Public deli
Public deli

Viðskipti

Síldarverksmiðjan í Helguvík flutt til Marokkó
Portúgalska flutningaskipið liggur við bryggju í Helguvík en það annast flutninga á vélum og tækjum Síldarverksmiðjunnar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 24. júlí 2023 kl. 10:30

Síldarverksmiðjan í Helguvík flutt til Marokkó

Skipstjóri á þremur skipum í einu

Tvö risavaxin flutningaskip voru á sama tíma í Helguvík í þarsíðustu viku en þá var olíuflutningaskip frá Kúveit, sem kom með 55 milljónir lítra af flugvélabensíni, og portúgalskt flutningaskip sem var að flytja nánast allt sem tilheyrði Síldarverksmiðjunni sem er í Helguvík. Verksmiðjan var í eigu Síldarverksmiðjunnar í Neskaupsstað en þar hefur ekki verið unnin síld í nokkur ár. Þegar tækifæri gafst var allt selt til Marokkó og er talið að vinna eigi sardínu í nýrri verksmiðju.

Hafnsögumennirnir Karl Einar Óskarsson og Jóhannes Þór Sigurðsson voru á staðnum og fóru yfir þessi tvö verkefni og hvernig starfsemi hafnarinnar er háttað en hafnarstarfsmenn þurfa bæði að sjá um höfnina í Helguvík og hafnirnar í Gróf, Njarðvík, Keflavík og í Höfnum. Karl Einar var sá fyrri til að taka til máls. „Allt flugvélabensín sem flutt er til Íslands kemur í Helguvík, 55 milljónir lítra duga í rúman mánuð og er öllu dælt í tanka sem eru grafnir hér í Helguvík. Bensínið sem fer á Reykjavíkurflugvöll er flutt í flutningabílum en það er pípa sem nær að Keflavíkurflugvelli og öllu bensíni er dælt þangað beint frá Helguvík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sementsskipin koma á u.þ.b. þriggja vikna fresti en ekkert sement er lengur framleitt á Íslandi. BM Vallá flytur inn sitt sement, þau skip losa á Akranesi.“

Jóhannes og Einar Karl.

Heil síldarverksmiðja flutt

Það er ekki eins algengt að heil síldarverksmiðja sé tekin í sundur og hún flutt frá Íslandi. Jóhannes Þór fór yfir það. „Þetta er portúgalskt flutningaskip sem annast þessa flutninga. Á sínum tíma var þetta ein fullkomnasta síldarverksmiðja landsins en hlutirnir hafa breyst svo mikið. Hér áður fyrr gátu skipin veitt mun minna og sigldu hægar, því voru verksmiðjur út um allt land en í dag bera skipin meira, sigla hraðar og því hentugra að vera með verksmiðjur á færri stöðum, t.d. á Neskaupstað. Það hefur ekki verið unnin síld hér í Helguvík í fjölda ára og forsvarsmenn SVN ákváðu að selja verksmiðjuna, okkur skilst að það verði sett upp sardínuverksmiðja í Marokkó, alla vega er skipið að sigla þangað.

Það er búið að hreinsa allt innan úr verksmiðjunni. Þetta eru stórir hlutir, m.a. risastórir tankar sem eru teknir í tvennt og fluttir þannig, það þarf stór og öflug skip til að flytja svona farm. Verkefnið hófst í september, það er að hreinsa allt innan úr en það eru erlendir aðilar sem sjá um það. Upprunalega átti því að ljúka um áramót en svona verkefni vilja frekar teygjast á langinn en hitt. Eins með komu flutningaskipsins, þetta átti að taka fjóra daga og strax eru orðnar tafir. Það er ótal margt sem kemur upp á og spilar inn í öll plön varðandi svona flutninga, t.d. veðrið en svona stór flutningaskip sigla ekki inn í Helguvík nema í góðum veðurskilyrðum. Þetta er fyrri ferðin og svo á annað skip eftir að koma og taka afganginn af verksmiðjunni,“ segir Jóhannes.

Mikið álag oft og tíðum

Það er meira en að segja það að koma stóru flutningaskipi að höfn, Karl Einar fór yfir verkferilinn og hvernig vinnunni við hafnirnar í Reykjanesbæ er háttað. „Þegar olíuflutningaskip koma, tökum við nánast yfir stjórn skipsins. Við erum með tvo dráttarbáta og skipstjórarnir á þeim gera ekkert nema með samþykki okkar sem erum í brú flutningaskipsins. Við erum við hlið skipstjórans og vinnum náið með honum þar til lagst er við bryggju en lokavaldið er auðvitað alltaf hans, nánast undantekningarlaust fer hann samt eftir því sem við leggjum til. Því má nokkurn veginn segja að maður sé skipstjóri á þremur bátum í einu. Við þurfum að vera með skipstjórnarréttindi, hér á Íslandi er ekki gerð krafa um farmanninn eins og það var kallað í Stýrimannaskólanum, þriðja stigið svokallaða. Ég er með fiskimanninn sem var annað stigið, í dag er þetta með breyttu stigi í Stýrimannaskólanum.

Það er líklega ekkert hlaupið að því að fá unga menn í þetta starf, þetta er ansi mikið álag oft og tíðum. Á fríhelgi get ég átt von á að vera kallaður út ef eitthvað kemur upp á. Við erum þrír sem vinnum við þetta ásamt hafnarstjóra og yfir sumarið fer einn okkar í frí, hinir tveir þurfa að vera klárir og þó svo að maður sé í helgarfríi verður maður að vera til taks ef eitthvað kemur upp á. Við þurfum líka að sinna Gróf, Keflavík, Njarðvík og svo erum við líka með Hafnir svo við erum þrír sem þurfum að sinna fimm höfnum. Það er oft fyndið að sjá viðbrögð skipstjórana á erlendu flutningaskipunum, þeir eru vanir því að hafnsögumenn sjái bara um að koma skipinu til og frá bryggju en við þurfum að ganga í öll störf, t.d. að losa skipin við ruslið. Við Íslendingar erum bara vanir að ganga í öll störf,“ sagði Karl Einar að lokum.