Sjálfstæðisflokkurinn 13. - 26. sept
Sjálfstæðisflokkurinn 13. - 26. sept

Mannlíf

Kahnin bjargaði  geðheilsu bæjarbúa
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 10. september 2021 kl. 12:05

Kahnin bjargaði geðheilsu bæjarbúa

með frábærum tónleikum á „ekki“ Ljósanótt. David Bowie Keflavíkur fór á kostum í gamla bænum

„Ég ákvað í vor að halda veglega tónleika á Ljósanótt og láta á það reyna hvernig sem staðan á Covid-19 væri. Langaði að gera þetta veglega en í ljósi stöðunnar þurfti ég að takmarka þetta aðeins og bauð því um 200 manns og þetta gekk mjög vel,“ segir tónlistarmaðurinn Guðmundur Jens Guðmundsson, eða Gummi Kani, eins og hann er þekktur í bítlabænum.

Guðmundur tók upp listamannsnafnið Kahnin og sneri sér að tónlistinni aftur á miðjum aldri en hann söng inn á plötu fyrir margt löngu síðan í Geimsteini Rúnars Júlíussonar. Guðmundur hefur mörg undanfarin ár stýrt sjávarútvegsfyrirtækinu Saltveri sem er í eigu fjölskyldu Þorsteins Erlingssonar, tengdaföður hans.

Viðreisn
Viðreisn

„Svo þegar dæturnar voru orðnar stórar losnaði um tíma hjá mér og þá var kominn tími til að snúa sér að tónlistinni aftur. Með því fékk ég nýja birtu í líf mitt,“ segir Kahnin en hann samdi á síðasta ári fimm ný lög sem hann tók upp í New York. Í þeirri mögnuðu borg ólst Gummi eiginlega upp en fjölskyldan bjó þar lengi þegar faðir hans starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Keflvíkingurinn á orðið fimmtán lög á Spotify sem hann hefur samið á síðustu tveimur árum en þau ásamt fleirum fara inn á tvær plötur á næsta ári. Gummi hefur unnið þessi lög með þekktum erlendum útsetjurum úr tónlistargeiranum og segir það hafa verið frábæra reynslu.

Gummi segist fara víða í tónlistinni og hafi á ferlinum spilað nær allt, danslög og rokk en tónlistin hans núna sé svona „Americana“-músík.

Útvarpskonan Sigga Lund á Bylgjunni kom skemmtilega að orði eftir að hafa verið á tónleikum Kahnans og sagði að hann væri svona David Bowie Keflavíkur. Gummi var í útvarpsviðtali í vikunni á Bylgjunni þar sem hann sagði frá tónleikunum.

Kahnin semur allt á ensku en nokkur laga hans hafa fengið talsverða spilun á útvarpsstöðvum hér heima og vinsælustu lögin hans á Spotify eru komin með á fjórða hundrað þúsund hlustanir. Þá hafa nokkur myndbönd á Youtube fengið mikið áhorf og eitt lag vel yfir eina milljóna spilana. Annars er stefnan hjá okkar manni að halda nokkra tónleika í útlöndum. „Ekki eitthvað stórt en eitthvað,“ segir Gummi hógvær.

Tónleikarnir voru í gamla bænum í Keflavík, við heimili frænda Gumma, á föstudagskvöldið á Ljósanótt sem ekki varð. Fjöldi fólks mætti og hlustaði, allt innan Covid-marka, en það var engu til sparað hjá Kahnanum því með honum í hljómsveit voru tónlistarmenn úr úrvalsdeildinni á Íslandi, stórt svið, alvöru græjur og stemmningin frábær. Kahnin bjargaði geðheilsunni sagði einn gestanna og ljóst að margir voru þakklátir að fá ókeypis tónleika á föstudagskvöldi. Hljómsveitin Midnight Librarian sem var í sviðsljósinu í Víkurfréttum og Suðurnesjamagasíni hitaði upp og Gummi kom svo og söng við góðar undirtekir. Hann var ánægður með útkomuna. „Það var blússandi stemmning. Ég held að fólk hafi þurft á þessu að halda. Þetta er að verða fínt í þessum heimsfaraldri,“ sagði Guðmundur, - Kahnin í Keflavík og aðalstjarna bítlabæjarins þetta föstudagskvöld.