Flugger
Flugger

Viðskipti

Þúsund tonn unnin aukalega
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 4. júní 2023 kl. 06:09

Þúsund tonn unnin aukalega

Starfsemi Vísis undir Síldarvinnslunni fer mjög vel af stað

Fyrsta almanaksárið eftir að Vísir hf. í Grindavík, varð dótturfélag Síldarvinnslunnar í Neskaupstað með skiptum á hlutabréfum, er nú bráðum hálfnað. Tilkynnt var um viðskiptin sl. haust en samkeppniseftirlitið þurfti að fjalla um málið áður en hægt yrði að hefjast handa við að aðlaga reksturinn nýju umhverfi. Vísir hf. var stofnað árið 1965 af Páli H. Pálssyni og eiginkonu hans, Margréti Sighvatsdóttur. Börnin hafa flest komið að rekstrinum en Pétur Hafsteinn Pálsson var framkvæmdastjóri þegar viðskiptin voru gerð og verður það áfram, nú undir stjórn nýrra eigenda.

Pétur fór yfir hvernig fyrstu skrefin hafa verið. „Þetta hefur farið mjög vel af stað enda allar forsendur fyrir viðskiptunum augljósar og þær munu ekki breytast en þær eru staðsetning, fjárfesting og fólk. Vð erum staðsett mitt á milli útflutningshafna bæði fyrir sjó og flugflutninga, við erum búin að fjárfesta að stærstum hluta í nútíma fiskvinnslum og hjá okkur er reyndur og frábær stjórnendahópur. Það síðastnefnda er sá þáttur rekstrar sem ég held að allar atvinnugreinar munu finna fyrir á næstu árum, að erfiðast er að koma sér upp góðum stjórnendahópi og fá til vinnu. Aðgangur að almennu vinnuafli er gott á þessu landsvæði en við eins og allir þurfum að huga vel að  stjórnendum með fagþekkingu á gólfi, skrifstofum og á sjó.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stærsta verkefnið

Við höfum verið að vinna sextán til átján þúsund tonn á ári en fiskvinnslunar eru gerðar til að vinna að jafnaði 100 tonn á dag. Í 220 daga myndi þetta gera 22.000 þúsund tonn sem er aukning um 25% og höfum við nú þegar fengið inn í vinnslurnar á annað þúsund tonn af þessari aukningu. Í framhaldinu liggur fyrir að fara í aðlögun flotans að veiðiheimildum samstæðunnar og samræmdri og jafnri stjórnun veiðanna til að gerlegt sé að fullnýta vinnslugetuna. Sú vinna er í gangi og ætlunin er að vanda þau skref, enda ekkert í rekstrinum sem kallar á neinar bráðaaðgerðir. Við höfum áður gengið í gegnum breytingar og aðlaganir og alltaf haft að leiðarljósi að fólk héldi störfum sínum þó  breytingar verði á skipsplássi eða vinnustað.

Frá undirskrift við sameiningu Vísis og Síldarvinnslunnar.

Öðruvísi boðleiðir

Starf Péturs hefur ekki breyst en boðleiðirnar eru öðruvísi. „Mitt starf hefur ekki breyst þó ég heyri undir nýja stjórn og ég hlakka bara til að vinna með nýju fólki. Ég þarf að venjast meiri formlegheitum og sætta mig við að hlutirnir muni kannski ekki gerast eins hratt og ég er vanur. Ekki að ég hafi ráðið öllu einn en boðleiðirnar eru breyttar. Að öðru leyti hefur ekkert breyst nema eigendahópurinn. Það er ekki liðið ár frá því hugmyndin að þessum viðskiptum varð til og í raun hefur gengið mjög vel að stilla saman strengina. Við vildum byrja á því að kynnast vel áður en hafist yrði handa við að samræma stjórnunarstörf samstæðunnar. Þær breytingar eru hægt og bítandi að gerast, t.d. hefur Andrew Wissler sem var fjármálastjóri hjá Vísi, tekið við sem aðstoðarforstjóri Síldarvinnslunnar. Þá er okkur einnig mikilvægt að vera þátttakendur í starfsemi Síldarvinnslunnar með stjórnarmann inni og var  Erla Pétursdóttir kjörin í stjórnina á síðasta aðalfundi. Við munum leggja metnað okkar í að standa undir þeim væntingum sem fyrirtæki á markaði gerir til okkar.

Ég tel framtíð starfseminnar í Grindavík mjög bjarta, sem og allrar samstæðu Síldarvinnslunnar, og hlakka til að taka þátt í uppbyggingunni sem er framundan, hvort sem það er bolfiskur, uppsjávarfiskur eða fiskeldi.