Mannlíf

Skálað í appelsíni
Margrét I. Ásgeirsdóttir, forstöðumaður Byggðasafnsins á Garðskaga, Tanja Halla Önnudóttir, safnvörður byggðasafnsins, og Jóhanna Kjartansdóttir, sem starfað hefur fyrir byggðasafnið í vetur, tóku á móti gestum í opnunarhófinu. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 6. maí 2022 kl. 13:52

Skálað í appelsíni

– við opnun Verzlunar Þorláks Benediktssonar í Byggðasafninu á Garðskaga

Verzlun Þorláks Benediktssonar, sem rekin var í Akurhúsum í Garði frá árinu 1921 til ársins 1972,  hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Innréttingar verslunarinnar hafa verið settar upp í hlöðunni í Byggðasafninu á Garðskaga og allt umhverfi verslunarinnar endurskapað. Gamla verslunin fær nú hlutverk móttöku byggðasafnsins og þar verður jafnframt safnbúð.

Byggðasafnið á Garðskaga hefur nú verið opnað að nýju eftir talsverðar endurbætur og endurskipulagningu. Við opnunina var skálað í appelsíni með lakkrísröri og var það í anda Verzlunar Þorláks Benediktssonar. Í þau 51 ár sem verslunin var rekin í Akurhúsum í Garði var það hápunkturinn hjá ungdómnum í Útgarðinum að fara í búðina og fá Egils appelsín í gleri með lakkrísröri. Ef það var ekki í boði þá voru í það minnsta keyptar karamellur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, afhenti Byggðasafninu á Garðskaga einnig síðasta stimpil bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs. Tanja Halla Önnudóttir, safnvörður, tók stimpilinn til varðveislu á safninu.

Margrét I. Ásgeirsdóttir, forstöðumaður Byggðasafnsins á Garðskaga, Tanja Halla Önnudóttir, safnvörður byggðasafnsins, og Jóhanna Kjartansdóttir, sem starfað hefur fyrir byggðasafnið í vetur, tóku á móti gestum í opnunarhófinu með framangreindum veitingum, sem í minningu Garðmanna einkenndu verslunina.

Áður en gestum var boðið að skoða endurgerða verslunina var boðið upp á menningardagskrá í móttöku safnsins. Meðal annars léku nemendur og kennarar Tónlistarskólans í Sandgerði á forláta hljóðfæri sem eru í safnkosti byggðasafnsins, rafmagnsgítar frá árinu 1965 og orgel sem talið er frá því í kringum aldamótin 1900.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, afhenti Byggðasafninu á Garðskaga einnig síðasta stimpil bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs og verður hann varðveittur á safninu.

Fram kom í máli Margrétar, forstöðumanns safnsins, að með opnun á endurgerðri Verzlun Þorláks Benediktssonar væri að opna sýning í mótun sem ætti að segja verslunarsögu Garðs og Sandgerðis en á veggjum er að finna bæði myndir og texta sem segja frá verslunarsögu sveitarfélaganna sem nú eru Suðurnesjabær. Bætt verður inn munum með reglulegum hætti næstu vikur og mánuði, þannig að gestir geta komið aftur og aftur og séð breytingar og nýja muni.

Sumaropnun Byggðasafnsins á Garðskaga frá maí til september verður kl. 10–17 alla daga.