Blue Car rental
Blue Car rental

Mannlíf

Vann sig upp úr skurðinum
Ellert eftir að hafa fengið viðurkenningu fyrir að vera kjörinn fyrstu heiðursborgari Reykjanesbæjar með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra 2002 til 2014 og Kjartani Má Kjartanssyni sem gengt hefur starfinu frá árinu 2014.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 26. september 2019 kl. 07:16

Vann sig upp úr skurðinum

Nafnamálið varð stórmál en við lofuðum að finna nýtt nafn á sveitarfélagið

Ellert Eiríksson er fyrrum bæjarstjóri Keflavíkur og fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar sem varð til við sameiningu árið 1994. Það má segja að Ellert hafi unnið sig upp úr skurðinum því hann vann fyrst sem verkamaður hjá Keflavíkurkaupstað, síðar varð hann bæjarverkstjóri Keflavíkur og loks bæjarstjóri. Ellert kláraði gagnfræðapróf og fór svo að vinna. Það voru því ekki háskólagráður sem færðu honum völd í pólítík heldur dugnaður hans, elja og kraftur svo eftir var tekið af mönnum sem vildu fá hann í stól bæjarstjórans árið 1990. Ellert Eiríksson var bæjarstjóri til ársins 2002 en þá ákvað hann sjálfur að víkja til hliðar og hætta pólitískum afskiptum. Við tókum hús á fyrrum bæjarstjóranum og inntum hann frétta í tilefni af 25 ára afmæli Reykjanesbæjar.

Bjó í bragga með móður sinni

Ellert fæddist 1. maí árið 1938 og ólst upp til þriggja ára aldurs á Járngerðarstöðum í Grindavík en þá flutti hann ásamt móður sinni, Hansínu Kristjánsdóttur, þá nýorðin ekkja, til Keflavíkur. Hansína réði sig í  Gerðarbraggann eftir að eiginmaður hennar, Eiríkur Tómasson, lést en hann var útvegsbóndi.

„Við mamma fluttum til Keflavíkur eftir að faðir minn lést. Pabbi var sjómaður en sinnti einnig landbúnaði. Ég var þriggja ára þegar við komum til Keflavíkur og bjuggum fyrst á Vatnsnesi, í svokölluðum Gerðarbragga niður við sjó en þar réði móðir mín sig sem ráðskonu ásamt annarri konu en þær sáu um að gefa sjómönnum, sem bjuggu í bragganum, að borða og þvoðu einnig af þeim. Þarna bjuggum við ásamt sjómönnunum. Það var seinna stríð og ég pottormurinn var oft niðri á bryggju að tala við ameríska hermenn sem voru á vakt en þeir gættu hafnarmannvirkjanna í Keflavík. Þeir voru með vaktskýli við höfnina og ég var orðinn svona fjögurra fimm ára þegar þeir voru að gauka að mér sælgæti. Þetta var auðvitað mjög framandi fyrir lítinn dreng. Þetta voru vinir mínir,“ segir Ellert og maður getur rétt ímyndað sér hvernig það hefur verið fyrir lítinn dreng, og aðra Íslendinga sem voru rétt að skríða út úr moldarkofunum, að sjá þessa hermenn og varninginn sem þeir komu með til landsins. Sælgætið lokkaði mörg börnin.

Vann fyrst sem hafnarverkamaður

Á þeim tíma sem móðir Ellerts varð ekkja þá voru engar tryggingar sem fólk gat treyst á, samfélagið var allt annað.

„Móðir mín ákvað að flytja til Keflavíkur til þess að hafa eitthvað að borða handa okkur en þá var meiri von til þess að afla sér lífsviðurværis hér í bæ. Hún kynntist seinna Guðna málara en hann var að mála braggana sem við bjuggum í og af einhverjum ástæðum gleymdi hann penslunum einn daginn. Móðir mín kynntist þarna Guðna Magnússyni og við fluttum heim til hans á Suðurgötu 35 þegar ég var sjö ára gamall. Guðni var ekkill og bjó með sonum sínum þeim Birgi og Vigni. Seinna eignuðust þau þrjú börn saman, þau Eirík, Steinunni og Árnheiði,“ segir Ellert um leið og hann rifjar upp stemninguna í bænum á þessum árum.

„Eftir gagnfræðapróf fór ég að vinna sem hafnarverkamaður. Það var mikil uppskipun í Keflavík og maður fór niður á bryggju og fékk vinnu en þá var herinn að senda vörur til uppbyggingar á Vellinum. Eitt sumarið vann ég við uppskipun á sementi en þá komu 3600 tonn í hverri viku að utan en þetta sement fór í að steypa flugbrautirnar uppi á Velli. Þá voru margir sem unnu við uppskipun í Keflavík því þetta starf var vel borgað og unnið frá átta á morgnana til ellefu á kvöldin. Herinn var aldeilis að skapa vinnu hérna. Fólk kom hingað atvinnulaust frá Ólafsfirði, Siglufirði og fleiri stöðum en þá stjórnaði ríkisstjórnin þessu og menn máttu fara í verið hjá Varnarliðinu. Eftir seinni heimsstyrjöldina var ráðstjórn, nefndir sem stjórnuðu  og úthlutuðu leyfum fyrir öllu milli himins og jarðar. Það voru höft á öllu. Það var til dæmis jeppanefnd sem sá um að úthluta leyfum til bænda til jeppakaupa áður en þeir gáfu innflutning á bílum frjálsan. Þetta voru allt aðrir tímar en núna.“Á sjó 16 ára og dreymdi um langt sumarfrí

Af bryggjunni fór Ellert í skip og sigldi burt frá Keflavík en kom aftur og gerðist barþjónn í Fríhöfninni og endaði síðan sem verkamaður hjá Keflavíkurbæ.

„Ég var að vinna við uppskipun sextán ára gamall á bryggjunni einn daginn um hádegið, þegar komið var að máli við mig og mér boðið að verða messagutti ef ég kæmist á sjó klukkan fimm sama dag. Ég hljóp heim og tilkynnti móður minni að ég væri farinn á sjó, svo hún útbjó mig í snatri og ég sigldi burt með skipinu. Þetta var góð reynsla. Þá var mér boðið starf sem barþjónn í tvö ár í Fríhöfninni í gömlu flugstöðinni. Seinna fór ég svo aftur að vinna sem verkamaður hjá bænum við að grafa skurði fyrir nýtt íbúðahverfi í Keflavík. Með tíð og tíma vann ég mig upp í stöðu verkstjóra hjá Keflavíkurkaupstað. Ég vann í átján ár við verkamannstörf hjá bænum. Ég var farinn að puða í pólítík á þessum tíma og það voru þó nokkrir búnir að bjóða mér sveitastjórastöður en ég vildi verða alþingismaður því mig dreymdi um langt sumarfrí,“ segir Ellert og hlær.

„Ég tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og lenti sem varaþingmaður Matthíasar Á. Mathiesen og varð svo heppin að fá að prófa að starfa á þingi þegar hann forfallaðist. Þessi reynsla læknaði mig og ég sá að þingmennska höfðaði ekki lengur til mín. Árið 1982 varð ég sveitarstjóri í Gerðahreppi og það átti miklu betur við mig.“

Bæjarstjóri Keflavíkur

Árið 1991 kom ný ríkissstjórn til valda og hófst þá undirbúningur að sameiningu sveitarfélaga á landsbyggðinni. Landsmenn tóku ekki mjög vel í þennan áróður stjórnvalda en svo virðist sem Keflvíkingar, Njarðvíkingar og Hafnamenn hafi verið opnari fyrir þessum breytingum en aðrir, þar sem þetta urðu fyrstu sveitarfélögin sem gengu þetta sameiningarskref til fulls.

Ellert var sveitarstjóri í Gerðahreppi frá árinu 1982 til 1990 en þá tók hann við bæjarstjórastöðu í Keflavík. Sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna í Reykjanesbæ árið 1994 var stórt skref.

„Ég tók við starfi bæjarstjóra árið 1990 og þá var allt miklu minna en nú og nándin meiri við íbúa og starfsmenn. Íbúar voru aðeins í kringum sjö þúsund en við sameininguna 1994 urðu þeir um tíu þúsund. Í starfi bæjarstjóra fannst mér ekkert vera eitt verkefni sem ég ætti að skila af mér. Ég vildi vinna að hag bæjarbúa og nýta sjóði bæjarfélagsins á sem bestan máta. Menn voru ekki alltaf sammála um leiðir eins og gengur. Það sló í brýnu en það leystist. Það voru margir nýir sem komu inn og aðrir sem hættu á þessum árum. Það voru ákveðin tímamót og í fyrstu vorum við ekki mikið að hugsa um sameiningarmál. Ég var settur í sameiningarnefnd Jóhönnu Sigurðardóttur sem vann að því að fækka sveitarfélögum úr 211 talsins sem í dag eru í kringum 70. Ég ferðaðist um landið í þeim tilgangi að kynna þær fyrirætlanir. Þær féllu víðast hvar illa í heimamenn. Það var alltaf verið að tala um að sameina Keflavík og Njarðvík og haustið 1993 komu fyrirmæli frá löggjafa að öll sveitarfélög á Reykjanesskaga skyldu sameinast. Þetta var fellt í Grindavík, Garði, Sandgerði og Vogum en við sem stóðum eftir og samþykktum voru Keflavík, Njarðvík og Hafnir. Þegar þessi niðurstaða varð ljós þá var ákveðið að fara í aðra umferð og niðurstaðan var jákvæð um sameiningu, Reykjanesbær varð til. Í kjölfarið fluttu bæjarskrifstofurnar í Ráðhúsið við Tjarnargötu,“ segir Ellert sem bendir þó á að þótt sameining hafi gengið greiðlega þá varð nafnamálið miklu erfiðara viðfangs.

„Nafnamálið varð stórmál en við lofuðum að finna nýtt nafn á sveitarfélagið fyrir þessar kosningar um sameiningu. Það varð eiginlega allt vitlaust þegar verið var að velja nafn. Reykjanesbær varð svo samþykkt að lokum. Ég held að eitt stærsta málið sem ég kom að á ferli mínum sem bæjarstjóri og sveitarstjórnarmaður hafi verið sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna í sveitarfélagið Reykjanesbæ sem var góð ákvörðun og hefur margsannað sig,“ segir Ellert.

Engin lognmolla í tíð Ellerts

Í stjórnartíð Ellerts og félaga var farið í miklar framkvæmdir í bæjarfélaginu. Langflestar götur voru malbikaðar sem ekki var vanþörf á en þetta var gert með malbikunarvélum sem bærinn fjárfesti í. Reykjaneshöllin var opnuð árið 2000, var fyrsta knattspyrnuhús landsins og vakti mikla athygli. Skólarnir fóru undir stjórn sveitarfélaga og farið var í einsetningu. Árið 1996 var rekstur grunnskóla færður frá ríki til sveitarfélaga og bera því nú sveitarstjórnir ábyrgð á öllum rekstri grunnskóla, þar með talið byggingu, rekstri og viðhaldi mannvirkja og fer skólanefnd með málefni þeirra í hverju sveitarfélagi. Ekki voru allir kennarar á einu máli um ágæti samningsins á sínum tíma.

„Eitt af stóru málunum var auðvitað einnig þegar rekstur grunnskóla fór undir sveitastjórnir og einsetning skólanna. Fjárhagurinn slapp fyrir horn en það voru ýmis vandamál. Við fórum í að byggja Heiðarskóla á þessum árum og endurbyggðum í skólum bæjarins. Húsnæði Myllubakkaskóla, Njarðvíkurskóla og Holtaskóla var stækkað vegna einsetningar og bættrar vinnuaðstöðu kennara. Tónlistarnám tengdist betur við grunnskólann. Við létum reisa Reykjaneshöll. Auðvitað komu upp ýmis ágreiningsmál á þessum árum vegna skólamála. Við bættum vinnuaðstöðu kennara svo þeir þyrftu ekki að fara heim með verkefnin en hugmyndir voru um samfelldan vinnudag þeirra frá klukkan 8 til 16. Þessar hugmyndir féllu í frekar grýttan jarðveg hjá kennarastéttinni. Á þessum tíma sagði ein daman við mig að ég væri kennarafjandsamlegur maður,“ segir Ellert kankvís þegar hann rifjar upp þessa tíma enda maðurinn nú kominn í friðarstól, víðsfjarri öllu pólítísku þvargi.

„Eitt af stærri hlutverkum mínum sem bæjarstjóri voru samskiptin við Varnarliðið sem var stærsti atvinnuveitandi svæðisins á þeim tíma og skapaði miklar tekjur. Annars var margt skemmtilegt sem fæddist á þessum árum. Ljósanótt er dæmi um það en Steinþór Jónsson kom með hugmynd inn á borð til mín um að lýsa Bergið og ég var efins í fyrstu en sannfæringarkraftur hans og áhugi kveikti í mér og fleirum. Svo vissum við ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar Ljósanótt var haldin í fyrsta sinn við árþúsunda skiptin árið 2000 þegar tíu þúsund manns heimsóttu bæinn okkar en við áttum von á tvö til þrjú þúsund manns,“ segir Ellert.

Bæjarstjóri án háskólagráðu

Ellert Eiríksson var ráðinn bæjarstjóri á þeim árum þegar háskólagráðu þurfti ekki til þess að stjórna heilu bæjarfélagi en í dag er yfirleitt ætlast til þess að fólk hafi próf í stjórnunarfræðum.

„Ég er ekki með háskólapróf í neinu en pungapróf í mörgu. JC hreyfingin kenndi mér margt í stjórnun á sínum tíma, það var góður skóli, Gaggó dugði líka vel. Í dag er ég orðin 81 árs og sé enga ástæðu til þess að sækjast eftir nýju starfi, er mjög sáttur. Það var gaman að fá að taka þátt í uppbyggingu bæjarfélagsins. Ég átti fína samverkamenn, hvort sem þeir voru samflokksmenn mínir eða ekki. Eitt aðalmarkmið mitt sem bæjarstjóri var að vera bæjarstjóri allra bæjarbúa og leiðtogi allra bæjarstarfsmanna. Eftir tólf ár sem bæjarstjóri tók ég ákvörðun um að hætta. Ég var búinn að lesa rannsóknir um hæfilega lengd í leiðtogasæti. Fyrstu fjögur árin eru menn fullir af eldmóði og eru að læra fullt af nýjum hlutum. Þá stefnirðu upp á við. Næstu átta árin er ekki eins bratt upp á við en þá ertu að laga hlutina til. Eftir átta ár og næstu fjögur þá siglirðu svona lygnan sjó og ert vonandi að uppskera. Næstu 12 til 16 ár er frumkvæði í mönnum ekki eins mikið. Ég hafði þetta sem viðmið og ákvað að hætta eftir tólf ár. Nú er ég búinn að tína af mér öll nefndarstörfin, allt nema Miðstuð símenntunar á Suðurnesjum, MSS, það er síðasti bitinn. Við hjónin erum brottfluttir Keflvíkingar eins og svo margir hér, ég og kona mín, Guðbjörg Ágústa Sigurðardóttir, búum í Innri-Njarðvíkurhverfi Reykjanesbæjar með hana Perlu hundinn okkar. Hér höfum við komið okkur vel fyrir. Allir afkomendur okkar eru komnir í eigið húsnæði. Hún Perla fer með mig út að ganga á hverjum degi nema þegar það er slagveður, rok og rigning en þá fer ég á göngubrettið sem konan mín á heiðurinn af að hafa gefið mér þegar ég varð sjötíu ára,“ segir Ellert glaður í bragði.

Ellert með félögum sínum í fyrstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Ellert á tali vð Vilhjálm Ketilsson sem var bæjarstjóri í Keflavík 1986-1988. Á milli þeirra eru Tómas Tómasson, forseti bæjarstjórnar til margra ára og Jón Ásgeirsson sem var sveitarstjóri í tvo áratugi í Njarðvík.

Ellert með konu sinni, Guðbjörgu Sigurðardóttur, á 25 ára afmælisfundi Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Þessi mynd er frá árum Ellerts hjá Keflavíkurbæ.

Ellert skrifar undir pappíra í flugstöðinni. Honum til hliðar eru Halldór Ásgrímsson, þáverandi ráðherra og Pétur Jóhannsson, hafnarstjóri t.v.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs