Viðskipti

VSB verkfræðistofa  opnar útibú í Reykjanesbæ
Hjörtur t.h. og Jón fyrir framan útibú VSB við Iðavelli 12 í Reykjanesbæ.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 19. nóvember 2020 kl. 06:56

VSB verkfræðistofa opnar útibú í Reykjanesbæ

VSB verkfræðistofa opnaði nýlega útibú í Reykjanesbæ að Iðavöllum 12. VSB er rótgróið fyrirtæki og sinnir fjölbreyttum verkefnum í mannvirkjagerð.

Verkefni stofunnar hafa verið allnokkur á Suðurnesjum í mörg ár og eru þrír starfsmenn búsettir þar. „Það féll vel að starfseminni á Suðurnesjum að opna starfsstöð á svæðinu. Við viljum festa okkur í sessi á svæðinu og getum bætt þjónustuna enn frekar með þessum hætti,“ segir Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB verkfræðistofu sem stofnuð var árið 1987 af þeim Stefáni Veturliðasyni og Birni Gústafssyni.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

VSB býður upp á þjónustu í öllum helstu þáttum sem snúa að mannvirkjagerð eins og hönnun bygginga og tengdum þáttum, hönnun lagna- og loftræstikerfa, rafkerfa, gatna og veitukerfa sem og framkvæmdaeftirlit og byggingarstjórn að ógleymdri verkefnastjórnun, þróun verkefna og gerð útboðsgagna.

VSB hefur verið með stórt verkefni í Reykjanesbæ undanfarin ár en það er  byggingastjórnun og eftirlit með framkvæmdum við byggingu Stapaskóla í Innri-Njarðvík. Hjörtur segir að starfsemi VSB hafi gengið ágætlega á árinu þrátt fyrir Covid-19. Þó sé ljóst að kreppi að á ýmsum sviðum. Þrjátíu og sex starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu.

Keflvíkingurinn Jón Ólafur Erlendsson stýrir útibúinu í Reykjanesbæ. Hann segir að það hafi verið skemmtilegt að koma að vinnunni við byggingu Stapaskóla sem sé gríðarstórt verkefni. „Þetta hefur gengið vel og margir komið að verkefninu þó vinnunni sé ekki lokið. Fjöldi starfsmanna við byggingu Stapaskóla hefur að meðaltali verið um og yfir eitt hundrað manns,“ segir Jón en faðir hans, Erlendur Jónsson, er kunnur smiður í Keflavík.

Aðspurðir um þróun í starfsemi verkfræðistofa segja þeir Hjörtur og Jón að hún sé nokkur, m.a. sé vinna við byggingaeftirlit gerð í snjallsíma og þá hafi þrívíddartæknin rutt sér til rúms í hönnun margra verka.

Þeir eru bjartsýnir á framtíðina á Suðurnesjum þó staðan sé erfið um þessar mundir. „Svæðið hefur alla möguleika til að blómstra á næstu árum og mun án efa gera þegar veirutímum lýkur,“ segja þeir Hjörtur og Jón hjá VSB.