Optical Studio
Optical Studio

Mannlíf

Karlakórinn rokkar
Fimmtudagur 31. janúar 2019 kl. 15:55

Karlakórinn rokkar

Það stefnir í bráðskemmtilega vortónleika hjá Karlakór Keflavíkur þann 14. og 15. maí 2019 því kórinn hefur fengið sjálft rokkgoðið Eyþór Inga Gunnlaugsson til liðs við sig og mun hann taka nokkur vel valin lög með kórnum. Undirbúningur fyrir tónleikana er kominn á góðan skrið og lagavalið að verða klárt. 
 
Stefnt er að því að flytja klassísk karlakóralög fyrir hlé og hafa síðan léttleikann ráðandi eftir hlé þar sem kórinn tekur nokkur gömul og ný popplög og endar svo á hressilegu rokki með aðstoð Eyþórs. 
 
Kórinn vill bæta við sig mönnum og auglýsir hér með eftir karlsöngvurum á öllum aldri, allt frá dýpsta bassa upp í bjartasta tenór. Kórinn æfir á mánudögum og fimmtudögum kl. 19:30 – 21:30 í húsnæði Karlakórsins að Vesturbraut 17-19.
 
„Menn þurfa alls ekki að vera einhverjir stórsöngvarar til að byrja í kór en oft kemur það fyrir að þeir sem skella sér í kórinn uppgötva söngvarann í sér upp á nýtt undir handleiðslu okkar frábæra stjórnanda Jóhanns Smára Sævarssonar. 
 
Við trúum ekki öðru en að í þeim fjölda fólks sem flutt hefur á Suðurnesin undanfarið sé fullt af flottum körlum sem geta sungið. Nýjum mönnum er alltaf frjálst að kíkja á æfingu hjá kórnum og taka kórfélagar ávallt vel á móti nýliðum en þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í vortónleikunum eru hvattir til þess að koma á æfingu hjá kórnum núna í lok janúar og fyrstu vikum febrúarmánaðar. Þetta verður bara gaman,“ segir í tilkynningu frá Karlakór Keflavíkur.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs