Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

VF 40 ára: Voru mannleg mistök orsök tjónanna?
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 25. janúar 2020 kl. 07:58

VF 40 ára: Voru mannleg mistök orsök tjónanna?

Stór hluti vertíðarflota Sandgerðinga skemmdur og hús urðu umflotin sjó í Höfnum í miklu óveðri sem skall á í janúar 1984. Þá voru aðvaranir ekki teknar eins gildar og nú er miðað við frásögn í Víkurfréttum 12. janúar.

Frétt úr Víkurfréttum fimmtudaginn 12. janúar 1984

Það tjón sem varð á Suðurnesjum í óveðrinu á dögunum, flokkast að mestu undir mannleg mistök, þó furðulegt sé. Er aðalástæðan sú að þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um veðurlag og sjávargang virðist fólk ekki hafa tekið þær til greina og því fór sem fór. Koma hefði mátt fyrir mestan hluta tjónsins í Sandgerði ef menn hefðu verið á vakt í skipum sínum, eða betur hefði verið frá þeim gengið. Ef sjóvarnargörðunum í Höfnum hefði verið haldið við eins og vera ber, hefði tjón af völdum sjávargangs án efa orðið mun minna. Svona má telja áfram.

Fyrri óveðursdaginn lokaðist Reykjanesbrautin vegna þess að tveir gámabílar frá Eimskip voru á leið inn eftir. Stöðvaði annar bílstjórinn bíl sinn, en hinn hélt áfram þar til hann lenti þversum á brautinni og lokaði henni þar með. Tók góða stund að opna brautina á ný, því erfiðlega gekk að lagfæra bílinn.

Þrátt fyrir mikið óveður víða um land fyrri daginn er ekki hægt að tala um óveður hér um slóðir, að vísu komu annað slagið snarpar vindhviður og í einni fauk hluti af þaki á Gluggaverksmiðjunni Ramma í Njarðvík, en þar var nýbúið að skipta um járn og var ekki búið að ganga alveg frá því. Að öðru leyti urðum við ekki vör við óveðrið nema varðandi samgöngutruflannir þær sem áður er sagt frá á Reykjanesbraut svo og hins að rafmagnið fór af í rúmar 5 klukkustundir.

Síðari daginn var það sjávargangurinn í Sandgerði, Höfnum og Grindavík sem minnti okkur óþyrmilega á veðrið, en trúlega eru 5 litlir þilfarsbátar frá 8 og upp í 14 tonn mikið skemmdir ef ekki ónýtir og fjöldinn allur af öðrum bátum varð fyrir tjóni, sem þó varð mest á Sjávarborginni, en hún hefur eins og kunnugt er legið ónotuð í Sandgerðishöfn um tíma og beðið eftir loðnuveiðileyfi sem hún hafði loks fengið er óhappið varð.

Í Höfnum flæddi sjór upp að 7 húsum, þar af voru 2 fiskverkunarhús og spennistöð staðarins og stóð sjávargangur að þessum húsum á þriðja tíma, en tjón varð ekki teljandi, nema hvað rafmagn hefur sennilega skemmst í tveimur húsum og þá grófst undan sökkli hússins. epj./pket.

Í blaðinu  árið 1984 voru viðtöl við tvo sjómenn í Sandgerði sem urðu vitni að óhöppunum. Þar fóru níu litlir þilfarsbátar og þrír stórir upp í fjöru og tveir bílar fóru í höfnina, vörubíll með einum skipstjóranum og lítill bíll sem fauk út í og kramdist milli skips og bryggju áður en hann sökk undir bátinn. Víkurfréttir frá þessum tíma má nálgast á Timarit.is.

Sjórinn tók vörubílinn hins vegar eins og eldspýtustokk og henti honum út í sjó.

„Svavar Ingibersson fór á vörubíl niður á bryggju í veðrinu þar sem koma átti böndum á bátana og hugmyndin var að draga þá frá grjótinu með vörubílnum. Sjórinn tók vörubílinn hins vegar eins og eldspýtustokk og henti honum út í sjó. Það bjargaði Svavari, sem fór niður með bílnum, að það var maður á bryggjunni sem náði honum strax þegar hann kom út úr bílnum. Var hann orðinn þrekaður en hafði þó meðvitund og var strax fluttur á sjúkrahús,“ segir í fréttinni frá því í janúar 1984.

„Leist ekki á blikuna“

„Já ég man vel eftir þessu óveðri, því björgunarsveitin Sigurvon var kölluð út um klukkan sjö að morgni og sagt að það væri mikið óveður og mikið um að vera í Sandgerðishöfn. Margir bátar voru slitnir frá bryggju og komnir upp í grjótgarðinn við ljósvitann,“ segir Sandgerðingurinn Reynir Sveinsson þegar hann var beðinn um að rifja upp atburðinn í ársbyrjun 1984.

„Ég var á jeppa og fór beint út að suðurbryggju og stoppaði við bátabrautina. Þá var Sjávarborgin komin upp í grjótgarðinn. Svo varð mér litið út um vinstri gluggann á bílnum og sé að það kemur mjög stór alda landmegin og fer yfir veginn þar sem ég var staðsettur. Mér leist ekki á blikuna þegar sjórinn gusaðist á bílinn minn sem stóð þetta af sér en aldan fór yfir bílinn og inn í höfnina. Það var heilmikið starf að koma bátunum upp á land sem margir hverjir voru mikið skemmdir og sumir ónýtir eftir veðurofsann.“

Þessar gömlu myndir úr safni Reynis Sveinssonar sýna vel hvernig aðstæður voru við Sandgerðishöfn áður en sjóvarnagarðar voru settir upp við norðurgarðinn. Hér koma fyllurnar yfir hafnargarðinn.

„Það tjón sem varð á Suðurnesjum í óveðrinu á dögunum, flokkast að mestu undir mannleg mistök, þó furðulegt sé. Er aðalástæðan sú að þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um veðurlag og sjávargang virðist fólk ekki hafa tekið þær til greina og því fór sem fór,“ sagði í frétt Víkurfrétta 1984.

Frá flóðasvæðunum í Höfnum.

Samtímasaga Suðurnesja
í fjóra áratugi

Á þessu ári fögnum við þeim tímamótum að Víkurfréttir hafa komið út í 40 ár. Frá fyrsta tölublaði Víkurfrétta sem kom út 14. ágúst 1980 hafa komið út nærri 1900 tölublöð, síðurnar yfir 20.000 og fréttirnar næstum óteljandi. Til að fagna afmæli Víkurfrétta á þessu ári ætlum við reglulega að glugga í gömul blöð og rifja upp fréttir, sýna ykkur gamlar myndir og jafnvel að heyra í fólki og taka stöðuna eins og hún er í dag. Í þessari viku skoðum við frétt af óveðri sem gerði þann 5. janúar 1984 þegar stórtjón varð, m.a. í höfninni í Sandgerði þar sem margir bátar skemmdust og munaði minnstu að yrði manntjón.