Viðskipti

Framtíðin er björt hjá HS Veitum
Páll Erland ræddi framtíðarhorfur HS Veitna á Fagþingi Samorku.
Föstudagur 19. maí 2023 kl. 06:17

Framtíðin er björt hjá HS Veitum

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, fjallaði um framtíðarhorfur í rekstri HS Veitna á lokamálstofu á Fagþingi Samorku sem haldið var 4.–5. maí. Hann sagði hana mjög bjarta en félagið kynnti nýlega ársreikning sem sýnir mjög sterka stöðu HS Veitna.

Páll fjallaði um ýmsar áskoranir tengdar rekstri HS Veitna, svo sem í tengslum við vaxandi orkuþörf, stöðu jarðhitaforðans, innleiðingu reglugerða frá Evrópu, vatnsréttindi, þörfina fyrir Suðurnesjalínu 2 og áhrif orkuskipta í samgöngum á rafdreifikerfið. Þá þurfi að huga vel að mannauðnum og mennta næstu kynslóð í iðn- og tæknigreinum til að leysa verkefni framtíðarinnar. Hann lagði þó mesta áherslu á bjarta framtíð HS Veitna.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Fyrirtækið er fjárhagslega sterkt og vel í stakk búið til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Auk fjárfestinga í veitukerfunum stendur til að halda áfram á braut snjallvæðingar í þágu viðskiptavina og til að stuðla að hagkvæmni í rekstri. Fyrirtækið er á svo mörgum sviðum í fremstu röð veitufyrirtækja, má þar þakka því öfluga starfsfólki sem félagið býr að og framtíðin er því björt hjá HS Veitum“.

Starfsfólk HS Veitna tók virkan þátt á þinginu. Viðburðurinn hófst á Framkvæmda- og tæknidegi sem er sérstaklega ætlaður fagfólki í framkvæmdum. Þar lét lið HS Veitna í veitukeppni Samorku sitt ekki eftir liggja og fékk gullverðlaun í þremur greinum af sex.

Þá voru nokkrir fulltrúar frá félaginu með áhugaverð erindi. Gústav Daníelsson, öryggisstjóri HS Veitna fjallaði til að mynda um nýja nálgun við atvikaskráningu og notkun QR kóða. Gunnlaugur Kárason, sviðsstjóri fjármálasviðs, fjallaði um innkaup á óvissutímum og Svanur Árnason, sviðsstjóri Vatnssviðs, fjallaði um yfirtöku á vatnsveitu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Guðlaugur Þór, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, ávarpaði fagþingið og fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að leggja áherslu á hitaveitur og nýtingar jarðhitavatns til húshitunar á landsvísu, ekki síst vegna loftslagsbreytinga.