Pistlar

Grásleppan og gullvagninn
Háey I ÞH, sem er nýjasti línubáturinn í 30 tonna flokknum, var með 80 tonn í fimm og landaði Háey I þessum afla í Grindavík.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 22. apríl 2022 kl. 15:04

Grásleppan og gullvagninn

Páskahelginni 2022 lokið og framundan sól og sumarylur, í það minnsta vonum við það.

Grásleppuvertíðin hófst í apríl. Nokkrir bátar eru komnir á þær veiðar og eru aðallega tvö veiðisvæði sem að bátarnir eru að stunda veiðarnar. Skammt utan við Grindavík og á svæðinu í kringum Hópsnes og síðan utan við Sandgerði og áleiðis að Stafnesi. Garpur RE er aflahæstur bátanna enn sem komið er og er kominn með 21,1 tonn í fimm róðrum en hann landar í Grindavík. Þar er er líka Tryllir GK sem er kominn með 670 kíló í einni löndun. Í Sandgerði eru nokkrir bátar komnir á veiðar. Guðrún GK var t.a.m. með 2,1 tonn í einni löndun. Ragnar Alfreðs GK með 3,6 tonn í tveimur og Sunna Líf GK 1,8 tonn í einni löndun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrir páska var þónokkur floti af línubátum á veiðum utan við Sandgerði. Bátarnir lágu þar yfir páskana en eru allir komnir út aftur og fyrstu tölur eftir páskana benda til þess að fiskur er þarna fyrir utan. Hafrafell SU var t.d. með 11,3 tonn (reyndar þorskur og ýsa, vantar aukategundir), Sandfell SU 12,2 tonn (líka þorskur og ýsa, vantar aukategundir). Tölur um aðra báta voru ekki komnar inn fyrir afla þeirra núna eftir páskana.

Skoðum aðeins á dragnótabátana nú í apríl. Aðalbjörg RE er með 39 tonn í fimm löndunum, Maggý VE með 33 tonn í fjórum, Benni Sæm GK 9,1 tonn í einni, Sigurfari GK 19 tonn í einni og Siggi Bjarna GK 8,8 tonn í einni löndun. 

Hjá netabátunum núna í apríl þá er Erling KE kominn með 199 tonn í ellefu róðrum. Grímsnes GK 80 tonn í níu, Maron GK 58 tonn í níu, Halldór  Afi GK 18 tonn í fimm róðrum og eru þá netabátarnir upptaldir.

Hjá línubátunum er Sighvatur GK með 236 tonn í tveimur en helmingur af þessum afla var landað í Grundarfirði. Fjölnir GK 233 tonn í þremur róðrum, Valdimar GK 224 tonn í þremur róðrum, Páll Jónsson GK 171 tonn í tveimur og landaði hann meðal annars á Skagaströnd. Valdimar GK, Sighvatur GK og Fjölnir GK voru allir á veiðum djúpt úti frá Sandgerði.

Af minni bátnum þá er Sandfell SU með 148 tonn í tólf löndunum, Hafrafell SU 151 tonn í tólf, Kristján HF 116 tonn í níu, Vésteinn GK 111 tonn í tíu, Indriði Kristins BA 102 tonn í átta og Gísli Súrsson GK 98 tonn í níu, allir að landa bæði í Grindavík og Sandgerði,

Háey I ÞH, sem er nýjasti línubáturinn í 30 tonna flokknum, var með 80 tonn í fimm og landaði Háey I þessum afla í Grindavík. Þar voru líka Sævík GK með 57 tonn í sex löndunum, Daðey GK 55 tonn í sex, Margrét GK með 54 tonn í sex og Hulda GK 51 tonn í sjö róðrum.

Aðeins meira varðandi þennan bát Háey I ÞH, báturinn er smíðaður á nokkuð sérstökum stað. Hann var smíðaður hjá Víking en það fyrirtæki er staðsett á Esjumelum í Mosfellsbæ og er ansi langt frá sjó. Enginn höfn er í þarna nálægt og því var leitað til Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og fenginn dráttarvél og vagn sem hún dregur, sem  í daglegu tali er kallaður gullvagninn. Saman fór þessi hersing alla leið frá Njarðvík og upp í Mosfellsbæ og sótti bátinn Háey I ÞH og dró hann í Grafarvoginn þar sem að báturinn var settur á flot á háflóði. Tveir minni bátar voru til aðstoðar gullvagninum frá Njarðvík til að draga bátinn út. Gekk það vel og hefur útgerð bátsins gengið nokkuð vel en hann er gerður út af GPG á Húsavík.