Viðskipti

Tekur við Bókhaldsþjónustunni eftir 38 ára starf
Sigríður, Sævar og Hafdís hafa verið í Bókhaldsþjónustunni í áratugi. VF/pket
Laugardagur 10. febrúar 2024 kl. 08:58

Tekur við Bókhaldsþjónustunni eftir 38 ára starf

Sævar Reynisson hættir eftir fjörutíu ár | Sigríður Björnsdóttir tekur við rekstrinum

„Við höfum átt miklu láni að fagna með góða viðskiptavini. Þeir eru margir enn hjá okkur eftir fjörutíu ár og verða áfram í góðum höndum hjá Siggu en nú er þetta orðið gott hjá mér og tími til að hætta,“ segir Sævar Reynisson en hann hefur rekið Bókhaldsþjónustuna í fjóra áratugi.

Sigríður B. Björnsdóttir, Sigga, hefur starfað hjá Sævari í 38 ár og hefur tekið við stofunni en hvernig kom það til að hún hóf störf hjá honum á sínum tíma? „Þetta gerðist bara þannig að Sævar, sem var kennari í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og umsjónarkennari minn, skaut þessu að mér í tíma, hvort ég vildi koma í starf hjá honum eftir útskrift, sem ég og þáði – og ég er hér enn,“ segir Sigríður sem fór beint eftir stúdentspróf á viðskiptabraut í bókhaldsvinnuna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sævar starfaði sjálfstætt við bókhald með kennslunni í fjölbrautaskólanum í nokkur ár þar til hann sneri sér alfarið að rekstri bókhaldsstofu í árslok 1984. Hann segir það hafa verið mikið lán í gegnum tíðina hvað hann hafi verið heppinn með viðskiptavini. „Þetta eru mörg þekkt og góð fyrirtæki á Suðurnesjum, stór og smá, og þetta hefur verið ánægjulegur tími. Eins og í mörgu breytt tölvutæknin miklu í okkar rekstri. Þetta var sérstök handavinna þarna í upphafi. Það er minnisstætt þegar við þurftum að vélrita skattskýrslur og fleiri pappíra með kalkipappír en það þurftum við að gera ef við ætluðum að eiga afrit sem þurfti sérstaklega í skattskýrslugerð.“

Sigríður og nýi starfsmaðurinn, Hildur Ýr Sæbjörnsdóttir.

Skatturinn flottur

Sævar segir að í starfinu í gegnum tíðina hafi samskiptin við skrifstofu Skattsins verið mikil enda hafi þau iðulega skilað gögnum, m.a. skattskýrslum fyrir um fimm hundruð kennitölur. „Samskiptin við Skattinn hafa alla tíð verið ákaflega ánægjuleg og algerlega til fyrirmyndar, sérstaklega síðustu fimmtán, tuttugu árin. Ef það komu upp atriði sem var óvissa um hringdu starfsmenn Skattsins í okkur og við leystum málin í sameiningu. Þetta er örugglega besta þjónustustofnun ríkisins,“ segir bókhaldarinn til rúmlega fjörutíu ára.

Miklar breytingar

Sigga tekur undir þetta með Skattinn en aðspurð segist hún ekki hafa þurft að hugsa sig lengi um hvort hún vildi taka við rekstrinum. En hvað stendur upp úr hjá henni? „Það hafa náttúrulega orðið miklar og góðar breytingar með stafrænni tækni og tölvunni. Þá hafa viðhorf til mín sem konu líka breyst. Ég get ekki neitað því að fyrstu árin fann maður stundum fyrir því að vera kona. Nokkrir karlkyns eldri viðskiptavinir áttu það til að spyrja hvort Sævar væri við – og vildu ekki ræða málin við mig. En það er sem betur fer liðin tíð,“ segir Sigga. „Ég hef eignast marga góða vini í starfinu sem hafa sýnt mér mikið traust. Ég get nefnt dæmi um einn fyrirtækjaeiganda sem vill að ég sitji alla stjórnarfundi með honum.“

Möppurnar góðu

Eitt af því sem einkennir bókhaldsstarfið er mappan góða með pappírunum. Hvernig sér Sigga framtíð möppunar? „Það styttist í að mappan hverfi. Það er bara þróunin.“

Á Bókhaldsþjónustunni hefur, auk þeirra tveggja, Hafdís Ævarsdóttir starfað í 22 ár og hún mun áfram sinna sjálfstætt verkefnum sem hún hefur verið með. Nýr starfsmaður tók nýlega til starfa en hún heitir Hildur Ýr Sæbjörnsdóttir.

Blaðamaður VF hitti þau á skrifstofu Bókhaldsstofunnar sem er að Hafnargötu 16 í Keflavík. Sævar nefnir frábært útsýnið en út um gluggana blasir við Keflavíkurbjargið og Stakksfjörður. „Sérðu þetta? Útsýnið gerist ekki miklu flottara,“ segir Sævar sem alla tíð hefur sótt í gott útsýni á fjöllum en í seinni tíð hefur hann gengið mikið um grænar grundir golfvalla.

Þrátt fyrir að starfið hafi veitt honum mikla ánægju segir hann að nú hafi verið kominn tími til að segja þetta gott enda orðinn 72 ára. „Það eru forréttindi að geta haft þetta svona að Sigga taki við og reksturinn haldi áfram. Hún mun sinna okkar viðskiptavinum áfram eins og við höfum gert,“ segir Sævar og Sigga jánkar því þegar hún er spurð hvort hún geti tekið við nýjum kúnnum.