Mannlíf

Kaka ársins kemur frá Vogum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 25. mars 2023 kl. 06:09

Kaka ársins kemur frá Vogum

Bakarinn Guðrún Erla útilokar ekki að opna bakarí í Vogunum

„Hugmyndin að minni köku fæddist í raun viku fyrir mótið en ég hafði verið búin að ákveða aðra köku sem keppti líka og lenti í þriðja sæti,“ segir Vogabúinn og bakarinn Guðrún Erla Guðjónsdóttir en kaka frá henni var valin kaka ársins í árlegri keppni bakara.

Guðrún var ekki gömul þegar hún vissi hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. „Ég er tuttugu og tveggja, fæddist í Reykjavík og bjó þar fyrstu árin. Svo fluttum við til Voga og vorum þar í fimm ár, þar til við fluttum til Noregs árið 2010. Flökkuðum svo á milli má segja, fluttum aftur í Voga og ég fermdist í Kálfatjarnarkirkju en svo fluttum við aftur út til Noregs og vorum þar í fjögur ár, vorum svo alkomin til Íslands árið 2018. Það var æði að alast upp í Vogum, lítið fallegt samfélag þar sem allir þekktu alla en ég hafði líka mjög gaman af því að búa í Noregi, prófa að búa í útlöndum. Ég var ekki gömul þegar ég fékk áhuga á bakstri og var oft með mömmu í eldhúsinu, ég hafði ótrúlega gaman af þessu og fann að þetta myndi ég vilja vinna við í framtíðinni. Ég kláraði 10. bekkinn í Noregi og fór svo í skóla þar, fór í grunndeild matvæla, kláraði það og hafði þar með möguleikann á að komast á samning hjá bakarameistara. Ég sótti um hjá nokkrum bakaríum en fékk ekki mikil viðbrögð, datt svo í hug að sækja um í Mosfellsbakaríi eftir að mamma stakk upp á því en hún er Mosfellingur. Ég fékk strax svar frá Davíð Frey Jóhannssyni sem er yfirbakarinn, var boðuð í viðtal og fékk þriggja mánaða prufusamning. Að honum loknum bauð Davíð mér samning sem ég þáði með þökkum. Ég kláraði samninginn í fyrra og var þar með komin með bakararéttindin. Þegar ég var hálfnuð í bakaranáminu var ég að spá hvað ég myndi gera, það kom til greina að opna bakarí í Vogum en svo ákvað ég að mennta mig meira og bætti á mig Konditor og er í því námi í Danmörku. Eigandi Mosfellsbakarís, Hafliði Ragnarsson, er meistarinn minn í því en fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Konditor fíngerðari bakstur má segja, meira skraut og farið út í konfektgerð líka. Það er alltaf gott að bæta við sig þekkingu svo ég bíð með að opna bakarí í Vogum en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Sem betur fer er opnuð búð í Vogum.“

Kaka ársins 2023

Guðrún tók þátt í keppninni um köku ársins en hún fer fram að hausti árið áður og gildir því sem kaka ársins 2023. Ekki nóg með að Guðrún hafi unnið keppnina, heldur hreppti hún líka þriðja sætið fyrir aðra köku. „Fyrir bakara er mjög mikill heiður að vinna þessa keppni, öll bakarí sem eru í Landssambandi bakarameistara geta sent keppanda til leiks og það eru alltaf mjög margir sem taka þátt, því var æðislegt að vinna. Ég setti tvær kökur í keppnina, hugmyndin að þeirri sem vann fæddist ekki fyrr en viku fyrir keppnina en kökurnar eru mjög ólíkar. Sú sem vann er með marensbotni, er með ástaraldin og er miklu léttari í sér. Kakan sem lenti í þriðja sæti þykir minna á ísköku og því er betra að borða hana kalda en það sem er í henni er „Brownie“, skyr, karamellumús og marsipanbotn,“ segir Guðrún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Hugmyndin að köku ársins fæddist ekki fyrr en viku fyrir keppnina en hún er með marensbotni, er með ástaraldin og er létt í sér.

Mosfellsbakarí og framtíðin

Guðrúnu líður vel í Vogum og sér ekki fyrir sér að flytja. „Mér finnst æðislegt að búa í Vogum og keyrslan truflar mig ekkert, ég er að keyra á þannig tíma til og frá vinnu að ég er aldrei á álagstíma. Vinnutími bakarans er auðvitað nokkuð sérstakur en ég er venjulega mætt klukkan sjö í vinnuna og er rúman hálftíma að keyra. Er því alltaf sofnuð snemma, stundum um kvöldmatarleytið, en þá er ég líka vöknuð snemma. Mosfellsbakarí er frábært bakarí að mínu mati, við reynum alltaf að vera með nýjungar og t.d. núna fyrir páskana verðum við með súkkulaðiegg frá Hafliða og spurning hvort við verðum með einhverja spes páskaköku. Verðum með sumartertu og reynum alltaf að vera með nýja tertu fyrir viðkomandi tímabil, t.d. jólatertu.

Hvað framtíðin ber í skauti sér veit maður aldrei, ég veit ekki hvar ég verð eftir þrjú ár. Kannski verð ég búin að opna bakarí í Vogum, ég hef prófað að búa erlendis og kunni vel við það, er mikið í Danmörku vegna námsins og þar eru flott bakarí, það gæti verið gaman að vinna þar. Ég sé bara til, það liggur ekkert á að taka ákvörðun,“ sagði Guðrún Erla að lokum.