Viðskipti

Tvöfalda afkastagetu
Pálmi Hannesson stöðvarstjóri Aðalskoðunar í Reykjanesbæ.
Föstudagur 9. október 2020 kl. 06:47

Tvöfalda afkastagetu

Aðalskoðun hefur flutt starfsemi skoðunarstöðvar sinnar í Reykjanesbæ í nýtt húsnæði að Njarðarbraut 11a. Með nýrri skoðunarstöð verður afkastagetan tvöfölduð.

Í nýju skoðunarstöðinni verða tvær skoðunarlínur í stað einnar sem var á gamla staðnum. Fyrsta hálfa mánuðinn verður þó eingöngu önnur línan starfrækt því búnaður úr gömlu stöðinni verður uppfærður og honum komið fyrir í nýja húsnæðinu.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Pálmi Hannesson er stöðvarstjóri Aðalskoðunar í Reykjanesbæ. Hann var að vonum kátur með breytingarnar og nýja húsnæðið. Öll vinnuaðstaða í skoðunarsalnum er til mikilla bóta. Önnur skoðunarlínan er með gryfju og þar verður hægt að taka inn stærri ökutæki og eftirvagna en áður. Þannig er t.a.m. auðveldara núna að koma stærri húsbílum inn í skoðunarstöðina og sama á við um stærri og breiðari hjólhýsi. Skoðunarstöð Aðalskoðunar í Reykjanesbæ getur tekið við ökutækjum upp á 7,5 tonna heildarþunga. Eins og fyrr segir er önnur skoðunarlínan með gryfju en hin línan verður með lyftubúnaði úr gömlu skoðunarstöðinni sem verður endurnýjaður og uppfærður.

Aðstaða í skoðunarsalnum er ekki bara betri því móttaka viðskiptavina er einnig rúmbetri og þar verður hægt að afgreiða fleiri á sama tíma. Þá er öll starfsmannaaðstaða betri á nýja staðnum.

Í skoðunarstöðinni í Reykjanesbæ er hægt að skoða alla fólksbíla upp að 3.500 kg., farþegabíla frá 3.500 kg. að 7.500 kg. auk ferðavagna og mótorhjóla.

Ný skoðunarstöð Aðalskoðunar við Njarðarbraut 11 a í Reykjanesbæ.

Móttaka og biðsvæði viðskiptavina er mun rúmbetra en á gamla staðnum.