Fimmtudagur 11. apríl 2024 kl. 20:42

Gummi Kalli í Suður með sjó

Guðmundur Karl Brynjarsson sækist eftir kjöri til embættis biskups Íslands en biskupskjör hefst 11. apríl og því lýkur 16. apríl.

Gummi Kalli er Keflvíkingur og ólst upp í Holtunum í Keflavík. Hann hlustaði á pönktónlist, féll ítrekað á mætingu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og segir í samtali við Víkurfréttir að um tíma hafi hann verið afhuga kristinni trú.

Á tvítugsafmælinu kom blað frá KFUM&K í Keflavík inn um lúguna á heimili hans. Gummi Kalli tók blaðið og grínaðist með innihald þess. Eitthvað hefur þó verið grunnt á gríninu því tæpu ári síðar var hann kominn á kaf í starf KFUM&K og orðinn leiðtogi í starfinu í Keflavík.

Eftir námið í FS fór Gummi Kalli í biblíuskóla í Noregi í eitt ár. Þaðan var stefnan tekin á guðfræðinám í Háskóla Íslands. Eftir að hafa þjónað sem skólaprestur leysti hann af í Vestmannaeyjum, fékk sitt fyrsta brauð á Skagaströnd og hefur nú í rúma tvo áratugi verið sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi.

Víkurfréttir hittu Gumma Kalla í Keflavík um liðna helgi.