Mannlíf

Nakinn á netinu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 19. ágúst 2019 kl. 10:09

Nakinn á netinu

Nú 14 árum eftir að hún kom fyrst út er loks hægt að nálgast plötuna Nakinn með Matta Óla á efnisveitunni Spotify. Platan var framleidd í takmörkuðu upplagi og seldist upp fljótlega eftir útgáfu. Það er því kærkomið að geta nálgast þessa tónlist frá Matta Óla á netinu.

Sandgerðingurinn Matti Óla er ekki hefðbundinn tónlistarmaður. Hann var kominn á fertugsaldurinn þegar hann fyrst byrjaði að handleika gítar og mjög fljótt fór hann að semja eigin lög og texta. Hann vakti athygli fyrir skemmtilegar lagasmíðar og rödd sem fólk annað hvort elskaði eða hataði. Matti Óla syngur svo sannarlega með eigin nefi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var svo í byrjun árs 2005 sem hann safnaði saman hópi af tónlistarmönnum af Suðurnesjum til að taka upp efni. Eftir nokkrar tarnir í Upptökuheimili Geimsteins í Keflavík voru komin 10 lög sem saman mynduðu plötuna Nakinn sem kom út seinna sama ár.

Platan vakti athygli og lögin Amma og ég og Rúsínur (Ástarómur) hljómuðu nokkuð í útvörpum landsmanna. Þá hefur lagið Loksins lifað góðu lífi meðal fólks sem kemur saman til að gera sér glaðan dag.

Stuttu eftir að platan kom út fór Matti að sinna öðrum verkefnum og tónlistin fékk minna pláss. Þó hann hafi horfið af tónlistarsviðinu nánast jafn fljótt og hann birtist á því er Matti Óla alls ekki hættur að búa til lög og texta. Hver veit nema einn daginn muni fólk fá að njóta snilli hans aftur með einhverjum hætti. En fram að því er hægt að hlusta á lögin af Nakinn á Spotify sem eru þangað komin í samstarfi við útgáfufélagið Smástirni.