Stfs
Stfs

Mannlíf

Ráðherra var hrifinn af gamla happdrættisbílnum
Ráðherra settist upp í gamla Renaultinn.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 8. ágúst 2020 kl. 15:31

Ráðherra var hrifinn af gamla happdrættisbílnum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, settist upp í 75 ára gamlan Renault og fór rúnt í huganum. Hreifst af bílnum og safni Ásgeirs Hjálmarssonar í Garðinum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, settist upp í 75 ára gamla Renault bifreið í safni Ásgeirs Hjálmarssonar í Garði. Ráðherra var gestur á Skötumessu 2020 og leit við í safni Ásgeirs áður. „Þetta er alveg magnað safn og bíllinn líka,“ sagði ráðherra þegar hann settist upp í gamla bílinn sem á sér sérstaka sögu eins og fleiri hlutir í safni Ásgeirs í gömlum braggabyggingum hans í Garðinum í Suðurnesjabæ.

Ásgeir Hjálmarsson kom Byggðasafninu í Garði á koppinn á sínum tíma. Eftir að hann lét af störfum hefur hann haldið áfram að safna munum í bragga í Útgarði. „Ég veit nú ekki af hverju ég byrjaði að safna munum en eftir að ég hætti hjá Byggðasafninu hélt ég áfram að safna og er hérna kominn með annað safn í bragganum. Maður losnar ekkert við það að safna,“ sagði Ásgeir í viðtali við Víkurfréttir þegar hann sýndi Hilmar Braga Bárðarsyni. 

Safnið er í tveimur samliggjandi húsum í Út-Garði. Áður fyrr þurrkaði Oddur Jónsson, afi Ásgeirs, fisk í og við húsin. „Hérna byrjaði ég að vinna ásamt fleiri krökkum, líklega sex til átta ára gamall.“ Það er því óhætt að segja að húsin eigi sér langa og skemmtilega sögu.

Á safni Ásgeirs kennir ýmissa grasa. Þar eru ýmis áhöld og tæki tengd búskap, heimilishaldi, bílum og bátum. Ásgeir gerði upp sjötíu ára gamlan bíl sem eiginkona hans, Sigurjóna Guðnadóttir, vann í happdrætti þegar hún var þriggja ára. Bíllinn er af gerðinni Renault Juvaquatre og árgerð 1946. Bíllinn er glæsilegur að sjá eftir yfirhalningar síðustu missera. Nokkrir slíkir bílar voru fluttir til landsins á fimmta áratug síðustu aldar. Þeir voru geymdir við bæinn Haga í Vesturbæ Reykjavíkur og hlutu því viðurnefnið Hagamýs. Bíll Sigurjónu var aftur á móti alltaf kallaður Tíkallinn því happdrættismiðinn kostaði tíu krónur.

Goðafoss árásin í Garðinum

Í myndskeiði sem fylgir hér með umfjölluninni er viðtal við Ásgeir Hjálmarsson um skipið Goðafoss sem fórst út í Garðsjó fyrir margt löngu síðan. Á safninu er líkan frá Út-Garðinum sem á að sýna árásina á Goðafoss en Ásgeir gerði það í samvinnu við Friðrik Friðriksson. „Það voru margir í Garðinum sem sáu árásina á Goðafoss, m.a. föðurbróðir minn, Siggi á Nýjalandi, sem sat í eldhúsinu með móður sinni og ömmu minni og hann lýsti fyrir mér nákvæmlega hvernig þetta gerðist ,“ segir Ásgeir í viðtalinu sem Víkurfréttir tóku við hann árið 2015.Ásmundur Einar ráðherra með Axel Jónssyni í Skólamat. Þeir fóru beint í Skötumessu eftir heimsóknina til Ásgeirs.

Það kennir margra grasa í bragganum hjá Ásgeiri í Garðinum, m.a. úrval gamalla bílnúmera. Kannast einhver við númerið sitt?

Mjólkurfernur, bíllyklakippur og fleira.