Keflavíkurkirkja
Keflavíkurkirkja

Viðskipti

„Við nærumst á nýsköpun“
Sunnudagur 11. desember 2022 kl. 12:30

„Við nærumst á nýsköpun“

– segir Óskar Ingi Húnfjörð hjá Íslandshúsum

Íslandshús er nýsköpunarfyrirtæki í Reykjanesbæ sem þróar og framleiðir m.a. forsteyptar einingar og nýja tegund stólpa, Dvergana, sem eru undirstöður undir t.d. sumarhús, bílskýli, smáhýsi, sólpalla, girðingar, og fleira. Tengihlutirnir eru sérhannaðir fyrir dvergana og framleiddir á Íslandi. Fyrirtækið tekur einnig að sér að framleiða sérlausnir samkvæmt óskum og þörfum viðskiptavina. Íslandshús leggur áherslu á að hanna og framleiða vörur sem hafa kosti og notagildi umfram aðrar hefðbundnar lausnir.

Það voru hjónin Óskar Ingi Húnfjörð og Brynja Sif Ingibersdóttir sem stofnuðu fyrirtækið en fyrir fjórum árum kom sonur þeirra hjóna, Brynjar Marinó Húnfjörð, einnig inn í fyrirtækið. Íslandshús eru bæði „Framúrskarandi fyrirtæki“ og „Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri“.

Stóðu á tímamótum

Hvert er upphafið að nýsköpunarfyrirtækinu Íslandshúsum? Þið byrjið starfsemi þegar aðstæður eru ekki góðar á Suðurnesjum, nokkrum árum eftir bankahrun.

„Við getum sagt að sagan nái alveg aftur til ársins 2000. Þá stöndum við hjónin á tímamótum og ákveðum að fara til náms í Danmörku og læra byggingafræði. Það gengur eftir og við rekum svo hönnunarstofu í Danmörku í þrjú ár eftir nám, eða allt þangað til að mér er boðið starf hjá Loftorku í Borgarnesi sem markaðs- og sölustjóri. Þetta var rétt fyrir ævintýrið mikla og kreppuna stóru en um tveimur árum síðar varð fyrirtækið í Borgarnesi gjaldþrota og ég missti vinnuna,“ segir Óskar Ingi Húnfjörð, framkvæmdastjóri Íslandshúsa.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Hann segir að í gegnum vinnu sína hjá einingaverksmiðju Loftorku hafi hann kynnst góðum verkfræðingum sem hann fékk í samstarf með sér í að búa til vinnuhóp til að endurhanna einingahús upp á nýtt út frá forsendum eininganna. Í stað þess að taka heilsteypt hús og klippa það niður í einingar, þá vildi Óskar horfa á stakar einingar og spyrja hvað get ég gert úr einingunni.

„Á þessu tímabili sem ég var atvinnulaus, upplifði ég mig ekki atvinnulausan. Ég fékk aðstöðu hjá Hnit verkfræðistofu, sem var hluti af þessu verkefni, og þar mætti ég í raun til minnar vinnu og var í þrjú ár í þessu verkefni sem skilaði af sér fullhönnuðu einingarhúsi á forsendum eininganna, þannig að einingarnar voru orðin stöðluð framleiðsla í mismunandi stærðum og útfærslum sem viðkomandi byggingameistari gæti svo keypt og raðað saman í hús. Þannig varð nafnið Íslandshús til.“

Byrjaði með sjósökkum fyrir Reykjanesbæ

Óskar segir að eftir þrjú ár hafi hann dottið af atvinnuleysisskrá og því hafi hann leitað til Reykjanesbæjar til að geta haldið áfram með verkefnið. Honum var vel tekið þar með þetta verkefni. Óskar segir að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hafi einnig stutt vel við bakið á honum. Þar hafi hann fengið lánað húsnæði og á sama tíma var gerður rammasamningur við Reykjanesbæ um viðskipti upp á fimm milljónir króna á árinu. Fljótlega hafi komið inn verkefni frá Reykjanesbæ um framleiðslu á sjósökkum, þyngingu fyrir fráveitulögn sem var verið að leggja í sjó við Keflavíkurhöfn. Sú framleiðsla hafi dekkað þann samning sem gerður var við Reykjanesbæ. Á sama tíma fékk Óskar aðsetur í 400 fermetra iðnaðarhúsnæði á Ásbrú. Þar var raun ekkert til að vinna með, þannig að hann tók verkfærin úr bílskúrnum heima hjá sér og smíðaði sér vinnuborð á Ásbrú þar sem hann svo smíðaði trémót fyrir sjósökkurnar.

Afgangssteypa varð ný afurð

Óskar var að framleiða eitt sett á dag af sjósökkum. Vinnudagurinn hófst klukkan fimm á morgnana við að sjóða saman járnagrind í mótin. Svo var pantaður steypubíll með steypuna.

„Svo var það að gerast að afgangurinn af steypunni passaði ekki endilega í mótin. Ég var að fá steypuna í lok dags og það var iðulega afgangur af steypu sem bílstjórarnir losuðu svo bara úti í móa. Þetta fór svolítið í pirrurnar á mér þannig að eina helgina fór ég upp í verksmiðju og smíðaði mér trémót, sem svo varð fyrsti dvergurinn. Þannig nýtti ég þessa afgangs steypu. Svo fjölgar þessum mótum og allt í einu verður maður var við að það er markaður fyrir þessa vöru og þessa hönnun sem við erum með. Við lögðum mikla áherslu á gæði og virkni vörunnar, þannig að hún væri öðruvísi en annað sem væri á markaðnum.
Við vorum ekki að herma eftir því sem aðrir eru að gera. Fljótlega förum við yfir í að smíða stálmót og útgáfunum fjölgar. Nú erum við að smíða frá 30 kílóa steinum upp í tveggja tonna steina, á milli 30–40 tegundir af steinum. Það má kannski segja að úr afgangssteypu hafi orðið til ný afurð,“ segir Óskar.

Undirstöður, árekstrarvarnir og umferðarlausnir

Flestir þekkja stólpana, sem almennt eru kallaðir Dvergarnir, undir sólpalla en Íslandshús eru að framleiða fleira, eins og árekstrarvarnir og ýmiskonar umferðarlausnir eins og umferðareyjur, afmörkunarstólpa og margt fleira.

„Við erum fyrst og fremst að framleiða vöru og það kemur okkur svo oft á óvart hvernig viðskiptavinurinn getur notað vöruna og það eru oft skemmtilegar útfærslur á því.“

Fyrsta framleiðslan var 65 kg. steinn sem í dag er nefndur Teitur. Síðan varð til 30 kg. Álfur, 50 kg. Purkur og svo hélt þetta áfram.“

Upphaflega markmiðið að framleiða einingar

Upphaflega markmiðið með Íslandshúsum var að framleiða einingar og Óskar segir að það verkefni sé alls ekki út af borðinu. Hann segir að til sé fullhannað einingakerfi. Kerfið, sem hannað var fyrir áratug síðan, stenst þær kröfur sem gerðar eru í dag um að vera með 35–45% minna kolefnisspor, auk þess að í einingunum var búið að leysa vandamál með samtengingar og Íslandshús eru með mun sterkari samtenginar en áður þekktust. „Við höfðum leyst fjölmörg tæknileg atriði sem höfðu verið að hrjá þessa einingaframleiðslu. Íslandshús eru frumkvöðlafyrirtæki og við nærumst á nýsköpun. Hér er stanslaust verið að koma með nýjar hugmyndir. Við erum að smíða mót og erum að gera þrjár til fjórar nýjar tegundir á ári fyrir allskonar lausnir. Það sem drífur okkur áfram er að búa til einhverjar nýjar lausnir og leysa vanda með viðskiptavinum okkar.“

Hjá Íslandshúsum fer framleiðslan þannig fram að í verksmiðju fyrirtækisins á Ásbrú í Reykjanesbæ er framleiddur ákveðinn fjöldi af steinum á dag og stillt þannig af að ekki verði afgangur af steypu. Þessir steinar fara út á lager, sem í dag er upp á 700–800 tonn. Óskar segir lagerinn taka sveiflurnar, þannig að framleiðslan sjálf verður ekki svo mikið vör við sveiflurnar sem eru úti á markaðnum.
Óskar segir að þriðjungur af markaðnum sé einstaklingsmarkaður, fólk sem er að smíða sólpalla eða setja undir sumarhús, girðingar eða kofa úti í garði.
Annar þriðjungur eru verktakar og stærri fyrirtæki sem versla þá beint við okkur sérhannaðar vörur fyrir viðkomandi.
Síðasti þriðjungurinn er svo sveitarfélögin. Óskar segir sveitarfélögin vera að sækja í sérlausnir, gæði og endingu. „Við vinnum mikið með sveitarfélögum að leysa verkefni sem eru inni á þeirra borði.“
Íslandshús eru með framleiðsluvörur sínar vel merktar. Merki fyrirtækisins er formað í steypuna, allar vörurnar bera nafn sem einnig er formað í steypuna sem og þyngd og framleiðslunúmer. Þá geta fyrirtæki og sveitarfélög fengið merki sitt formað í steypuna til að merkja sér hlutinn.

Aukningin 50% á milli ára

Óskar segist í dag þakklátur fyrir þann stuðning og velvilja sem hann hafi fengið frá bæði Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Reykjanesbæ þegar þau hjónin stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma. Það hafi aldrei staðið til að vera stór en hjá Íslandshúsum starfa í dag sjö manns. Þau hjónin, Óskar Ingi og Brynja Sif, hafi í upphafi bara ætlað að vera í þessu tvö. Þau hafi bara fylgt markaðnum og aukið veltuna um 20–30% á ári frá því þau byrjuðu. Núna sé aukningin hins vegar 50% á milli ára. „Það er full bratt en ekki hægt að hlaupast undan því að sinna vextinum.“

Óskar sér reksturinn þróast áfram. Fyrirtækið hafi fengið 7.000 fermetra viðbótarlóð á Ásbrú. Húsnæði fyrirtækisins sé of lítið og það þurfi að leysa það en fyrst og fremst sjái hann fyrirtækið í áframhaldandi vöruþróun. Nú sé að hefjast verkefni sem snúi að umferðaröryggi með Reykjanesbæ og verkfræðingum og lausnin verði vonandi kynnt innan árs. „Það er þessi vöruþróun sem er svo spennandi og skemmtileg. Við erum ánægð hjá fyrirtækinu og það er á góðum stað í dag,“ segir Óskar Ingi Húnfjörð, framkvæmdastjóri Íslandshúsa.

Erum fljótir að bregðast við

Framleiðslustjórinn Brynjar Marinó Húnfjörð kom til Íslandshúsa fyrir fjórum árum síðan. Brynjar er sonur Óskars Inga en það er einmitt draumur margra foreldra að fá börnin sín inn í fyrirtækið og að þau taki við kyndlinum þegar sú stund kemur að foreldrarnir vilji setjast í helgan stein.

„Pabbi hafði oft talað um það að fá mig hingað inn en ég hafði ekki sýnt því neinn sérstakan áhuga, hafði engan áhuga á steypu og var bara með eigin feril fyrir utan þetta. Í einu matarboðinu nefndi hann þetta við mig aftur og ég sagði honum að hann hefði ekki boðið í mig. Eftir boðið fór ég heim og hugsaði málið betur. Mér var ljóst að hann væri ekki að verða yngri, þetta væri stöndugt fyrirtæki og ég sá fleiri hluti í þessu. Þetta væri gott tækifæri fyrir mig og einnig tækifæri fyrir hann að fara að slaka á og njóta, þannig að ég ákvað að ganga til liðs við hann fyrir fjórum árum síðan.“

Komst þú með eitthvað nýtt inn í fyrirtækið? Þegar við erum að tala saman er þrívíddarprentari að prenta út sýnishorn af framleiðslunni ykkar?

„Við erum búnir að vera með þrívíddarprentara lengi og pabbi er miklu nýjungagjarnari en ég. Þessi prentun var komin inn löngu áður en ég kom til fyrirtækisins. Kallinn hefur alltaf verið fljótur að tileinka sér nýjar græjur. Þrívíddarprentun er stórkostleg fyrir okkur. Við hönnum allar okkar vörur sjálf frá grunni, þrívíddarprentum hana og sjáum hvernig varan passar inn í það sem við erum að gera nú þegar. Það hjálpar líka að sýna viðskiptavininum vöruna útprentaða í stærðinni einn á móti tíu. Það er því handhægt að setja þetta á borðið og sjá mismun á milli stærða. Þá hjálpar þetta okkur, þar sem við gerum öll okkar mót sjálf og notum þrívíddarteikningarnar til þess,“ segir Brynjar.

Sjálfbært fyrirtæki

Íslandshús eru nokkuð sjálfbært fyrirtæki. Það hannar vöruna sjálft, smíðar mótin sjálft og er með eigin steypustöð. Allt markaðsefni er hannað innanhúss, hvort sem það er heimasíða eða bæklingar.

„Við erum fljótir að bregðast við. Komi viðskiptavinur til okkar með hugmynd, þá þurfa ekki að líða margir dagar eða vikur þangað til við erum komnir með vöru í hendurnar. Það er allt hægt hjá okkur og ekkert sem stoppar okkur,“ segir Brynjar Marinó.