Flugger
Flugger

Viðskipti

800 milljón króna fjárfesting liggur undir skemmdum vegna frostskemmda
Eldgos við Grindavík að morgni 14. janúar 2024. Ljósmynd: Árni Sæberg
Sunnudagur 28. janúar 2024 kl. 07:12

800 milljón króna fjárfesting liggur undir skemmdum vegna frostskemmda

„Við erum ekki farnir að íhuga framtíð landvinnslunnar,“ segir Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar. Strax á sunnudeginum eftir rýminguna 10. nóvember höfðu stjórnendur endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte samband og buðu Þorbirni að færa skrifstofur sínar í húsnæði Deloitte að Dalsvegi 30 í Kópavogi. Heiðar og Ottó Hafliðason, fjármálastjóri, kíktu á aðstæður á mánudeginum og allir fluttu sig inn á þriðjudeginum.

Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar.

Heiðar segir að vel hafi tekist til við flutninginn en eðlilega hafi verið smá hökt á tölvukerfinu fyrstu dagana. „Guðmundur Hjálmarsson sem sér um tölvukerfið hjá okkur, lyfti grettistaki myndi ég segja, hann sótti router-inn og kom honum fyrir í tölvuveri á Akranesi og bjó til tengingar. Eðlilega var eitthvað hökt í byrjun en ég myndi segja að viku eftir að við vorum búin að flytja okkur, var allt orðið eðlilegt og tæpum tveimur vikum frá rýmingunni, var allt bókhaldið orðið afstemmt. Allt var eðlilegt nema að við vorum á nýjum stað. Rekstur skrifstofunnar hefur því gengið vel, við vorum farin að huga að því að snúa til Grindavíkur, þ.e.a.s. þau sem vildu það. Við tókum síðasta þriðjudag einmitt í Grindavík, fórum og þrifum skrifstofuna, tókum okkur meira að segja kaffitíma, það var æðislegt að fá sér brauð með osti og vera saman. Það má nefnilega ekki gleyma því að samveran er svo mikilvæg, að hittast á kaffistofunni og ræða leikinn frá kvöldinu áður eða eitthvað slíkt.“

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí
Á skrifstofunni á Dalvegi í Kópavogi.

Engar miðbæjarrottur

Heiðar og fjölskylda hafa komið sér vel fyrir í Garðabæ, eftir að hafa byrjað vistaskiptin í miðbæ Reykjavíkur. „Við fundum fljótlega að við erum engar miðbæjarrottur, þess vegna var gott að komast í Garðabæ. Átta ára dóttir okkar byrjaði í Sjálandsskóla í byrjun árs og kann vel við sig, fleiri Grindvíkingar eru fluttir í hverfið til okkar, m.a. vinkonur hennar svo okkur líst bara vel á framhaldið. Við ætluðum eins og aðrir foreldrar barna í skóla, að klára skólaárið og flytja svo aftur heim í vor en mér sýnist það ekki ætla verða að veruleika.

Annars er aðalverkefnið hjá okkur núna að komast í húsnæðið okkar og bjarga því frá frostskemmdum. Við vorum nýbúnir að klára 800 milljón króna fjárfestingu í lausfrystum og það má ekki frjósa þar í lögnum, það yrði mikið tjón og ekki vitað hver ber það tjón. Náttúruhamfaratryggingar Íslands bera ekki óbein tjón og tryggingarfélögin fría sig ábyrgð því þau telja tjónið heyra undir Náttúruhamfaratryggingasjóð. Þetta gildir líka fyrir húseigendur, eins og staðan er í dag eru frostskemmdir ekki bættar en ég trúi nú ekki öðru á þessum viðsjárverðu tímum sem við erum að lifa á, að ríkið taki þetta ekki á sig,“ segir Heiðar.

Hópurin samankominn á skrifstofu Þorbjarnar í Grindavík á dögunum.

Þriðji ættliður í Þorbirni

Þorbjörn á langt viðskiptasamband við saltfiskkaupendur en núverandi staða gerir fyrirtækinu erfitt fyrir að standa skil á sínum enda samningsins. „Mér finnst athyglisverð staðreynd að Þorbjörn hefur stundað viðskipti við sama aðilann á Spáni, frá stofnun fyrirtækisins. Afi minn var einn stofnenda Þorbjarnar og hann stofnaði til þessara viðskiptasambanda, pabbi minn heitinn og Gunnsi frændi tóku við og nú erum við, næsti leggur að taka við keflinu. Ég er stoltur af þessu og nú ríður á að þetta trausta viðskiptasamband haldi en viðskiptavinurinn verður auðvitað að fá sinn fisk, við erum eðlilega í erfiðleikum með uppfylla okkar hluta. Hversu lengi okkur verður sýndur skilningur skal ég ekkert segja til um. Sem betur fer er stór hluti rekstrarins í frystitogurunum Tómasi Þorvaldssyni og Hrafni Sveinbjarnarsyni, þetta ástand í Grindavík hefur ekki bein áhrif á rekstur þeirra skipa og þeim hefur gengið vel. Hvað varðar framtíð landvinnslunnar erum við ekkert farnir að íhuga næstu skref, við verðum bara að bíða og sjá hvað nánasta framtíð ber í skauti sér,“ sagði Heiðar að lokum.