Nettó
Nettó

Mannlíf

Keflavík gerði mig að manninum sem ég er
Sunnudagur 10. febrúar 2019 kl. 09:00

Keflavík gerði mig að manninum sem ég er

Rapparinn Andri Már er að gera það gott þessa dagana í tónlistarbransanum, en nýlega kom nýtt lag frá kappanum. Lagið ber heitið Stjáni Blái.

Sálfræðin í rappinu
„Ég vann lagið með Bjarka, eða Balatron, og þetta er lag sem lýsir mér og minni týpu svolítið vel,“ segir Andri Már í samtali við Víkurfréttir.

Andri byrjaði að semja tónlist þegar hann var einungis þrettán ára gamall en áhuginn kviknaði að öllum líkindum þegar hann, kornungur, heyrði stóru systur sína hlusta á Nelly og fleiri tónlistarmenn. „Fyrsta rappplatan sem ég átti var Slim Shady LP, sem Silja frænka mín gaf mér, og þegar ég heyrði fyrsta lagið greip rappið mig strax. Í dag er rapp allt fyrir mér. Það er bókstaflega mín sálfræði. Það er svo ótrúlega mikil tjáning í þessu listformi. Ég elska það. Útrásin veitir manni vellíðan.“

Sannari sjálfum sér edrú
Andri Már ákvað fyrir nokkrum mánuðum síðan að snúa blaðinu við og varð edrú. Hann sér ekki eftir þeirri ákvörðun. „Ég finn mikinn mun á því að rappa edrú, að sjálfsögðu. Ég er mun ánægðari með efnið sem ég er að gefa út núna en áður og ég er orðinn mun sannari sjálfum mér,“ segir hann.
Lagið Tala Facts var fyrsta lagið sem Andri gaf út eftir að hann varð edrú. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en svolítið eftir útgáfu lagsins hversu öðruvísi það er í raun og veru en allt annað sem er í gangi. Þetta lag er grjóthart, metnaðarfullt og snýst um það að vera edrú og hafa það gott,“ segir Andri. Með honum í laginu er rapparinn Blaffi, sem heitir réttu nafni Hafþór Orri, en þeir drengir hafa unnið vel saman upp á síðkastið. „Við Blaffi höfum þekkst í einhvern tíma en aldrei verið eins tengdir og við erum í dag. Ég vissi að hann yrði granít í þessu lagi.
Andri segist finna fyrir vissri pressu við það að gefa út tónlist en það sé þó aðallega vegna þess að hann langi til að sanna sig fyrir sjálfum sér. „Mér finnst ég þó vera að gera það hægt en örugglega,“ segir hann.

Fatalína í vinnslu

Fyrir utan tónlistina er Andri að vinna í nýrri fatalínu, ásamt Desæna, sem ber heitið MDDC Clothing. „Þetta er svolítið skemmtileg tilbreyting, við erum með mjög flottar vörur og það er mikil eftirspurn eftir þeim. Með mér í þessu er Pétur Ágúst Berthelsen en hann hannaði lógóið mitt og mörg önnur verk.“

Andri, sem kemur frá Keflavík, er bænum sínum trúr og segist alltaf „reppa bæjarfélagið sitt“ í tónlistinni sinni. „Keflavík skiptir mig mjög miklu máli enda gerði Keflavík mig að þeim manni sem ég er í dag. Hér hef ég lært mjög margt.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs