Flugger
Flugger

Viðskipti

Ný og bætt verslun Pennans Eymundssonar opnar í flugstöðinni
Föstudagur 18. febrúar 2022 kl. 12:21

Ný og bætt verslun Pennans Eymundssonar opnar í flugstöðinni

Penninn Eymundsson átti hagkvæmasta tilboðið í samkeppni um aðstöðu undir rekstur bókaverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Reksturinn var boðinn út þar sem fyrri samningur við Pennann er að renna út.

Verslunin mun flytja í annað bil og stækka um rúmlega 30%. Áfram verður mikil áhersla á íslenskar og erlendar/þýddar bækur en aukin áhersla verður lögð á gjafa- og matvöru til að grípa með sér. Verslunin verður hlýleg, nútímaleg og áhugaverð og má þar nefna að fyrsta prentun af Njálu frá 1772 verður sýnileg farþegum inn í versluninni. Farþegar munu geta undirbúið kaupin heima í stofu á vefverslun Pennans til að nýta tímann í flugstöðinni sem best.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Átta aðilar sóttu útboðsgögn eftir að opnað var fyrir aðgang að þeim 6. október síðastliðinn. Tvö fyrirtæki sendu gögn til þátttöku, bæði uppfylltu hæfiskröfur og var þeim boðið til viðræðna. Óskað var eftir aðila með reynslu af rekstri tveggja eða fleiri bókaverslana sem selja a.m.k. bækur, tímarit, afþreyingarefni og gjafavörur. Samkeppnin var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu eins og reglur kveða á um.

Við mat á tilboðum var m.a. horft til áherslna í vöruúrvali og hvernig tryggt verði að það haldist í takti við breytilega eftirspurn, að verðstefnan tryggi það að virðisaukaskattleysi skili sér til viðskiptavina, tryggð séu gæði og hraði í þjónustu, hönnun sé skilvirk og í takti við væntingar. Þá voru einnig metnar áherslur í markaðsmálum, þ.m.t. kynningaráætlun. Auk þessara tæknilegu þátta voru metnir fjárhagslegir þættir.

Í valferlinu var notast við þá aðferð að hefja viðræður við aðilana og í kjölfar þeirra skiluðu þátttakendur inn lokatilboðum. Valnefnd mat tilboðin til stiga og hafði til stuðnings mat frá ráðgefandi sérfræðingum. Valnefndin var skipuð tveimur fulltrúum frá Isavia og einum óháðum ráðgjafa frá Deloitte.