.

Hver er staðan nú ári síðar? Íbúar hafa alla vega ekki fundið fyrir því að eitthvað hafi breyst því enn tekur of langan tíma að fá læknisþjónustu á dagvinnutíma og gæðastefna er ekki sýnileg.
Hvað ef Reykjanesbær tæki yfir rekstur HSS? Þá væri hægt að fara í heildstætt ferli og endurskipulagningu með hliðsjón af skýrslunni. Nú er heilsugæslan og aðrar sjúkrastofnanir einkareknar á nokkrum stöðum á landinu, það er gerður stofnana samningur frá ríkinu um einkareksturinn þar sem fjármagn fylgir frá ríkinu. Væri hægt að snúa þessu ömurlega ástandi við, sem við íbúar stöndum frammi fyrir er kemur að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Árin í kringum 1987 áttum við frábæra fæðingardeild þar sem konur flykktust að, alls staðar af landinu til að fæða börn sín á fæðingardeild HSS vegna þess að fæðingardeildin bauð upp á nýjungar í fæðingum og sængurlegu. Væri það ekki frábært ef hægt væri að bjóða upp á slíka þjónustu í framtíðinni þar sem konur gætu fætt börn sín í heimabyggð þar sem öryggi þeirra væri tryggt. Væri ekki frábært að við gætum boðið upp á faglega og góða þjónustu á HSS. Væri það ekki frábært ef við ættum fastan heimilislækni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

,,Ég á mér draum“ sagði Martin Luther King og það er gott að eiga drauma því þar fæðast hugmyndir sem gætu kannski leitt til lausna á einhverju vandamáli til framþróunar. Ég er líka viss um að íbúar hér í Reykjanesbæ eiga sér draum um betri heilsugæslu hér á Suðurnesjum. Draumar geta ræst ef fólk stendur saman, hefur kjark og þor til að stíga út fyrir boxið og horfa á framtíðarsýn með framtakssemi. Leita þarf allra lausna til þess að bæta Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við Píratar viljum því leggja þessa óvenjulegu stefnu okkar upp á borðið um að kanna hvort Reykjanesbær gæti tekið yfir rekstur HSS.

Höfundur: Margrét S Þórólfsdóttir er skipar 3. sæti Pírata í Reykjanesbæ.