Pistlar

Aflafréttir: Veiði og veðurfar hefur verið nokkuð gott
Föstudagur 23. október 2020 kl. 07:25

Aflafréttir: Veiði og veðurfar hefur verið nokkuð gott

Tíminn líður áfram og október orðinn hálfnaður en hefur samt verið nokkuð góður, bæði veðurfarslega séð og aflalega séð.

Við skulum samt kíkja aðeins á frystitogaranna sem ekki oft er fjallað um hérna í þessum pistlum.  Þeir eru þrír sem eru gerðir út frá Suðurnesjum þó að einn þeirra komi aldrei til hafnar á Suðurnesjum. Sá togari heitir Baldvin Njálsson GK og er í eigu Nesfisks í Garði. Togarinn landar öllum sínum afla í Hafnarfirði og hefur gert það frá því að Nesfiskur eignaðist togarann árið 2005.Baldvin Njálsson GK hefur reyndar ekki landað neinum afla núna á þessi fiskveiðiári en þegar þessi pistill er skrifaður þá var togarinn að koma í land til Hafnarfjarðar eftir ansi langa siglingu, því að togarinn var við veiðar út af Austurlandi og sigldi þaðan alla leið til Hafnarfjarðar, sú sigling tekur um 40 klukkutíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hinir tveir togararnir eru gerðir út frá Grindavík. Hrafn Sveinbjarnarson GK kom með 524 tonn núna í október og af þeim afla var 491 tonn af karfa, restin var eiginlega bland í poka því að alls var togarinn með fjórtán fisktegundir um borð.

Þriðji togarinn er Tómas Þorvaldsson GK en hann hefur engum afla landað í október, síðast landaði togarinn í september og var þá með um 760 tonna afla. Togarinn er við veiðar djúpt úti af Austurlandi.

Fyrst við erum farin að tala svona mikið um Austurland þá eru nokkrir bátar frá Suðurnesjum sem eru að róa og veiða þar. Þeir landa afla sínum þar sem síðan er eins og vanalega ekið suður til vinnslu. Þarna eru t.d. Páll Jónsson GK sem er með 205 tonn í tveimur, Gísli Súrsson GK með 94 tonn í ellefu, Vésteinn GK með 91 tonn í ellefur, Daðey GK 85 tonn í tólf, Margrét GK 69 tonn í fjórtán og Dódi GK með 22 tonn í tíu. Mjög mismunandi er hvar bátarnir landa afla sínum en það eru þó aðallega þrjár hafnir sem bátarnir landa oftast á, eru það Neskaupstaður, Djúpivogur og Stöðvarfjörður.

Ef við færum okkur frá Austurlandi og drögum okkur nær Suðurlandinu þá rekumst við á netabátana hans Hólmsgríms sem eru á ufsaveiðum við Suðurlandið. Þeir hafa verið á veiðum núna utan við Vík í Mýrdal og austur að Hjörleifshöfða. Veiðarnar ganga vel hjá bátunum og hefur Grímsnes GK landað 120 tonnum í aðeins sex róðrum, Langanes GK er með 88 tonn líka í sex róðrum og mest 27,4 tonn.

Áfram höldum við áfram suður og nálgust næst Grindavík en ekki margir bátar eru að róa frá Grindavík til veiða, þó hefur Hraunsvík GK verið á netum þaðan. Báturinn hefur reyndar ekki landað þar í rúma viku. Einnig hafa þrír handfærabátar verið þar á veiðum, Grindjáni GK sem er með 2,1 tonn í þremur, Þórdís GK með 1,9 tonn í fjórum, Sæfari GK með 1,6 tonn og Sigurvon RE sem hefur gengið hvað best á færunum, hefur landað 5,3 tonnum í fjórum.

Næst er það Sandgerði en þar hefur veiði bátanna verið nokkuð góð og eru nokkuð margir bátar þaðan á veiðum, færa-, neta-, dragnótaveiðum og á línu, en í síðasta pistli var talað um að línubátarnir væru orðnir þrír þaðan og spurt var hver kæmi fyrstur að norðan og austan – og frá því síðasti pistill var skrifaður þá hafa tveir bátar komið til Sandgerðis sem munu fara að róa þaðan á línu. Guðrún GK kom frá Austurlandi og Guðrún Petrína GK kom frá Skagaströnd. 

Veiði línubátanna þaðan hefur verið ágæt. Alli GK með 7,5 tonn í þremur, en hann rær með 22 bala, Katrín GK tólf tonn í fjórum og Gulltoppur GK 19,5 tonn í fjórum en það má geta þess að Gulltoppur GK átti ansi góðan róður núna síðast þegar að báturinn landaði 7,1 tonni í einni löndun sem fékkst á 36 bala, það gerir um 197 kíló á bala sem er virkilega góður afli. 

Nokkuð margir netabátar eru á veiðum og þeim er að fjölga eitthvað en nánar verður farið í netabátanna í næsta pistli.