Viðskipti

Guðrún Sóley hannar nýja vegan-rétti fyrir Skólamat
Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar, og Guðrún Sóley Gestsdóttir undirrita samning.
Fimmtudagur 22. október 2020 kl. 07:44

Guðrún Sóley hannar nýja vegan-rétti fyrir Skólamat

Skólamatur og Guðrún Sóley undirrituðu á dögunum samstarfssamning um framleiðslu á nýjum vegan-réttum sem munu birtast á matseðli Skólamatar innan skamms.

Skólamatur sem hefur um rúmlega tuttugu ára skeið sérhæft sig í framleiðslu og framreiðslu á máltíðum fyrir leik- og grunnskólanemendur býður á hverjum degi upp á tvo aðalrétti, þar af er annar ávallt vegan.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Stöðug aukning hefur verið í neyslu á vegan-réttum á undanförnum árum og daglega eru borðaðir rúmlega 1.000 skammtar af vegan-rétti.  Mikil ánægja er á meðal nemenda og starfsfólks að hafa kost á því að fá sér vegan-rétt. Samstarfið við Guðrúnu Sóleyju er liður í því að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini okkar með meiri fjölbreytni og nýjungum í vegan-réttum.

Guðrún Sóley hefur fyrir löngu sannað sig sem ein af fremstu vegan-sælkerum landsins. Árið 2018 gaf hún út matreiðslubókin Grænkerakrásir sem hefur slegið í gegn. Í júní síðastliðnum hlaut bókin alþjóðlegu Gourmand-matreiðslubókaverðlaun í tveimur flokkum. Bókin hlaut fyrsta sæti í flokki vegan-matreiðslubóka og þriðja sæti í flokki skandinavískra matreiðslubóka.

„Við hjá Skólamat erum þakklát fyrir að fá hæfileikaríku Guðrúnu Sóleyju í samstarf við okkur og hlökkum til að kynna afrakstur verkefnisins sem fyrst fyrir viðskiptavinum okkar,“ segir í frétt frá Skólamat.