Mannlíf

Laumaðist til að smella af
Föstudagur 26. mars 2021 kl. 06:52

Laumaðist til að smella af

Það sem maður lendir í við ljósmyndun.

Við þá iðju mína að eltast við báta til að mynda þá þarf maður oft á tíðum að klöngrast niður í fjöru.

Í þessum ferðum hefur maður lent í allskonar. Ég hef dottið og kramúlerað mig og skemmt búnað, séð og rekist á hin ýmsu kvikindi, eins og mink, tófu, fugla af ýmsum tegundum, skorkvikindi af ýmsum gerðum og menn á veiðum og sundi.

En! Í einni af ferðum mínum fyrir ekki svo mörgum misserum síðan er ég var að klöngrast niður í fjöru til að mynda bát koma að landi, þá rakst ég á allsnakinn kvenmann vafinn inn í byggngarplast og ekki var hún dauð eins og maður sér svo oft í bíómyndunum, heldur alveg svona líka sprelllifandi.

Hún skeytti því engu þó ég kæmi arkandi framhjá á leið minni niður að flæðarmálinu

Þar sem að ég settist svo og myndaði bátinn skaut þeirri hugsun upp í kollinum á mér að  ef ég kæmi heim og segði frá þessu án þess að hafa mynd til sönnunar myndi enginn trúa mér. Þannig að ég laumaðist til að smella af.

Þar hafið þið það!


Jón Steinar Sæmundsson.