Fjörheimar
Fjörheimar

Mannlíf

Smári stofnar Smástirni og gefur út Mystery Boy
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 13. júlí 2019 kl. 14:51

Smári stofnar Smástirni og gefur út Mystery Boy

Tónlistin úr söngleiknum Mystery Boy sem settur var upp af Leikfélagi Keflavíkur í fyrra er komin út og er fáanleg á Spotify og Apple music. Tónlistin er gefin út af nýju útgáfufyrirtæki sem heitir Smástirni sem er í eign Smára Guðmundssonar höfundar söngleiksins. Smári hefur spilað með Klassart og mörgum öðrum hljómsveitum í gegnum tíðina og er hún Fríða sem er söngkona Klassart og systir Smára með stórt hlutverk í söngleiknum. Tónlistin var tekin upp í Studio Bambus, Geimsteini og í Stúdíó Smástirni.

Söngleikurinn var valin áhugasýning ársins 2018 og sýnd í Þjóðleikhúsinu í kjölfarið. Umsögn dómnefndar um sýninguna var svohljóðandi:

„Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, í leikstjórn Jóels Sæmundssonar, er afar metnaðarfullur, nýr íslenskur söngleikur þar sem fjallað er á óvenjulegan hátt um mikilvæg málefni. Verkið er byggt á reynslu höfundar af því að fara í áfengismeðferð, en útfærslan er afar frumleg og djörf. Fantasíukennd nálgun höfundar við efnið er til þess fallin að gera efnið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir nútímaáhorfendur. Um leið er fjallað um sígild viðfangsefni eins og ástina, frelsisþrána, óttann, átök um völd, baráttu góðs og ills, mannleg samskipti og það að upplifa sig á einhvern hátt utangarðs. Tónlistin er skemmtileg og vel flutt af hljómsveit og söngvurum, sem einnig standa sig vel í leik. Leikfélag Keflavíkur fæ sérstakt hrós fyrir að ráðast af miklum metnaði í uppsetningu á nýju verki, með nýrri tónlist, þar sem þátttakendur leggja líf og sál í uppsetninguna.“


Söngleikurinn er gefin út undir nafninu Gudmundson sem er listamannanafn Smára Guðmundssonar og hægt er að hlusta á hann hér.

Næst á dagskrá hjá útgáfufyrirtækinu Smástirni er útgáfa á fyrstu sólóplötu Fríðu sem ber heitið Myndaalbúm. Platan er væntanleg í haust. Hægt er að skoða um það nánar á heimasíðu Smástirnis www.smastirni.is.

Smástirni er í eigu Smára Guðmundssonar höfundar söngleiksins um Mystery Boy. VF-mynd: Hilmar Bragi