Mannlíf

„Gefandi og skemmtilegt“ - Suðurnesjafólk í hjólahringferð um Ísland
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 9. júlí 2020 kl. 10:05

„Gefandi og skemmtilegt“ - Suðurnesjafólk í hjólahringferð um Ísland

Hjóla hringinn í kringum Ísland til styrktar krabbameinssjúkum börnum

„Það er búið að vera mjög gaman og krefjandi að vera í þessum hóp en jafnfram svo ánægjulegt og gefandi að geta styrkt krabbameinsveik börn,“ segir Edda Ottósdóttir en hún og Haraldur Hreggviðsson, maður hennar eru í hlaupahópnum Team Rynkeby sem nú hjólar hringinn um landið til styrktar Félagi krabbameinsveikra barna.

„Halli er að hjóla en ég ásamt öðrum sjáum um að þjónusta hjólakappana, gefa þeim að borða og svona. Við erum um fjörutíu manns í heildina, 29 hjólarar og 11 í þjónustunni. Við höfum alls staðar fengið frábærar mótttökur og einnig lögreglufylgd í bæina þar sem við höfum komið. Það hefur verið sérlega skemmtilegt og vakið athygli þegar 29 hjólagarpar klæddir gulu koma inn í bæjarfélagið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við erum væntanleg til Reykjavíkur á laugardagskvöld og það verður eitthvað þegar þessu lýkur,“ sagði Edda.

Lagt var af stað frá Barnaspítala Hringsins 4. júlí en hópurinn mun hjóla um 850 km. í kringum landið til 11. júlí. Team Rynke­by er stærsta evr­ópska góðgerðar­verk­efnið, þar sem þátt­tak­end­ur hjóla á hverju ári 1.200 km leið frá Dan­mörku til Par­ís­ar til styrkt­ar lang­veik­um börn­um og fjöl­skyld­um þeirra.

Hópurinn Team Rynke­by Ísland var stofnaður árið 2017 með það að mark­miði að hjóla í söfn­un­ar­átaki Team Rynkby til styrkt­ar SKB. Á síðastliðnu ári söfnuðust 23,6 millj­ón­ir kr.

Alls söfnuðu öll Team Rynke­by-liðin um 1,5 millj­örðum kr. í fyrra. Unnt er að heita 1.500 krón­um á Team Rynke­by með því að hringja í styrkt­ar­núm­erið 907-1601, 3.000 kr. með því að hringja í 907-1602 og 5.000 kr. í núm­erið 907-1603.

Edda sendi VF nokkrar myndir úr ferðinni.