Viðskipti

Nýr útibússtjóri og flutningar hjá Sjóvá Reykjanesbæ
Hinrik Reynisson, útibússtjóri með starfsmönnum umboðsins, Kristínu Njálsdóttur, Sigurbirni Gústavssyni og Ingibjörgu Óskarsdóttur. VF-mynd/hilmar.
Miðvikudagur 12. febrúar 2020 kl. 14:28

Nýr útibússtjóri og flutningar hjá Sjóvá Reykjanesbæ

Hinrik Reynisson hefur verið ráðinn útibússtjóri hjá Sjóvá í Reykjanesbæ og hefur hann störf þann 11. febrúar. Hinrik hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 2013, síðustu ár sem verkefnastjóri hjá einstaklingsráðgjöf. Hann býr því yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu á sviði trygginga og þjónustu þeim tengdum.

Hinrik hefur lokið BSc gráðu í viðskiptafræði með lögfræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík. Hinrik er í sambúð með Heiði Heimisdóttur og eiga þau tvær ungar dætur.

Þann 10. febrúar flutti útibú Sjóvá í Reykjanesbæ frá Krossmóa yfir á Hafnargötu 36, þar sem það var áður til húsa. Húsnæðið á Hafnargötu hefur verið tekið í gegn og eftir breytingarnar hentar það afar vel fyrir starfsemi útibúsins sem fer stöðugt vaxandi. Í útibúinu starfa ásamt Hinriki þau Ingibjörg Óskarsdóttir, sölu- og þjónustustjóri, Kristín Gyða Njálsdóttir, ráðgjafi, og Sigurbjörn Gústavsson, ráðgjafi.

Nýr útibússtjóri fullur tilhlökkunar

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við ný verkefni í útibúinu í Reykjanesbæ og fá að kynnast núverandi og framtíðar viðskiptavinum Sjóvá á Suðurnesjum. Í útibúinu okkar starfar frábært fólk sem ég hef verið í miklum samskiptum við í fyrri störfum mínum og hlakka ég mikið til frekara samstarfs með þeim. Hjá Sjóvá starfar mjög samhentur og góður hópur sem leggur sig fram um að veita framúrskarandi þjónustu og gera sífellt betur, bæði í Reykjanesbæ og um land allt. Við erum því afar stolt af því að hafa verið efst í Ánægjuvoginni í þrjú ár í röð. Það eru líka þessi daglegu samskipti við viðskiptavinina sem gera starfið skemmtilegt, að geta bæði veitt þeim hugarróna sem fylgir því að vera tryggður fyrir áföllum og eins verið til staðar fyrir þá ef tjón verður,“ segir Hinrik Reynisson, útibússtjóri.


Fimmtudaginn 13. febrúar eru viðskiptavinir boðnir sérstaklega velkomnir í útibúið við Hafnargötu 36 að þiggja veitingar og glaðning á opnunartíma útibúsins, frá kl. 9:00 til 16:00.