Pistlar

Aflafréttir: Veiðin í september treg miðað við síðustu ár
Garpur RE. Mynd: Aflafréttir
Miðvikudagur 23. september 2020 kl. 15:05

Aflafréttir: Veiðin í september treg miðað við síðustu ár

Þegar þessi pistill er skrifaður þá er mikill og þykkur éljabakki að ganga yfir Njarðvíkursvæðið þar sem ég bý, minnir mann á það að veturinn er að koma með öllum sínun kostum og göllum.

Þetta haust byrjar frekar svona, hvað skal segja, óvenjulega því undanfarna septembermánuði hefur línubátafloti okkar Suðurnesjamanna verið á veiðum við norður- og austurlandið, landað þar og hefur veiðin verið almennt góð. Núna ber reyndar svo við að veiði línubátanna er mjög treg miðað við síðustu ár og sem dæmi má nefna að enginn þeirra báta sem eru undir 21 brúttótonni að stærð hefur náð yfir tíu tonnum í einni löndun í september sem er mjög óvenjulegt. Sömuleiðis hefur veiðin hjá stóru línubátunum ekkert verið neitt sérstök. Þó komst Sighvatur GK í 121 tonn í einni löndun, sá túr var reyndar veiddur í ágúst en landaður snemma í september.

Annað sem er öðruvísi er að línubátarnir eru orðnir færri því Þorbjörn ehf. í Grindavík fækkaði línubátum sínum um einn þegar stærsta línubát þeirra, Sturlu GK, var lagt og trollbáturinn Sturla GK kom í staðinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Trollbáturinn Sturla GK hefur verið að landa í heimahöfn sinni og hefur landað þar um 180 tonnum, þetta er líka öðruvísi, því gríðarlega miklu magni af fiski hefur verið ekið til Grindvíkur af línubátunum og þetta því ansi gott að báturinn sé að landa í heimahöfn sinni.

En er þá enginn línubátur að róa frá Suðurnesjum?

Stutta svarið er NEI! Það er nefnilega enginn bátur að róa, þó það gæti breyst um það leyti sem blaðið kemur út. Sá sem þetta skrifar veit um nokkra báta sem eru klárir en vil þóekki nafngreina þá fyrr en staðfest er að þeir fari á sjóinn – en það styttist í það.

Fyrst við erum að tala um trollbát þá má nefna að hinn trollbáturinn, Pálína Þórunn GK, sem að Nesfiskur gerir út hefur landað um 150 tonnum og byrjaði á að landa í Sandgerði en hefur landað síðan tvisvar á Ísafirði. Það er nú ansi langur akstur að aka fisknum alla leið frá Ísafirði til Garðs, tala nú ekki um þegar að heiðarnar verða hálar og með snjó á sér. Þá veltir maður því fyrir sér hvort það borgi sig ekki frekar að láta bátanna landa í heimahöfn.

Förum frá þessu landsbyggðardæmi yfir í dragnótabátanna en þeir hafa verið að veiða mjög vel núna í september. Sigurfari GK er næstaflahæsti báturinn á landinu og hefur landað 152 tonnum í ellefu löndunum og mest 20 tonnum í einni löndun, Benni Sæm er þar á eftir með 149 tonn í ellefu og þar af 42 tonn í einni en það er fullfermi hjá bátnum og vel það, Siggi Bjarna GK er með 114 tonn í ellefu og Maggý VE 88 tonn í ellefu. Allir hafa landað  í Sandgerði. Þar hefur eini báturinn á Íslandi sem er að stunda skötuselsveiðar í net líka verið að landa. Sá bátur heitir Garpur RE og hefur hann landað 1,4 tonni í fjórum róðrum.

Heimsfrægur bátur

Þessi fallegi appelsínuguli bátur er orðinn heimsfrægur því hann spilar ansi stórt hlutverk í bíómyndinni The Story of Fire Saga sem fjallar um Ísland í Eurovison og þar varð lagið Húsavik My Hometown heimsfrægt. Will Ferrel gerir myndina og hann leikur Lars sem á sér þann draum að keppa í Eurovision. Faðir hans  hefur enga trú á honum, hann er sjómaður og gerir út bát og sá bátur er báturinn Garpur RE. Báturinn var sérstaklega leigður í þetta verkefni sem skilaði ansi góðum tekjum fyrir eiganda hans – og já þessi mynd er á Netflix.