Viðskipti

Félagsmenn í fyrsta sæti - nýtt app hjá Samkaup
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 26. febrúar 2021 kl. 06:39

Félagsmenn í fyrsta sæti - nýtt app hjá Samkaup

Í tilefni þess að Kaupfélag Suðurnesja fagnar 75 ára afmæli innleiðir félagið nýja lausn fyrir félagsmenn sína í samstarfi við Samkaup hf. Kaupfélagið býður félagsmönnum sínum inn í framtíðina í gegnum „Samkaup í símann“.

„Við hvetjum félagsmenn okkar að sækja smáforritið (appið) sem mun koma í staðinn fyrir félagsmannakortið. Samkaup í símann er mjög einfalt í notkun og er sannkölluð verslun við hendina. Þú borgar beint með símanum í verslunum Samkaupa um land allt, færð 2% inneign af allri verslun, safnar kvittunum og færð sérstök tilboð sem eru eingöngu í appinu,“ segir Skúli Þ. Skúlason, formaður KSK.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á næstu vikum verða reglulega dregnir út félagsmenn sem hafa sótt appið og virkjað það. Í vinning verða inneignir, 100.000 krónur hver vinningur. Einnig verða félagsmenn sem byrjaðir eru að nota það dregnir út og innkaupin verða endurgreidd með inneign inn á kortið.

Hægt er að ná í forritið á App Store og Google Play. „Uppsetning er einföld og tenging er sjálfkrafa við vefþjón á kennitölu svo núverandi félagsmaður þarf ekki að aðhafast neitt frekar þegar hann nær í appið. Þegar hann mætir svo í verslunina opnar hann appið og framvísar því á kassa. Síðan er hægt að velja um að safna upp inneign en meðalfjölskylda gæti fengið 50 þúsund krónur í inneign á ári. Til viðbótar verða félagsmönnum send mánaðarlega spennandi sértilboð,“ segir Skúli.

– Eru fleiri möguleikar í boði?

„Í grunninn er þetta uppsöfnunarkerfi þar sem félagsmannaafslættir fara í inneign sem er sýnileg á forsíðu appsins um leið og viðskiptum lýkur. Hægt er að innleysa hana við næstu viðskipti eða safna upp til betri tíma. Hægt er að tengja greiðslukort við kerfið og greiða með símanum. Stafrænar kvittanir koma inn á appið og hægt að fletta upp og fylgjast með. Möguleiki er að senda félagsmönnum tilkynningar og tilboð.“

Skúli segir félagsmenn eiga von á fleiru með þessum breytingum.

„Samkaup er leiðandi fyrirtæki á mörgum sviðum en eins og með allt er nauðsynlegt að ná vel utan um það sem þú byrjar á. Þegar fram í sækir munum við bæta við möguleikum eins og innkaupalistanum, sérsniðnum tilboðum, leikjum og fleiru.“

– Það er hægt að segja að þetta séu breytingar í takt við tímann. Er þetta heimatilbúin lausn?

„Appið er hannað af Coop í Danmörku og aðlagað okkur. Við höfum lagt ríka áherslu á að treysta samstarfið við nágrannalöndin. Sjálfur hef ég setið í stjórn Euro Coop síðan 2012 en það eru samtök samvinnufyrirtækja á neytendasviði í nítján Evrópulöndum. Þar hafa myndast tengsl sem hafa auðveldað okkur frekara samstarf. Leiðtogar Samkaupa hafa í kjölfarið unnið markvisst með félögum okkar ytra á ýmsum sviðum sem stuðlað hefur að því að Samkaup hf. er í dag afar öflug skipulagsheild, rekur 60 verslanir um allt land og með höfuðstöðvar hér í heimahaganum á Suðurnesjum.“

– Kaupfélagið fagnaði 75 ára afmæli á árinu 2020. Það er langur tími í verslun og þróun hröð á síðustu árum.

Já, mikið rétt. Það hefur verið ótrúleg þróun á öllum sviðum á þessum tíma og kaupfélagið okkar verið hluti sögunnar. Áskorun okkar er að nútímavæða félagið og gera það eftirsóknarvert. Samvinna sem hugmyndafræði, burt sé frá dægurþrasi stjórnmálanna, verður alltaf mikilvægur þáttur í velferð og uppbyggingu hvers samfélags,“ segir Skúli Þ. Skúlason.