Mannlíf

Kristinsson hlaut menningarverðlaun Grindavíkur 2021
Vignir og Ólafía kona hans með menningarverðlaun Grindavíkur 2021.
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
sunnudaginn 10. október 2021 kl. 06:25

Kristinsson hlaut menningarverðlaun Grindavíkur 2021

Vignir Kristinsson hlaut menningarverðlaun Grindavíkur í síðustu viku. Vignir er mikill lista- og handverksmaður sem leggur mikinn metnað í verk sín.

Vignir var sjómaður lengi vel en um síðustu aldamót ákvað hann að venda kvæði sínu í kross og breyta um starfsvettvang eftir að báturinn sem hann var á þurfti meira viðhald en ráð var fyrir gert að ráðast í þannig að Vignir, sem hefur frá unga aldri haft ástríðu fyrir smíðum og handverki, réð sig í trésmíðavinnu hjá Trésmíðaverkstæðinu Grindin. Það má segja að Vignir hafi fundið köllun sína í smíðinni, hlakkaði mikið  til að fara í vinnuna á hverjum degi og lærði mikið undir verkstjórn Guðmundar Jónssonar, verkstjóra. Síðar stofnaði Vignir sitt eigið trésmíðaverkstæði sem gekk ágætlega fram að hruni. „Þá voru góð ráð dýr og hugmyndin kom að hönnun hreindýranna frá dóttur minni og má segja að þau hafi bjargað jólunum fyrir okkur það árið og varð í raun upphafið af þessari vegferð,“ segir Vignir. Hreindýrin, sem eru núna orðin ellefu ára, eru ennþá jafn vinsæl í dag og þau voru í upphafi. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vörumerkið Vignis er í dag orðið landsþekkt og smíðar hann undir vörumerkinu „Kristinsson“. Vörurnar voru að finna í helstu hönnunarverslunum á Íslandi. „Mínir helstu kúnnar eru Íslendingar enn sem komið er,“ bætti Vignir við. Töluvert hefur bæst við vöruúrvalið og nú býður hann m.a. upp á jólatré, uglur, endur, hvalasporða o.fl., ásamt því sem hann hefur verið að færa sig einnig yfir í nytjavörur líka eins og bretti í eldhúsið. Vörulínu Vignis er hægt að skoða á heimasíðu hans: www.kristinssonhandmade.com

Pakkhúsið í Grindavík og menningarverðlaunin

Fyrir um tveimur árum reisti Vignir sér verkstæði og sýningarrými í Grindavík. Fyrirmyndina að húsinu sótti hann til pakkhússins á Hofsósi sem er meðal elstu húsa sinnar tegundar á landinu. 

„Það er heil mikil viðurkenning að fá menningarverðlaunin og hefur mikla þýðingu og hvatningu fyrir mig á þessum vettvangi,“ sagði Vignir. „Við erum núna  á kafi í því að standsetja íbúð á efri hæð pakkhússins sem á að fara í útleigu og síðan eru hugmyndir um frekari útvíkkun vörulínunnar.“

Mikil vinna liggur í hverjum hlut, allt er handunnið úr gæðaefnivið. „Það gleður mikið mitt hjarta þegar fólk kemur hér inn og hrífst af handverkinu og kaupir af því það veit að það er að fá einstaka gæðavöru sem á eftir að endast.“

Vignir smíðar einnig eftir pöntunum, m.a. leikföng og húsgögn. Vignir segir að fólk sé meðvitaðra um að nota minna plast. Tréleikföng eru líka endingarbetri, fallegri og umhverfisvænni.

Það liggur í hlutarins eðli að að baki svona fyrirtæki er samheldin fjölskylda sem leggur sitt á vogarskálarinnar. Synir Vignis hjálpuðu til við byggingu hússins og dæturnar hafa komið að markaðssetningu á samfélagsmiðlum auk þess sem konan hans, Ólafía Jensdóttir, stendur þétt við bakið á Vigni í rekstrinum.

Víkurfréttir heimsóttu Vigni og Ólafíu í nóvember 2020 og við leyfum því spjalli að fylgja hér með.

Vignir og fjölskylda byggðu sér verkstæði og sýningarrými í Grindavík. Fyrirmyndina að húsinu var sótt til pakkhússins á Hofsósi sem er meðal elstu húsa sinnar tegundar á landinu.