Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Pistlar

Eldgos og atvinnuleysi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 9. apríl 2021 kl. 06:56

Eldgos og atvinnuleysi

Þegar eldgos við Grindavík tekur sífellt á sig nýja mynd gætu þessar náttúruhamfarir orðið stór hluti í endurreisn atvinnulífs á Suðurnesjum. Slík er athyglin sem gosið fær og skal engan undra. Þetta er magnað.

Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni vakti Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, athygli á erfiðri stöðu á svæðinu þar sem um 200 manns ná þeim vafasama áfanga að vera búnir að vera án atvinnu í 30 mánuði og þannig fullnýta rétt sinn til bóta hjá Vinnumálastofnun.

Sólning
Sólning

„Í ljósi þessa mikla atvinnuleysis hér á svæðinu er mjög mikilvægt að bregðast áfram við því eftir því sem við best getum. Það eru rúmlega 200 manns að fullnýta sinn bótarétt á árinu hjá VMST sem eru 30 mánuðir og ég hugsa til þessa fólks með tilliti til framfærslu. Mun það leita til sveitarfélagsins og fá þá helmingi lægri framfærslu. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólki líður eftir svona langtímaatvinnuleysi,“ sagði Díana á fundinum og benti á að hluti af þessum hópi sé að velkjast um í röngu kerfi og skoða þurfi hvernig einstaklingarnir séu staddir andlega, líkamlega og félagslega og vinna út frá því. Hún spyr hvort einstaklingur sem sé búinn að vera án atvinnu í svona langan tíma sé í stakk búinn að fara í 100% starf.

Í áhugaverðri ræðu á bæjarstjórnarfundinum ræddi Díana líka námsmannaúrræði og segir að námsmenn séu orðnir óþreyjufullir eftir svörum hvort þeir fái vinnu í sumar eða ekki. Það var í boði í fyrrasumar og kom mjög vel út. Gott dæmi var verkefnið „Hughrif í bæ“ í Reykjanesbæ þar sem ungmenni máluðu og gerðu margt skemmtilegt í bæjarfélaginu.

Ríkisstjórnin kynnti nýlega verkefnið „Hefjum störf“ en það er sérhannað fyrir einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í ár eða meira. Þar eru atvinnurekendur hvattir til að ráða fólk úr þeim hópi og fá til þess upphæð sem nemur fullum mánaðarlaunum að hámarki 472.835 kr. að viðbættu 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði. Í tengslum við það átak er ekki úr vegi nú þegar einhverjar líkur eru á því að eldgos geti varað í lengri tíma að skoða áhugaverða hugmynd Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns, þar sem hann vill skapa tugi starfa við gæslu og eftirlitsstörf á gosslóðum. „Við eigum að skapa þá umgjörð um einstaka auðlind sem gosið er þannig að eftir því verði tekið og við vöndum okkur að gera vel. Þjónusta ferðafólk er eitthvað sem margir atvinnulausir hafa gert allan sinn starfsaldur í flugstöðinni og auka öryggi gesta á svæðinu með því að skapa ný og áhugaverð störf í náttúru Íslands og slá þannig tvær flugur í einu höggi,“ segir Ásmundur og undir þetta má svo sannarlega taka.

Atvinnuleysi er alvarlegt mál. Mikil óvissa er enn um komu ferðamanna vegna slæmrar Covid-stöðu víða úti í heimi. Því er mikilvægt að nýta önnur tækifæri þangað til störf í ferðaþjónustu komast aftur í gang. Þó eru ljós á nokkrum stöðum í ganginum og frétt um daglegt flug flugfélagsins Delta frá Keflavíkurflugvelli frá 1. maí með farþega sem hafa fengið sprautu, vakti von um hugsanlegt upphaf í ferðageiranum.

Þetta er vonandi alveg að koma.