Viðskipti

Alexandra ráðin markaðsstjóri Keilis
Sunnudagur 14. nóvember 2021 kl. 07:05

Alexandra ráðin markaðsstjóri Keilis

Alexandra Tómasdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Keilis, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og hefur hún þegar hafið störf. Undir Keili eru starfandi fjórir skólar; Háskólabrú, Heilsuakademía, Flugakademía Íslands og Menntaskólinn á Ásbrú. Alexandra mun leiða markaðsstarf skólanna og stýra þróun vörumerkjanna til framtíðar.

Alexandra hefur starfað sem markaðsstjóri Flugakademíu Íslands síðan í apríl á þessu ári og tekur við stöðu markaðsstjóra Keilis af Arnbirni Ólafssyni sem sinnt hafði starfinu síðustu tólf ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Alexandra býr yfir mikilli reynslu og menntun á sviði markaðsmála og kom hún til Flugakademíu Íslands frá Private Travel Iceland þar sem hún sinnti stöðu markaðsstjóra frá árinu 2016. Hún er með BS í Business Administration með áherslu á markaðsfræði frá Auburn University Montgomery og MS í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

„Eftir að hafa unnið innan raða Keilis sem markaðsstjóri Flugakademíu Íslands hef ég fengið að kynnast því hversu frábært starf á sér stað hérna alla daga. Með okkar fjölbreytta námsframboði, nýstárlegu kennsluháttum, frábæru aðstöðu og öfluga mannauði hlakka ég mikið til að leiða markaðsstarf Keilis og leggja mitt að mörkum í áframhaldandi uppbyggingu Keilis,“ segir Alexandra.