Mannlíf

„Blóm gera kraftaverk“
Föstudagur 17. september 2021 kl. 08:09

„Blóm gera kraftaverk“

-segir Vilborg Einarsdóttir sem hefur flutt Blómaskúr Villu að Hafnargötu 54

Vilborg Einarsdóttir hefur haft áhuga á blómum í mörg ár og hafði unnið hjá blómaverslunum í Reykjanesbæ þegar hún ákvað að verða sinn eigin herra, ef svo má að orði komast, og opna sitt eigið fyrirtæki með blóm. Hún byrjaði í bílskúrnum heima og þaðan kemur nafnið, Blómaskúr Villu.

Vilborg, eða Villa, er mjög klár í blómaskreytingum og hefur verið að gera hluti sem eru öðruvísi en hjá öðrum blómabúðum. Það hefur vakið athygli á hennar verkum en hún hefur hlotið lof fyrir útfarar- og brúðarskreytingar, svo eitthvað sé nefnt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Villu þótti kominn tími á að flytja starfsemi Blómaskúrs Villu í verslunarrými við Hafnargötuna til að koma einhverri reglu á opnunartímann, því þegar hún var með reksturinn heima í bílskúrnum þá voru viðskiptavinir að koma á öllum tímum sólarhringsins og ef Villa var vakandi, þá var hún að afgreiða blóm.

„Eina nóttina, skömmu eftir miðnætti, hringdi síminn hjá mér og á hinum enda línunnar var karlmaður sem spurði hvort ég væri ekki að selja blómvendi. Ég svaraði því játandi. Hann sagðist hafa átt í útistöðum við konuna sína og vildi kaupa fallegan blómvönd til að biðjast afsökunar á framferði sínu. Ég sagði honum að fyrst ég væri vakandi þá gæti ég alveg afgreitt hann um blómvönd. Þessi herramaður kom í Blómaskúrinn með leigubíl og ók á brott með fallega vönd. Ég veit í dag að blóm gera kraftaverk, því konan tók við blómunum og þau sættust,“ segir Villa þegar hún lýsir því hvernig er að reka blómabúð í heimahúsi.

Villa er rétt að koma sér fyrir með blómabúðina sína að Hafnargötu 54 í Keflavík. Opnunartíminn er í mótun en Villa gerir ráð fyrir að hafa opið alla virka daga og á laugardögum. Föstudagar og laugardagar eru stærstu blómasöludagar vikunnar. Allir dagar eru samt blómadagar því í Blómaskúr Villu er hægt að fá þjónustu eins og að pakka inn tækifærisgjöfum sem eru þá ­fallega skreyttar með blómum. Villa er einnig mikið í útfaraskreytingum og þá tekur hún að sér verkefni fyrir ýmis tilefni, hvort sem það er fyrir brúðkaup, afmæli eða minni verkefni. Þessa dagana er t.a.m. mikið að gera í kransagerð og senn mæta haustlitirnir.

Blómaskúr Villu hefur verið þekktur fyrir margskonar öðruvísi blóm. Þannig er Villa að selja blóm og strá frá Afríku sem hafa vakið athygli. Þá er í versluninni einnig til sölu gjafavara og myndlist.

Nánari upplýsingar um Blómaskúr Villu má finna á villaeinars.is eða Blómaskúr Villu á Facebook, þar sem sjá má myndir af fallegum verkefnum Vilborgar.