Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Mannlíf

Ljósanótt 2019: Horft á flugeldana úr þvottahúsinu
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 16:40

Ljósanótt 2019: Horft á flugeldana úr þvottahúsinu

Sara Dögg Gylfadóttir er hvorki meira né minna en félagsráðgjafi, förðunarfræðingur, flautuleikari, fjölskyldumeðferðarfræðingur og fjögurra barna móðir. Hvað eru mörg f í því? Hún elskar Ljósanótt. „Þá helst listasýningarnar, tónlistina og að hitta allt fólkið á röltinu. Ég er alltaf mjög upptekin á Ljósanótt og tek sjálf þátt í sýningum og menningarlífi. Það er nóg að gera þessa helgi.“

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja?

„Ég fer á Með blik í auga, rölti Hafnargötuna á fimmtudeginum, er sjálf með heimatónleika í stofunni heima á föstudeginum og svo þarf maður auðvitað að taka röltið á laugardeginum til að sjá listasýningar, tónleika og að hitta fólk. Ég er líka sjálf með pop-up tónleika hér og þar á Hafnargötunni ásamt Birnu vinkonu minni á laugardeginum þar sem við komum fram sem dúettinn Dúlludúskarnir.“

Hvað finnst þér ómissandi á Ljósanótt?

„Að hitta allt fólkið og auðvitað viðburðirnir. Mér finnst frábært að sjá hvað allt lifnar við í bænum. Fólk býður í mat, skreytir og kemur fram með alls konar handverk og skemmtilega viðburði í tengslum við hátíðina. Ég vil endilega fá meira svoleiðis þar sem heimamenn brydda upp á einhverju skemmtilegu. Svo er hápunkturinn alltaf flugeldasýningin á laugardeginum. Ég fæ alltaf tár í augun, mér finnst þetta svo hátíðlegt og skemmtilegt. Ég var sérstaklega ánægð að sjá að Gunni Þórðar er búinn að leyfa aftur spilun á laginu sínu, Gamli bærinn minn. Takk fyrir það Gunni.“

Hverju af hátíðinni myndir þú mæla með fyrir gesti?

„Fyrir heimamenn er Með blik í auga geggjuð tónlistarhátíð og auðvitað Heima í gamla bænum, heimatónleikarnir. Því miður eru færri sem komast að en vilja en tónlistarunnendur eiga ekki að láta þessa viðburði fram hjá sé fara. Fyrir aðra gesti þá er laugardagurinn auðvitað aðalmálið en ég myndi mæla með að fólk klæði sig eftir veðri og taki sér góðan tíma að rölta niður Hafnargötuna og njóti þess að sjá hvað boðið sé upp á. Það er eitthvað fyrir alla.“

Hver er eftirminnilegasta Ljósanóttin þín?

„Ætli það sé ekki árið 2013 þegar ég var kasólétt og farin að bíða eftir barninu, sem kom svo eftir Ljósanótt. Það var mjög róleg og skrýtin Ljósanótt þar sem ég gat lítið gert og var aðallega heima í rólegheitum og sá flugeldasýninguna út um gluggann í þvottahúsinu.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs