Max Norhern Light
Max Norhern Light

Viðskipti

Nýr rekstraraðili Sólningar í Njarðvík
Óttar Ari Gunnarsson hefur tekið við rekstri hjólbarðaverkstæðis Sólningar í Njarðvík.
Miðvikudagur 20. mars 2019 kl. 07:00

Nýr rekstraraðili Sólningar í Njarðvík

„Byrjunin lofar góðu og þetta leggst bara vel í mig. Við munum halda áfram að þjónusta Suðurnesjamenn eins og við höfum gert í mörg ár,“ segir Óttar Ari Gunnarsson, nýr rekstraraðili hjólbarðaverkstæðisins Sólningar við Fitjabakka í Njarðvík.

Rekstur Sólningar ehf. hætti nýlega en Óttar sem starfað hefur á verkstæði þess í Njarðvík undanfarin ár tók við keflinu eftir áramótin og stofnaði fyrirtæki utan um reksturinn. Hann segir reksturinn hafa gengið vel og sé bjartsýnn. „Ég er með marga ráðgjafa sem segja mér til ef mig vantar ráð þannig að þetta er í góðu lagi,“ segir hann léttur í bragði. Sólning í Njarðvík hefur verið lengi með hjólbarðaþjónustu og margir Suðurnesjamenn hafa nýtt sér hana. Óttar segir að bílaleigurnar hafi verið stór viðskiptavinur undanfarin ár en einnig hinn almenni bíleigandi. 

„Ég er með hressa og duglega karla hérna með mér svo ég hef engu að kvíða. Við leggjum áherslu á að veita góðu þjónustu. Það er stutt í næstu dekkjavertíð. Mér finnst ekki ólíklegt að hún hefjist fljótlega eftir páska en auðvitað fer það eftir veðri,“ sagði Óttar Ari.