Pistlar

Takk
Laugardagur 11. desember 2021 kl. 06:16

Takk

Ég man svo vel eftir því þegar ég var barn og mamma var að predika fyrir okkur systkinum að vera ekki vanþakklát. Hún hefur án efa einnig lagt mikið upp úr því að við temdum okkur þakklæti en þessi setning er eitthvað sem ég heyrði ansi oft: „Inga mín, þú átt ekki að vera vanþákklát.“ Á þeim tíma var ég tæpast búin að gera mér grein fyrir merkingu orðsins þakklæti, eða jú en kannski ekki farin að tileinka mér það að neinu leyti. Ég mátti bara alls ekki vera vanþakklát sem ég vissi að minnsta kosti að væri eitthvað mjög slæmt. Allt gott og blessað um þetta að segja og góðar uppeldisreglur móður minnar sem ég auðvitað lét ganga áfram til barnanna minna. Hin síðari ár þá hef ég, eins og þroskaðri manneskju sæmir, lagt meira upp úr því að hugsa um það sem ég gæti verið þakklát fyrir. Veit ekki hvort ég hafi verið nógu dugleg sem móðir að koma þessum skilaboðum áfram til barnanna minna en ég held að við séum flest sammála um að við mættum öll vera ögn þakklátari. Við búum í neyslusamfélagi og mér finnst ég þar með talin oft tapa mér algjörlega í neyslunni, stundum eins og ekkert sé nóg, við viljum alltaf meira.  Eða eins og Rúnar Júlíusson heitinn söng í laginu: „Betri bíla, yngri konur, eldra viskí, meiri pening.“ Þess vegna finnst mér mikilvægt að reyna að einfalda lífið örlítið og horfa frekar til þess sem ég get verið þakklát fyrir, líka litlu hlutanna. 

Við hjónaleysin skelltum okkur í heimsókn til yngri dóttur minnar í Bandaríkjunum sem þar býr og stundar nám og hefur gert frá því Covid bankaði á dyrnar. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema þó aðeins vegna þess að þær dyr hafa verið lokaðar í tæp tvö ár. Við ákváðum að nýta skólafrí dótturinnar yfir þakkargjörðarhátíðina í heimsóknina en á þeim tíma fara allir vinirnir í skólanum til síns heima og ansi tómlegt í félagslífi dótturinnar. Ég hef ekki áður eytt þakkargjörðardegi í Bandaríkjunum og því ansi gaman að upplifa það en sá dagur er jú eini hátíðsdagur í Bandaríkjunum sem er upprunninn þaðan og gengur þvert á trú. Þetta er því langstærsti frídagur þar vestra eins og við áttum eftir að komast að en þennan dag var nánast allt sett í lás. Við vorum sem betur fer búin að finna veitingastað til að borða á en stórborgin sjálf, Chicago, varð eins og draugabær þennan dag. Eftir samtöl við heimamenn um mikilvægi dagsins í þeirra huga fór ég að hugsa hvað mér þykir tilefni þessa dags í raun stórmerkilegt, að koma saman með sínum nánustu og einfaldlega þakka fyrir. 

Jólin í mínum huga hafa alltaf verið einskonar þakkargjörð. Ég geri mikið af því að gefa gjafir frá hjartanu frekar en höfðinu. Reyni að hugsa hvernig ég vilji gleðja fólkið mitt með einhverju persónulegu frekar en veraldlegu þó ég fari alltaf algjörlega yfir strikið í veraldlegum gjöfum. Þessar persónulegu gjafir slá alltaf mun meira í gegn og hafa skapað góðar minningar og hlýjar tilfinningar. Þannig að hjá okkur fjölskyldunni eru jólin eins konar uppgjörstími og uppskeruhátíð á sama tíma. Á jólunum fögnum við, syrgjum, hlæjum og grátum. Á þessum fallegu nótum sendi ég kærleika til ykkar allra lesendur góðir, njótið jólahátíðarinnar með ykkar bestu.