Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Viðskipti

66°Norður áfram á Keflavíkurflugvelli
Mánudagur 3. júlí 2023 kl. 23:27

66°Norður áfram á Keflavíkurflugvelli

66°Norður átti hagkvæmasta tilboðið í samkeppni um rekstur á verslun sem selur útivistar- og lífsstílsfatnað á Keflavíkurflugvelli. Verslun 66°Norður verður á sama stað og núverandi verslunin er staðsett en síðar á árinu verður hún endurnýjuð og svo opnuð í endurbættri mynd í lok árs.   

„Við hjá 66°Norður höfum átt farsælt samstarf við Isavia og erum gífurlega stolt og ánægð að fá að halda áfram að bjóða íslenskum og erlendum ferðalöngum upp á frábært úrval útivistarfatnaðar á tollfrjálsu verði. Við verðum áfram á sama svæði en munum breyta rýminu  til hins betra. Við hlökkum til að bjóða gesti Keflavíkurflugvallar velkomna í enn veglegri verslun en áður,“ segir Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður, í tilkynningu.

Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og alls sóttu átta aðilar útboðsgögnin þegar opnað var fyrir aðgang að þeim 25. janúar sl. Tveir aðilar uppfylltu hæfiskröfur útboðsins og var boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu. Báðir aðilar kláruðu allt ferlið og skiluðu inn tilboðum en á endanum var það 66°Norður sem reyndist hlutskarpara. Við mat á tilboðum var horft til fjárhagslegs hluta sem og tæknilegrar útfærslu. Matsferlið fól í sér að meta gæði tilboðanna en við það er m.a. litið til vöruframboðs, verðlagningar og gæða, þjónustu við viðskiptavini, hönnunar og útlits verslunar, markaðssetningar sem og sjálfbærni.

„Það er afar ánægjulegt að geta áfram boðið farþegum upp á flottar íslenskar gæðavörur frá 66°Norður á Keflavíkurflugvelli. Eins og við vitum er vörumerkið með þeim þekktari í landinu og fer að auki stækkandi á alþjóðavísu. Við erum stöðugt að bæta þjónustu við farþega og ný verslun 66°Norður mun bjóða upp á enn betri þjónustu, bæði á staðnum og á stafrænan máta. Farþegar munu því geta keypt hágæða útivistarfatnað sem og einstaka gjafavöru og minningu um Íslandsdvölina á leið í flug,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga.

Útboð á þjónustu á Keflavíkurflugvelli er liður Isavia í því að gera rekstrarumhverfið samkeppnishæft. Félagið býður reglulega út þjónustu og fylgir við það lögum og reglum um opinber innkaup og reglugerð nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk og þjónustu. Þá viðhefur félagið jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni og eru öll útboð auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Núverandi verslun 66°Norður er staðsett hægra megin áður en haldið er út landganginn og verður opin þar vel fram á haust. Samkvæmt áætlunum verður svo ný og endurbætt verslun opnuð á sama stað í aðdraganda jóla.