RNB 17 júní
RNB 17 júní

Mannlíf

Senuþjófur á djasskvöldi í Suðurnesjabæ
Færri komust að en vildu þegar Gola lék í Bókasafni Sandgerðis. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 7. maí 2021 kl. 08:27

Senuþjófur á djasskvöldi í Suðurnesjabæ

Jazzfjelag Suðurnesjabæjar hefur verið iðið við að bjóða upp á tónleika í Bókasafni Sandgerðis, félagið hélt uppteknum hætti og blés til tónleika miðvikudaginn 21. apríl síðastliðinn, eða um leið og Covid leyfði. Upphaflega stóð til að halda tónleikana í mars en vegna sóttvarnatakmarkana var þeim frestað. Aðgangur að tónleikunum var enginn að venju en Sóknaráætlun Suðurnesja og Suðurnesjabær styrkja Jazzfjelag Suðurnesjabæjar.

Við tilefnið opinberaði Halldór Lárusson nýtt og glæsilegt merki Jazzfjelagsins. Heiðurinn að merkinu á Björgvin Guðjónsson en hann hannaði einnig merki Hattavinafélags Suðurnesjabæjar.

Á tónleikana komust færri að en vildu en þar kom fram sveitin Gola og lék djassskotna standarda, fönk og heimstónlist. Vel heppnaðir tónleikar með skemmtilegri blöndu hljómsveitarmeðlima en sveitin var skipuð þaulreyndum tónlistarmönnum; bassaleikaranum Jóhanni Ásmundssyni sem er hve þekktastur fyrir að hafa skipað hljómsveitina Mezzoforte, Sigurgeir Sigmundsson, sem hefur m.a. leikið með Bubba, Björgvini Halldórs og Start, plokkaði strengina á hefðbundnum rafmagnsgítar og lék auk þess á Lap Steel ­Guitar, þá var skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis, Halldór Lárusson, á trommunum en hann hefur t.d. leikið með Bubba, Júpíters og fleirum. Með þessum gamalreyndu tónlistarmönnum var svo ungur hljómborðsleikari, Haukur Arnórsson, sem er nemandi á framhaldsstigi í tónlistarskólanum. Haukur reyndist senuþjófur kvöldsins og vakti athygli fyrir innlifun og flotta takta á hljómborðinu. Víkurfréttir tóku hann tali eftir tónleikana.

Það eru engin smá nöfn sem skipa sveitina Golu. T.v. eru þeir Halldór Lárusson og Jóhann Ásmundsson í góðum fílíng – hægra megin er senuþjófurinn, hljómborðsleikarinn Haukur Arnórsson.

Hljómborðið er mitt vopn

Haukur Arnórsson er 21 árs nemandi við Tónlistarskóla Sandgerðis og býr í Grindavík en þangað flutti hann á leikskólaaldri. Haukur hefur ekki þurft að leita langt til að nema tónlist en hann er fóstursonur Halldórs Lárussonar, trommuleikara og skólastjóra Tónlistarskóla Sandgerðis.

– Hvenær byrjaðir þú í tónlist?

„Ég byrjaði sjö eða átta ára gamall í Grindavík, trommari. Ég byrjaði að læra á trommur hjá Halldóri. Í trommustofunni var marimba [slagverkshljóðfæri sem svipar til sílafóns] og ég var alltaf að leika mér á hana, var aldrei á trommusettinu. Það endaði á því að mamma fékk nóg og dró mig í píanóstofuna, þá hef ég verið um tíu ára aldurinn. Ég hef verið í píanónámi síðan þá og lauk við miðstig á síðasta ári.“

Það má segja að Haukur hafi stungið sér beint út í djúpu laugina þegar hann kom fram með hljómsveitinni Golu. Ferill hljómsveitarmeðlima er orðinn ansi langur og glæsilegur, reyndar voru þeir allir byrjaðir að spila áður en Haukur fæddist. Við spurðum hvað honum fyndist um að spila með svona reynsluboltum.

– Svo ertu bara farinn að spila með gömlum reynsluboltum, hvernig finnst þér það?

„Já, þetta eru engin smá kallar. Það er ótrúleg og sturluð reynsla að fá að spila með svona flottum listamönnum. Sigurgeir, hinn sólóleikarinn, er auðvitað með svo mörg ár á bakinu – maður á ekki séns í þetta lið.“

Eftir því sem líður á samtal okkar þá kemur betur í ljós að Haukur er ekki mikið fyrir að fylgja ekki þessum hefðbundnu stefnum í tónlistarvali sem flestir jafnaldrar velja. Hann fer sínar eigin leiðir og tónlistarsmekkur Hauks virðist vera talsvert þroskaðri og lengra kominn en sú popptónlist sem heyrist á flestum útvarpsstöðvum í dag.

– Hvernig tónlist finnst þér skemmtilegast að leika?

„Ég er bara djassari og fönkari, fyrst og fremst, og er í fönkhljómsveit. Hljómsveitin heitir Midnight Librarians sem er skipuð Suðurnesjamönnum úr Keflavík og Garði ... og svo mér úr Grindavík. Við semjum og flytjum fönktónlist og það er stefnan hjá okkur að gefa út plötu í sumar.“

– Djass og fönk er nú kannski ekki endilega það sem unga fólkið hlustar á í dag.

„Nei, ekki alveg. Mér finnst þetta einfaldlega besta tónlistin – persónulega get ég ekki þetta popp og rapp sem hinir eru í.

Ég byrjaði í klassíkinni en hún heillar mig ekki, ég lauk grunnprófi í klassískum píanóleik en svo færði ég mig alfarið yfir í rythmísku deildina.“

– Er hljómborðið þá helsta hljóðfærið þitt, ekki píanóið?

„Já, hljómborðið er vopnið mitt – það er bara fókuserað á það og ekkert annað.“

Ætlar að starfa við tónlist

Haukur og unnusta hans, Kleópatra Thorstenssen Árnadóttir, stefna bæði á að gera listina að sinni atvinnu. Haukur hefur sett stefnuna á tónsmíðabraut í Listaháskólanum og sett sér það markmið að gera tónlistina að sínu ævistarfi en Kleópatra stefnir á myndlist.

„Við erum búin að vera ágætlega lengi saman, í sex ár,“ segir Haukur. „Kleópatra er naglafræðingur og listakona, hún var að klára naglafræðina og ætlar í myndlistarskóla í framhaldinu.

Hjá mér hefur það alltaf verið stefnan að vinna við tónsmíðar, ekkert annað hefur komist að síðan ég var krakki. Kannski langaði mig að verða lögga þegar ég var ellefu ára en síðan þá hef ég bara ætlað að verða tónsmiður,“ segir þessi efnilegi tónlistarmaður en áður en við sleppum að honum takinu biðjum við Hauk að velja fimm plötur sem hafa haft áhrif á hann sem tónlistarmann.

Haukur Arnórsson er hæfileikaríkur hljómborðsleikari.

Uppáhaldsplötur Hauks Arnórssonar

Þú getur smellt á plöturnar til að hlusta

Métropole eftir Anomalie 

Þetta er án efa uppáhaldsplatan mín eftir uppáhaldstónlistarmanninn minn. Hann er búinn að móta spilamennskuna mína og það sem ég sem og spila er yfirleitt byggt á hans stíl.

Scenery and Mellow dream eftir Ryo Fukui

Fyrsti jazz sem ég heyrði og það sem að kom mér stefnuna til að byrja með, mér finnst hann ennþá gera þetta betur heldur en hinir gömlu djassararnir.

Melkweg eftir Jameszoo og Jules Buckley

Synthar og Sinfóníusveit, það gerist ekki betra. Hef hlustað á þessu plötu nonstop síðustu mánuði og hefur hún gjörbreytt sjóninni minni á hvað strengjasveitir geta gert mikið séu þær notaðar rétt.

Gotcha Now Doc eftir Cory Henry

Besti organistinn í bransanum, spilamennskan hans kom mér í orgelið og ég hefði aldrei byrjað að spila á það ef það væri ekki fyrir þennan snilling. Lagið Seven á þessari plötu er must listen.

Salad Days eftir Mac DeMarco

Þetta er ein af uppáhaldsplötunum mínum sem er skrýtið því að það er hvorki píanó né jazz í henni. Þessi plata kenndi mér að tónlist þarf ekki að vera flókin og maður þarf ekkert heldur að vera einhver tónlistarsnillingur heldur er þetta allt um að mynda sér sinn eiginn stíl.