Viðskipti

Framlenging á eldhúsinu
Gunnar og Arna með grímur í Kosti á veirutímum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 13. nóvember 2020 kl. 07:31

Framlenging á eldhúsinu

„Þetta hefur gengið vel og það hefur verið aukning hjá okkur að undanförnu,“ segja þau Arna Hrönn Sigurðardóttir og Gunnar Rúnarsson, eigendur hverfisverslunarinnar Kosts í Njarðvík. Þau segja að margir nýir viðskiptavinir hafi haft það á orði að það væri betra að koma í minni verslun vegna Covid-19 og það megi rekja aukninguna til veirunnar. „Þetta hefur gengið mjög vel en aukið atvinnleysi er áhyggjuefni og veturinn framundan sömuleiðis,“ segir Gunnar.

Í húsnæði Kosts er löng hefð fyrir matvöruverslun en Fíabúð opnaði á sama stað árið 1960 þegar Friðjón Jónsson hóf rekstur í Njarðvík. Þau segja að það séu margir fastir viðskiptavinir og það sé misjafnt hvað þeir koma oft. „Nágrannar okkar hérna í hverfinu segja að við séum eiginlega framhald af eldhúsinu,“ segir Arna og hlær. Hverfisverslanir eru þekktar fyrir að vera með langan opnunartíma en Kostur opnar eldsnemma og er með opið til klukkan tíu á kvöldin.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Gunnar segir að þau reyni að hafa vöruverð eins lágt og mögulegt er en innkaup þeirra eru eins og gefur að skilja minni hjá birgjum en stórverslanir gera og því fái þau vörurnar ekki á eins lágu verði. „Við fáum samt að heyra að við séum með hagstætt vöruverð og stundum meira að segja lægra en í stórverslunum á svæðinu. Sumir gera hér stórinnkaup hjá okkur,“ segir Gunnar.

Kostur hefur verið þekktur fyrir að vera með ótrúlega mikið vöruúrval miðað við stærð verslunarinnar. Séu viðskiptavinir með óskir um eitthvað sem sé ekki til í búðinni þá sé hægt að útvega vöruna fljótt og vel. Hjónin segja að þetta sé mikil vinna. „Maður er vakandi og sofandi yfir þessu. Þetta gengur þannig. Við erum á fullu í þessu og okkar fólk,“ segja þau og margir nýta sér að fá ferskar vörur eins og nýjan fisk og kjötvörur í hverfisversluninni en auðvitað er allt það helsta á boðstólum í Kosti.

Þau hjón hafa rekið Kost frá árinu 2006 en þau tóku við rekstrinum af Rúnari Lúðvíkssyni, föður Gunnars, sem byrjaði í verslunarrekstri 1994 í Keflavík en rak einnig Kost í nokkur ár. Í viðtali við þau hjón í Víkurfréttum árið 2012 segir fyrirsögnin margt um þessa skemmtilegu hverfisverslun: „Vinalegt andrúmsloft og þjónusta og vöruúrval með besta móti.“ Og það stendur enn.

Fíabúð, eins og verslunin er jafnvel en svo kölluð í daglegu tali Njarðvíkinga, hefur verið einn af hornsteinum Njarðvíkur allt frá því á fyrri hluta 20. aldar. Þeir Friðjón Jónsson og Sigurður Guðmundsson komu fyrst verslun í Njarðvík á tryggan grunn árið 1939 þegar þeir reistu lítið verslunarhús á Þórukotslóðinni. Friðjón og Karl Oddgeirsson, uppeldissonur hans, réðust í það að reisa húsnæðið á horni Borgarvegs og Holtsgötu árið 1959 þar sem það hefur staðið síðan og hýsir nú verslunina Kost. Eftir að Friðjón hætti með búðina upp úr 1970 hafa ýmsir aðilar komið að rekstri búðarinnar.  Með Friðjóni á myndinni er Álfhildur Skarphéðinsdóttir.

Verslunarhúsið hefur ekki breyst mikið í áranna rás.