Viðskipti

Mikill áhugi á íbúðum í hæsta fjölbýlilshúsinu
Fjöldi fólks mætti til að skoða íbúðir í háhýsinu við Pósthússtræti 5 í Keflavík. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 20. júní 2020 kl. 10:25

Mikill áhugi á íbúðum í hæsta fjölbýlilshúsinu

Fjöldi fólks mætti á opið hús í nýjasta og hæsta háhýsinu á Suðurnesjum en það er nú komið vel á veg í byggingu við Pósthússtræti 5 í Keflavík. Hjalti Gylfason, annar eigenda verktakafyrirtækisins Mannverks sem byggir húsið segir að það hafi verið ánægjulegt hvað margir mættu og nú þegar séu all nokkrir búnir að festa kaup á íbúð í húsinu.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef við verðum ekki búnir að ganga frá hátt í tíu kaupsamningum fyrir vikulokin. Við erum afar ánægðir með hvað Suðurnesjamenn sýna þessum íbúðum mikinn áhuga,“ sagði Hjalti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Íbúðirnar verða afhentar tilbúnar í nóvember á þessu ári en framkvæmdir hafa nú staðið yfir á fullu í nokkurn tíma en þeim seinkaði um nærri ár og breyta þurfti háhýsinu vegna skipulagsmála. Var húsið minnkað og þar af leiðandi skipulaginu í því. Við það breyttist ein íbúð á átta fyrstu hæðunum úr þriggja í tveggja herbergja 70 fermetra íbúð. 

Í húsinu eru 34 íbúðir, 8 tveggja herbergja, 24 þriggja herbergja og efst eru tvær stærri þakíbúðir. Öllum íbúðunum verður skilað fullbúnum með gólfefnum. Vandaðar innréttinar frá Axis með granítborðplötum eru í íbúðunum, þá er bílakjallari við húsið.

Útsýni er úr öllum íbúðunum til sjávar og verðið er frá 31,9 milljónum króna en meðalverð á fermetra er um 420 þúsund krónur.

„Það virðist sem markaðurinn fyrir svona íbúðir sé nokkuð stór miðað við áhugann sem við höfum fundið fyrir. Líklega er það uppsöfnuð þörf á markaðinum,“ sagði Hjalti en Mannverk er með leyfi til að byggja tvö önnur háhýsi sem eru teiknuð við hlið þessa húss. 



Séð yfir Keflavíkurhöfn frá 8. hæð.

Svona er útsýnið frá svölum á þriðju hæð yfir til Njarðvíkur.