Viðskipti

Engin gúrkutíð í Nettó 
Miðvikudagur 11. nóvember 2020 kl. 11:40

Engin gúrkutíð í Nettó 

Enginn skortur er á gúrkum í verslunum Nettó. Fyrir skömmu bárust fréttir af landlægum gúrkuskorti í mörgum af stærstu verslunarkeðjum landsins en annað er upp á teningnum í Nettó. Innlend framleiðsla á gúrkum og öðru grænmeti skilar sér í hillur Nettó beint frá íslenskum bændum. 

„Við höfum byggt upp okkar viðskiptasamband við bændur og unnið með þeim til að tryggja framboð af grænmeti. Bændur dreifa grænmetinu beint í verslanir okkar til að minnka kolefnissporið. Þetta á við um nær allt íslenskt grænmeti,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður verslunarsviðs Samkaupa, í tilkynningu.  

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

Í byrjun árs sendi stjórn Samkaupa opið bréf á landbúnaðarráðherra þar sem ríkisstjórnin var hvött til að ýta undir innlenda grænmetisræktun með hagrænum hvötum og stuðningsaðgerðum til að styrkja undirstöður fæðuöryggis landsmanna og til að bregðast við yfirvofandi efnahagskreppu í kjölfar kórónuveirunnar. Í kjölfarið veitti ríkisstjórnin 200 milljónir í aukið framlag til grænmetisbænda.   

„Skilyrði til grænmetisræktunar á Íslandi eru góð auk þess sem ræktunin sjálf er mjög umhverfisvæn. Þá hefur orðið vitundarvakning um gæði íslensks grænmetis sem við sjáum meðal annars í aukinni sölu í verslunum okkar enda er fólk þakklátt fyrir að geta nálgast íslenskt grænmeti sem er ræktað í nærumhverfinu,“ segir Gunnar Egill. 

Samkaup reka 61 verslun víðs vegar um landið auk miðlægrar miðstöðvar fyrir netverslun. Verslanirnar spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu merki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland, Seljakjör og Samkaup strax.