Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Viðskipti

Tryggingamálin sífellt meira á netinu
Anna María á spjalli við viðskiptavin. VF-myndir/pket.
Laugardagur 12. janúar 2019 kl. 07:00

Tryggingamálin sífellt meira á netinu

Útibú TM tryggingafélagsins í Keflavík tekur við þjónustu við Grindvíkinga. Nýtt app virkar vel

Suðurnesjaútibú TM tryggingafélagins tók nú um áramótin við þjónustu við Grindvíkinga en á sama tíma hætti Björn Birgisson störfum hjá félaginu. Anna María Sveinsdóttir, þekktust sem ein besta körfuboltakona landsins á árum áður, stýrir málum hjá TM á Suðurnesjum en hún hóf störf hjá félaginu fyrir tuttugu árum síðan.

„Það hefur orðið mikil breyting á tveimur áratugum og þjónustan er að færast meira á netið en engu að síður leggjum við mikla áherslu á að veita góða þjónustu á skrifstofu okkar í Keflavík. Við höfum verið heppin með starfsfólk og höfum haft sama hóp á skrifstofunni í ellefu ár,“ segir Anna María.

Anna hóf störf hjá TM eftir sameiningu félagsins við Tryggingu árið 2000 og starfaði fyrstu árin með félaga sínum úr Keflavík, Gunnari Oddssyni, en hann tók við sem útibússtjóri árið 2002 og gegndi því til ársins 2007. Þá fór knattspyrnumaðurinn til starfa hjá félaginu í Reykjavík. Hann tók við starfi sölustjóra og síðar bættist við umsjón með útibúum og umboðsmönnum á landsbyggðinni. Hann sinnir því eingöngu núna.

Þau Anna og Gunnar sögðu að meðal breytinga í þjónustu tryggingafélagsins að undanförnu hafi verið TM appið en þar sé hægt að ganga frá margvíslegri þjónustu á einfaldan og skilvirkan hátt, m.a. þegar tjón verður á farsímum. Það taki ekki nema eina mínútu að ganga frá því. Í appinu er m.a. hægt að sjá yfirlit yfir allar tryggingar sem viðkomandi kaupir á mjög auðveldan hátt. „En svo er auðvitað fullt sem við gerum í góðum samskiptum við viðskiptavini hér á skrifstofunni. Fyrstu árin mín var ég mikið í símanum en nú fara mörg mál í gegnum tölvupóst,“ segir Anna María og undir þetta tekur Gunnar sem segir að umboðsskrifstofum og útibúum hjá félaginu hafi fækkað á undanförnum árum. Það sé þó ekki á stefnuskránni hjá TM að ganga alla leið í því að loka öllum starfsstöðvum á landsbyggðinni. Þær sinni ennþá mikilvægri hlutverki í starfsemi félagins.

Gunnar er ánægður í starfi sínu hjá TM og segist heimsækja útibúin og afgreiðslurnar úti á landi reglulega. „Þetta eru tólf staðir, þrjú útbú í Keflavík, Vestmannaeyjum og á Akureyri og tólf afgreiðslur víða um land. Á þessum stöðum tekur maður stöðuna og fær púlsinn um allt land.“

Starfsfólk TM Anna María, Gunnheiður Kjartansdóttir, Oddný Pétursdóttir, Sigurður Guðnason og Gunnar Oddsson.Skrifstofa TM hefur nýlega fengið andlitslyftingu en hún er við Hafnargötu 31 í Keflavík.


Anna hefur starfað í tryggingageiranum í tvo áratugi.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs