Nettó
Nettó

Mannlíf

Tólf tungumál eru töluð í heilsuleikskólanum Skógarási
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar, og Þóra Sigrún Hjaltadóttir, leikskólastjóri. Á bak við þær eru fulltrúar bæjarins og starfsmenn skólans.
Föstudagur 21. september 2018 kl. 06:00

Tólf tungumál eru töluð í heilsuleikskólanum Skógarási

Flutningur í nýtt og glæsilegt húsnæði gekk hratt og vel

Heilsuleikskólinn Skógarás á Ásbrú í Reykjanesbæ opnaði nýlega og var því fagnað formlega í sl. viku. Hann hét áður heilsuleikskólinn Háaleiti en nú er hann kominn í nýtt glæsilegt 933 fermetra húsnæði og eru 545 af því leikrými. Framkvæmdir tóku um það bil ár og kostuðu rúmlega 300 milljónir króna.

Flutningur skólans fór fram í sumar en gamla staðnum var lokað 3. júlí en starfsemi hófst á nýjan staðnum, við Skógarás 932 um miðjan ágúst. Hluti hans er eldra húsnæði sem Reykjanesbær fékk að gjöf frá leigufélögunum Heimavöllum og Ásbrú íbúðum á Ásbrú en nýi partur skólans er úr gámaeiningum sem hafa reynst vel t.d. í Stapaskóla í Innri-Njarðvík. Þóra Sigrún Hjaltadóttir, leikskólastjóri, segir að þrátt fyrir að nýi skólinn sé um 100m2 minni þá nýtist plássið betur og allir starfsmenn eru mjög ánægðir með hvernig til tókst. Á Skógarási eru um 70 börn en gert er ráð fyrir því að þau verði um 80 um áramótin. Fjórar deildir eru í skólanum og fengu þær allar heiti eftir fuglum en hugmyndin að nýja nafni skólans, Skógarás, kom frá foreldri en forráðamenn skólans fengu foreldra barna með sér í lið við að finna það í gegnum Facebook-síðu skólans.

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar, sagði að frábærlega hefði tekist til við byggingu skólans. „Í þessu húsnæði sem býr yfir svona mörgum góðum kostum verður sannarlega hægt að gera gott skólastarf,“ sagði Ingibjörg. Hún færði leikskólanum að gjöf handofna körfu frá Senegal í anda þess fjölmenningarstarfs sem fram fer í skólanum.

Jóhanni Friðriki Friðrikssyni, forseta bæjarstjórnar, varð tíðrætt um fjölmenningarsamfélagið sem birtist svo vel í Skógarási. „Börnin hér á Skógarási minna okkur á að við búum í fjölmenningarsamfélagi en um helmingur þeirra eru tví- eða fjöltyngd og eru því með íslensku sem annað tungumál. Íslenska, pólska, arabíska, filippíska, enska, spænska, rúmenska, afríkanska, búlgarska, þýska, slóvakíska og flæmska eru þau tólf tungumál sem börnin í Skógarási hafa að móðurmáli. Á Skógarási starfa leikskólakennarar, íþróttakennari, háskólamenntaðir starfsmenn, hjúkrunarfræðingur og starfsmenn í námi í leikskólakennarafræðum svo eitthvað sé nefnt.

Leikskólinn er þátttakandi í hinu alþjóðlega YAP-verkefni eða (Young Athletes Program) á vegum Special Olympics-samtakanna og miðar að því að efla hreyfingu fyrir börn með sérþarfir auk þess sem skólinn tekur þátt í virku vísindastarfi og má þar nefna lýðheilsu- og forvarnarverkefni sem miðar að því að nýta markvissa hreyfiörvun sem snemmtæka íhlutun til að stuðla að bættum heila- og taugaþroska barna, en eins og allir vita þá er heilsuefling fyrstu æviárin grunnur að góðu heilbrigði út æviskeiðið,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, við formlega opnun skólans.

Leikskólinn er umhverfisvottaður og hefur hlotið hinn eftirsótta Grænfána tvisvar sinnum en tekur einnig þátt í „ECO TWEET“ Erasmus-verkefninu sem miðar að því að efla umhverfisvitund með verkefnum er snúa að vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði.Leikskólinn Skógarás á Ásbrú.Fulltrúar bæjarins, skólans og Skóla ehf. sem rekur Skógarás.

Starfsmenn leikskólans fengu allir rós í tilefni opnunarinnar.

Rýmin eru mjög skemmileg og björt í Skógarási.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs