Mannlíf

Þetta á að vera gaman
Samspil er mikilvægur þáttur í tónlistarnáminu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 15. október 2021 kl. 07:33

Þetta á að vera gaman

 „Leiðarljós okkar er að ef nemandinn getur ekki lært á þann hátt sem við kennum þá verðum við að kenna á annan hátt“

Inga Þórðardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Grindavík, segir að gott bakland sé lykilatriði í þeirri þróunarvinnu sem starfsfólk skólans hefur mótað sínar kennsluaðferðir eftir til að mæta þörfum nemenda þar sem þeirra styrkur liggur. Tónlistarskólinn fékk hvatningarverðlaun Grindavíkurbæjar síðasta vor og hefur nú verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna.

Tónlistarskólinn í Grindavík hefur 94 nemendur í einkanámi á aldrinum sex til 57 ára, 241 nemendur í forskóla fá kennslu í Hópsskóla og fjórði bekkur grunnskóla kemur í hljóðfæraval í Tónlistarskólann þar sem þau hafa úr sex hljóðfærum að velja. Kennt er í þremur lotum yfir veturinn og á þeim tíma fá börnin að kynnast starfsemi skólans og þremur hljóðfærum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Tónlistarnámið er vinsælt og það er vöxtur í aðsókn,“ segir Inga þegar hún tók á móti Víkurfréttum í skólanum. „Við ætluðum að vera mjög sniðug og taka mjög marga inn núna en það lengist alltaf í biðlistunum þrátt fyrir það – en aðsóknin er líka misjöfn eftir hljóðfærum.“

Inga Þórðardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Grindavík. Að baki hennar eru viðurkenningarskjöl sem skólanum hefur hlotnast.

Kennslan fer heim með nemandanum

Þið hafið verið að gera flotta hluti hér í Tónlistarskólanum í Grindavík, hlutuð hvatningarverðlaun Grindavíkurbæjar síðasta vor og nú hefur skólinn verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna. Hvað eruð þið að gera umfram aðra skóla?

„Leiðarljósið okkar í gegnum allt starfið er að ef barn getur ekki lært það sem við kennum þá verðum við að kenna á þann hátt að barnið geti lært. Þetta er svona leiðarljósið okkar í öllu okkar starfi og við höfum alltaf á bak við eyrað.“

Tónlistarskólinn í Grindavík hefur þróað nýja nálgun í kennsluaðferð sinni og kallast hún eftirfylgniaðferðin.

„Þróun okkar við eftirfylgniaðferðina er orðin margra ára saga. Þetta byrjaði þannig að maður fór að hugsa út frá sjálfum sér, og sínu námi, hvað hefði auðveldað manni lífið eins og tæknin hefur upp á að bjóða í dag. Svo ég fór að skoða hvað við gætum gert til að hjálpa nemendunum með heimanámið.

Tónlistarskólar eru oft frekar íhaldssamir, þú ferð í þinn hljóðfæratíma og þar færðu kennsluna. Síðan áttu að æfa þig heima, þetta byggist allt á æfingunni. Það er hins vegar oft að þegar maður er kominn heim þá man maður ekki alveg hvernig maður átti að gera þetta eða hitt. Það er svolítill akkilesarhæll því svo kemur nemandinn kannski í næsta tíma og hefur ekki getað æft það sem fyrir hann var lagt af því að hann skildi ekki alveg eða er búinn að temja sér einhverja vitleysu, það er svo grátlegt. Svo við hugsuðum hvernig við gætum fylgt nemandanum heim og aðstoðað hann heima – og það gerum við með því að beita nútímatækni. Hugsaðu þér hvað Beethoven og Bach hefðu getað gert þó þeir hefðu ekki haft nema bara rafmagn og tölvu, hver yrði framleiðslan?“

Kennarar nýta sér tæknina í tímum og nemandinn hefur alltaf aðgang að kjarna kennslustundanna á sínu svæði.

„Við gerum þetta þannig að við notum spjaldtölvur við kennsluna. Í upphafi tímans er farið inn á svæði nemandans og þegar verið er að leggja áherslu á eitthvað tækniatriði eða eitthvað nýtt, bara eitthvað sem þarf að hamast á heima, þá tökum við það upp og það er svo aðgengilegt nemandanum hvenær sem er en allir nemendur hafa aðgang að sínu svæði. Það er ýtt á upptöku og útskýrt fyrir nemandanum; tækni, fingrasetning, hraði eða hvað sem er. Þetta truflar ekkert hið hefðbundna nám en þegar nemandinn er kominn heim getur hann haft myndskeiðið til hliðsjónar meðan hann æfir sig. Við tökum ekki upp allan tímann, bara þessi áherslubrot sem skipta mestu máli, kjarnann í kennslustundinni.

Þessi aðferð hefur þróast á mjög jákvæðan hátt. Þetta hjálpar nemendunum og kennarinn sér þegar þeir hafa opnað myndskeiðið heima, þannig að afsökunin: „Ég gat ekki æft heima af því að …,“ er ekki lengur til staðar. Þetta er líka brú til foreldranna og þeir verða virkari. Þegar barn byrjar í námi þá getur foreldri verið tengiliður og aðstoðað út frá því sem hann sér á skjánum. Þeir geta verið svolítið leiðandi og tekið þátt í náminu. Þeir þurfa ekki að hafa neinn bakgrunn í sjálfu sér til að geta fylgt barninu fyrstu skrefin. Svo ef það er eitthvað sem þau skilja ekki eða ná ekki þá geta þau tekið upp myndskeið. „Hvað erum við að gera vitlaust hér?,“ og svo fer myndbandið til kennarans sem getur þá útskýrt hvað sé vandamálið.“

Tímar falla síður niður

Inga segir að eftirfylgniaðferðin hafi reynst vel og margir skólar séu að horfa til þess sem þau í Tónlistarskólanum eru að gera. „Þarna fara fram samskipti, við getum haft lifandi fjarkennslu og við höfum góða reynslu af því í gegnum Covid, þegar við lentum í því að tveir kennarar fóru í sóttkví þá gátu þeir kennt að heiman. Þá falla tímar ekki niður þótt Reykjanesbrautin sé ófær því kennarar sinna þá kennslu að heiman og krakkarnir mæta í stofuna sína hér í skólanum.

Núna er samspil að fara í gang og kennarar eru búnir að vera að taka upp hverja rödd fyrir sig [hvert hljóðfæri], þannig geta krakkarnir æft sinn hlut og mátað sig við hina sem eru að spila. Oft þegar við erum að æfa fyrir tónleika þá tekur undirleikarinn upp sinn undirleik og nemandinn getur æft sig heima eins og flutningurinn verður á tónleikunum.

Við getum sent allt í gegnum þetta kerfi, eins og hljóðfæla og lesglærur. Öll tónfræðikennsla hjá okkur fer fram í gegnum iPad jafnvel þótt tímar fari fram í stofunni hérna. Áður sneri kennarinn baki í nemendur og skrifaði eitthvað á krítartöfluna, nú er taflan bara komin í iPad og henni varpað á sjónvarp. Kennarinn snýr að nemendum sínum og skrifar útskýringar inn á verkefnin sem verið er að vinna. Svo geta krakkarnir farið betur yfir þetta þegar þau eru komin heim, þau vinna verkefnin sín beint á iPad og kennarinn fer yfir þau. Svo ræður kennarinn hvenær hann lokar fyrir skil á verkefnum en getur opnað allt aftur til upprifjunar þegar byrjað er að æfa sig fyrir próf.“

Hvað eruð þið búin að vera lengi að þróa þetta kerfi?

„Það eru búnar að vera margar andvökunætur til að finna út hvernig væri hægt að gera þetta. Ég tók við hérna 2008 og þá vorum við þegar farin að hugsa um þetta því þá fengum við fyrstu spjaldtölvurnar. Svo gekk maður með þetta lengi í maganum, hvernig væri hægt að leysa þetta. Ég fór upp á Ásbrú, í Keili, til að kynna mér speglaða kennslu en hún hentaði ekki alveg þannig lagað sér. Þannig að við þróuðum þetta út frá þeirri hugmynd, tókum það besta og aðlöguðum að okkar þörfum, tónlistarkennslu. Hins vegar myndi þetta ganga í öllum skólakerfum.“

Viðbrögð tónlistarskólans við kórónuveirufaraldrinum voru til fyrirmyndar. Það voru t.a.m. útbúin skilrúm fyrir blásturshljóðfærakennsluna til að aðskilja kennara og nemendur, enda ekki hægt að notast við grímu þegar leikið er á blásturshljóðfæri. Þá eru tvö píanó notuð við kennsluna, eitt fyrir kennarann og annað fyrir nemendur, þannig að snertifletir eru ekki sameiginlegir. Engir nemendur í skólanum smituðust af Covid og aðeins tveir kennarar fóru í sóttkví en þeir gátu sinnt kennslunni á meðan í gegnum tölvu, þökk sé kerfinu sem Tónlistarskólinn í Grindavík hefur þróað.

Gott bakland

Nú hlýtur þetta að hafa verið kostnaðarsamt ferli. Hafið þið fengið einhverja styrki út á verkefnið?

„Nei en Grindavíkurbær er mjög styðjandi. Við höfum flotta fræðslunefnd sem hvetur til dáða og við höfum haft mjög gott bakland. Lions er góðvinur skólans. Við förum alltaf og höldum tónleika hjá þeim og þeir hafa verið að hjálpa okkur, hjálpuðu okkur t.d. með fyrstu iPadana og fleira sem vantar. Þá hafa einkaaðilar einnig komið að málum og gefið gjafir svo við eigum marga velunnara.

Hins vegar er bærinn mjög styðjandi og hvetjandi, fólki er gefið svigrúm til að vinna að svona þróunarverkefnum og þeir taka þátt í því. Það er mjög gott að vinna hjá Grindavíkurbæ hvað þetta varðar. Þú mætir skilningi og færð stuðning. Nú erum við t.d. að hefja vegferð með lærdómssamfélag þar sem allir skólar bæjarfélagsins eru að innleiða lærdómssamfélagið. Það byrjaði á því að formaður fræðslunefndar stakk upp á þessu og í kjölfarið var keypt námskeið frá Háskóla Íslands sem var kennt hér í Grindavík. Allir skólastjórnendur fóru á þetta námskeið, þ.e. allir sem höfðu yfir mannaforráðum að gera, með það að markmiði að hefja þetta ferli. Svo fengum við styrk frá Sprotasjóði og nú eru kennarar frá Háskólanum á Akureyri að hjálpa okkur að innleiða lærdómssamfélagið og fyrsta innleiðing var í lok september þar sem allt skólasamfélagið var tekið, verkefnið útskýrt og starfsfólk leitt inn í vinnuna.“

Allir hafa rödd

Inga segir að lærdómssamfélagið gangi út á það að allir hafi rödd og á þá sé hlustað. Að á vinnustaðnum þínum hafir þú eitthvað að segja um hvað fari þar fram og getir tjáð skoðanir þínar.

„Að þetta sé ekki allt háð ákvörðun einhvers stjórnanda og þú getir tekið þátt í ákvarðanatöku. Það er unnið mikið í teymisvinnu þar sem allir eru jafnir, hugmyndafræðilega. Við höfum lengi unnið svona mjög hér, eins og í þessum skóla er mjög frjótt starfsfólk sem gaman er að vinna með því það koma upp svo margar flottar hugmyndir. Þannig að við erum komin svolítið áleiðis, við höfum forskot.“

Það er nefnilega þannig í svona stofnunum að keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Þannig að ef einhverjum líður illa, finnst aldrei hlustað á hann eða eitthvað slíkt, þá verður hann óvirkur á endanum. Það að allir hafi rödd og að við séum saman í þessu, það kemur svo mikill kraftur út úr því. Þá eru allir líka „all in“ í því að vinna verkefnin.“

Tónlistarnámið er fjölbreytt og skemmtilegt í Tónlistarskólanum í Grindavík. Hér eru upprennandi píanó- eða hljómborðsleikarar í tíma.


Þú lendir á veggjum

Oft hefur verið talað um að ein kennsluaðferð henti ekki öllum og ómögulegt sé að setja alla undir sama hatt. Það skapi jafnvel vanlíðan hjá börnum og brottfall þeirra úr námi sem falla ekki undir þennan tiltekna hatt.

„Það að stofnanir reyni ekki að festa nemendur inn í einhverju boxi, heldur lagi sig að þörfum þeirra, skiptir miklu. Það að vera fastur í einni aðferð er svo dapurt gagnvart þeim sem hafa verið á jöðrunum og kannski aðeins þurft aðra nálgun, bara smá aðstoð til að klífa þá veggi sem á vegi þeirra verða. Tónlistarnám er þannig að þú lendir á veggjum og ef þú kemst ekki yfir þá ertu einfaldlega hættur, gefst upp – og hvað er betra en að fylgja nemandanum heim og reyna að aðstoða hann, gera foreldrana að millilið til þess að komast yfir þá hjalla sem á vegi þeirra verða. Það hlýtur að vera ávinningur í því myndi ég halda.

Það sama á t.d. við um lesblindu. Ég held að grunnskólinn gæti gert rosalega góða hluti ef hann tæki upp þetta kerfi, eftirfylgniaðferðina. Þá mætirðu einstaklingnum alltaf á sínu svæði, þar sem hann er öruggur. Ef að kennarinn hættir að snúa sér upp að töflu og leggur til hliðar þessa innlagnaraðferð, ef þú ert á klósettinu þá missir þú bara af, leiðinlegt fyrir þig. Ef að kennslan væri færð í þetta form, hugsaðu þér hvað við gætum gert; í sérkennslunni, í öllum fögum. Þetta hentar í öll fög, ef þetta hentar í tónlist þá hentar þetta allsstaðar annarsstaðar því að við erum bæði með verklegar og bóklegar greinar. Eftirfylgniaðferðin hefur líka reynst rosalega vel í bóklega náminu, til að útskýra fyrir nemandanum og þannig.

Það er svo grátlegt að þegar kreppir að börnunum í grunnskóla vegna einhverra örðugleika, hvað er þá oft gert? Þau eru tekin úr því sem þau eru að blómstra í af því að þau þurfa að sinna hinu betur. Þú verður að ná þessu jafnvel þótt þú hafir ekki náð inntakinu í því í tíu ár, þú verður að einblína á það sem þú ert veikastur í staðinn fyrir að fá að njóta þín þar sem styrkurinn liggur. Mér finnst að öll börn eigi að fá að blómstra þar sem styrkur þeirra liggur, það er svo augljóst en ekki þar með sagt að það sé raunveruleikinn.“

Inga talar um hve mikinn metnað Grindavíkurbær hafi fyrir skólastofnanir sínar og hlúi vel að þeim. „Maður fær að prófa, maður fær að þróa, maður fær að henda því sem ekki gengur og þegar það gerist kemur maður bara og segir að þetta hafi ekki gengið upp. Það er ekkert mál.

Ef við fengjum ekki að þróa okkar starf þá værum við ennþá að kenna á sama hátt og Bach og Beethoven var kennt. Það væru ennþá sömu vandamálin og ennþá sama brottfallið. Það breytist ekkert nema einhver fái að þróa og breyta.

Það eru fáir sem fara í grunnpróf í tónlistarnámi miðað við þá sem byrja og ástandið snarversnar við miðpróf, svo eru afar fáir sem fara í framhaldsnám.“

Efnilegur flautuleikari sýnir hvernig eigi að blása í þverflautu.

Þetta á að vera gaman

Tónlistarnám er einstaklingsmiðað nám en þátttaka í samspili er samt sem áður stór þáttur í því að verða tónlistarmaður. Tónlistarskólinn í Grindavík er ekki með lúðrasveit en þar æfa saman tvær popphljómsveitir. „Það er voðalega vinsælt á unglingastigi að vera í popphljómsveit og koma svo saman og djamma. Það verður að vera með, þau geta ekki bara verið í klassísku námi og mega aldrei leika sér með það sem þau eru að læra. Það er heldur ekki hægt að vera einungis í klassísku námi og geta ekki einu sinni spilað afmælissönginn.

Hljóðfæranám er fyrst og fremst einstaklingsnám þar sem þú vinnur maður á mann með kennaranum en þú þarft að sinna félagslega þættinum líka. Börnin þurfa að læra að vinna með öðrum og finna að það sem þau eru að gera reynist öðrum líka erfitt. Tónlistarnám þjálfar börnin upp í svo mörgu og það er margsannað að börn sem byrja ung í hljóðfæranámi nota heilann öðruvísi en aðrir, þau virkja heilastöðvar sem annars eru ekki notaðar – og hvað eru þau að læra í tónlistarnámi? Þau eru að vinna með þolinmæði og aga. Það þarf gríðarlegan aga til þess að æfa sig tímunum saman á einhverju hljóðfæri, hjakka í því sama til að ná einhverjum árangri. Það þarf festu, þolinmæði og þrautsegju. Þetta færðu allt út úr tónlistarnámi – fyrir utan það að verða spilandi þá færðu svo marga eiginleika sem nýtast þér í lífinu, eins og þjálfun í að koma fram og láta salinn ekki hrella þig. Það eru þessir eiginleika sem þú tekur með þér út í lífið.“

Fleiri myndir úr Tónlistarskólanum má sjá í myndasafni neðar á síðunni.

Tónlistarskólinn í Grindavík | Október 2021