RNB 17 júní
RNB 17 júní

Mannlíf

Leiklistarhátíð ungmenna í Garðinum á sumardaginn fyrsta og föstudag
Miðvikudagur 24. apríl 2019 kl. 17:02

Leiklistarhátíð ungmenna í Garðinum á sumardaginn fyrsta og föstudag

Verkefnið Þjóðleikur er risavaxið leiklistarverkefni fyrir ungt fólk sem haldið er annað hvert ár á landsbyggðinni að frumkvæði Þjóðleikhússins. Verkefnið var sett af stað árið 2008 með það að markmiði að glæða  áhuga ungs fólks á leiklist. Tíu árum síðar hafa hátt í fjórða þúsund  ungmenni tekið þátt í uppsetningu á nýjum íslenskum leikverkum sem sérstaklega voru skrifuð fyrir verkefnið. Fyrsta leiklistarhátíðin verður í Garðinum á sumardaginn fyrsta og á föstudag og verða sýndar fimm sýningar sem ungmenni á Suðurnesjum hafa undirbúið og æft að undanförnu.

Sýningarnar í Garðinum verða frá leikhópum úr grunnskólunum í Sandgerði og Garði, Myllubakkaskóla, Akurskóla og  Holtaskóla í Reykjanesbæ, frá kl. 13 til 17. Nánar um sýningarnar hér.

Annað hvert ár geta skólar á landsbyggðinni, áhugaleikfélög,  menningarráð eða sveitarfélög sótt um að taka þátt í Þjóðleiksverkefni. Leitað er til nokkurra íslenskra leikskálda og skrifuð eru ný verk sem henta vel í styttri uppsetningar. Meðgöngutími verkefna eru tvö ár, þar sem fyrra árið fer í að velja samstarfsaðila en seinna árið í uppsetningar. Fyrir þetta tíu ára afmæli Þjóðleiks hafa fjögur leikrit frá fyrri árum verið valin til sýninga eftir þau Hallgrím Helgason, Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann, Ólaf Egil Egilsson, Brynhildi Guðjónsdóttur og Sigtrygg Magnason.

Haldnar eru veglegar lokahátíðir að vori þar sem þátttakendur sameinast á  stórum leiklistarhátíðum þar sem 30-40 leiksýningar eru frumsýndar. Lokahátíðirnar eru 4 að þessu sinni og sú fyrsta er haldin á morgun, 25. apríl, sumardaginn fyrsta í Garði á Suðurnesjum. Aðrar hátíðir verða á næstu dögum í Hveragerði, Hólmavík og á Egilsstöðum.