Viðskipti

Skólamatur stækkar og starfsemin eykst
Skólamatarfjölskyldan, Jón og Fanný Axelsbörn með foreldrunum og eigendunum, Þórunni Halldórsdóttur og Axel Jónssyni. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 30. mars 2022 kl. 07:16

Skólamatur stækkar og starfsemin eykst

Fyrsta skóflustunga að nýju húsnæði Skólamatar. Starfsmenn nálgast tvöhundruð.

Fyrsta skóflustunga var tekin að nýju húsnæði Skólamatar var tekin á föstudag. Axel Jónsson og Þórunn Halldórsdóttir eiginkona hans,  eigendur Skólamatar, tóku fyrstu skóflustunguna að viðstöddu starfsfólki Skólamatar. Framkvæmdir hefjast í beinu framhaldi og stefnt er að því að húsnæðið verði tilbúið að mestu leyti í haust. Nýja húsnæðið er um 400 fermetra viðbygging þar sem gert er ráð fyrir eldhúsi á neðri hæð og skrifstofu og matsal á efri hæð. Samhliða byggingunni munu verða gerðar breytingar á fyrra húsnæði.

Flóknari starfsemi

En af hverju er fyrirtækið að stækka við sig?
„Fyrst og fremst er starfsemin okkar alltaf að verða flóknari. Við sérhæfum okkur í heildarlausnum í matarmálum fyrir leik- og grunnskóla. Daglega bjóðum við upp á morgunmat, ávaxtastund, tvíréttaðan hádegismat með meðlætisbar og síðdegishressingu. En auk þess sjáum við um að útvega mat fyrir hverskyns uppbrotsdaga, til dæmis nesti fyrir skólaferðalög, þorrasmakk, rjómabollur á bolludaginn og pylsuveislur. Þá er sífellt að fjölga í hópi nemenda sem þurfa á sérfæði að halda, en það eru þeir nemendur sem vegna óþols, ofnæmis, trúar- eða lífstílsskoðana geta ekki neitt matar af hefðbundnum matseðli,“ segir Axel Jónsson í samtali við Víkurfréttir.

Máltíðir Skólamatar eru undirbúnar í framleiðslueldhúsi í Reykjanesbæ. Þaðan eru þær keyrðar út í skólana þar sem eldunin fer fram. 
„Hluti af þeim máltíðum sem við bjóðum upp á eru eldaðar frá grunni í framleiðslueldhúsinu okkar, til dæmis lasagna, fiskibollurnar og plokkfiskurinn. Aðrir réttir eru útbúnir af innlendum framleiðendum eftir uppskriftum frá Skólamat.  Stærsti misskilningurinn hjá fólki er að það heldur að maturinn sé allur eldaður hér í Reykjanesbæ og svo keyrður út í skólana. Hið rétta er að maturinn er undirbúinn hér í Reykjanesbæ og svo sér starfsfólk okkar úti í skólunum um að elda matinn. Starfsfólk skólanna sér einnig um að skera niður ferska ávexti og grænmeti fyrir meðlætisbarinn. Ný og bætt aðstaða mun gera okkur kleift að bæta gæði þjónustu okkar enn frekar, meðal annars með því að auka okkar framleiðslu og bæta vöruframboð,“ 

Axel segir að þessar framkvæmdir séu mikilvægt skref  til þess að geta áfram boðið upp á fyrsta flokks þjónustu fyrir alla viðskiptavini. „Með árunum hefur starfsemi Skólamatar orðið sífellt flóknari og fjölbreyttari. Nauðsynlegt er að öll aðstaða sé til fyrirmyndar svo hægt sé að mæta þeim kröfum sem bæði við og viðskiptavinir gera til okkar,“ bætir Axel við.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

170 starfsmenn
Starfsfólki Skólamatar hefur fjölgað jafnt og þétt í takt við aukin umsvif fyrirtækisins, en hjá því starfa nú um 170 starfsmenn en um 50 þeirra hafa starfsstöð á Iðavöllum. 
„Það er orðið ansi þröngt um okkur hér í núverandi húsnæði. Með tilkomu nýja húsnæðisins mun öll starfsmannaaðstaða batna. Við verðum meðal annars með stórt og flott mötuneyti á eftir hæðinni þar sem verður nóg pláss fyrir alla að borða saman. Við erum, líkt og flestir aðrir, erum búin að fá alveg nóg af hólfaskiptingum og öðrum samkomutakmörkunum sem við höfum þurft að lifa við undanfarin tvö ár. Við vorum þó svo heppin að ná að halda árshátíð síðastliðið haust og þá fundum við vel hversu mikilvægt það er að fá að hittast og hafa gaman saman,“ sagði Fanný Axelsdóttir mannauðsstjóri Skólamatar.

Ný verkefni og áskoranir
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar segir að afleysingarþjónusta hafi aukist mikið hjá fyrirtækinu síðan að kórónuveirufaraldurinn skall á. Margir skólar og leikskólar sem eru að upplifa tímabundin vandræði með matarþjónustu hafa nýtt sér þjónustu Skólamatar í lengri eða skemmri tíma. 
„Við höfum meðal annars þjónustað leik- og grunnskóla þar sem upp hefur komið mygla og nauðsynlegt var að flytja starfsemina í annað húsnæði en einnig hefur verið mikið um afleysingarverkefni þar sem matráðar eru fjarverandi vegna veikinda,“ segir Jón.
Skólamatur þjónustar nú leik- og grunnskóla í níu sveitarfélögum á suðvestur horninu. „Við sjáum að á undanförnum árum hefur vöxturinn verið í  fjölgun leikskóla. Við finnum fyrir áframhaldandi eftirspurn og þessar framkvæmdir eru að sjálfsögðu einnig partur af því að geta tekist á við aukna eftirspurn.“ 

Veturinn í vetur hefur gengið vel að mestu en þó hefur bæði covid og veðrið sett strik í reikninginn. „Það er búið að vera mikið um veikindi hjá okkur líkt og alls staðar í samfélaginu. Þetta hefur þó gengið ótrúlega vel. Við erum svo heppin að hjá okkur starfar frábært starfsfólk sem hefur lagt á sig mikla vinnu til þess að láta hlutina ganga upp. Samstarf okkar við starfsfólk skóla og leikskóla hefur einnig verið til fyrirmyndar og við höfum fengið ómetanlega aðstoð frá þeim á krefjandi tímum. Við öll sem samfélag höfum lært mikið af fyrri bylgjum faraldursins og upplifun okkar er sú að allir hafi lagst á eitt, hvort heldur sem um ræðir nemendur, foreldra eða starfsmenn við að finna lausnir á þeim vandamálum sem upp hafa komið,“ segir Jón.

Veðrið í vetur er önnur áskorun sem Skólamatur hefur þurft að takast á við. „Veturinn er búinn að vera þungur veðurfarslega. Hingað til hefur verið mjög óvenjulegt að Reykjanesbrautinni sé lokað vegna veðurs en það hefur komið upp nokkrum sinnum í vetur. Þetta hefur eðlilega haft áhrif á okkur og skapað auka álag á starfsfólkið okkar.  En nú eru bjartari tímar framundan og við erum spennt fyrir komandi tímum og hlökkum til að taka nýja aðstöðu í gagnið. Við trúum því að nýja húsnæðið muni hjálpa til að ná þeim markmiðum sem við í Skólamat höfum sett okkur fyrir komandi framtíð,“ sagði Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamatar.